
Sviðssetningin var sem sagt klisjukennd og margtuggin. Við höfum lesið um hana í hundrað milljón bókum, til að mynda öllum glæpasögum Agöthu Christie. Það segir sig eiginlega sjálft að ef maður ætlar að fara inn á svið sjálfrar drottningar glæpasagnanna þá þarf maður annað hvort að skrifa betri morðgátu en hún eða notfæra sér klisjurnar á skapandi hátt, með því að snúa upp á þær og tefla hinu óþekkta gegn hinu þekkta. Carola Dunn gerir hvorugt.
Sagan segir frá hinni siðprúðu blaðakonu Daisy sem dvelur í nokkra daga á Wentwater setrinu til að skrifa um það tímaritsgrein. Meðan á dvöl hennar stendur finnst einn gestanna myrtur og að sjálfsögðu liggja engir undir grun aðrir en þeir sem dvelja á setrinu. Geðþekkur rannsóknarlögreglumað mætir á svæðið og fær Daisy til að aðstoða sig. Það reynist mikið gæfuspor því í ljós kemur að Daisy hefur undraverða hæfileika til að leysa morðgátur með innsæinu einu saman. Hún getur nefnilega séð það á svipbrigðum og andlitsdráttum fólks hver er góður og hver er vondur, hver elskar hvern, hver hatar hvern og allt þar á milli. Málið leysist farsællega á augabragði og glæpamaðurinn játar bljúgur. Hér eru engin óvænt sönnunargögn sem varpa nýju ljósi á málið, engar „rauðar síldir“ né nokkuð annað sem hefði getað gert gátuna spennandi.
Lélega gátu hefði þó mögulega mátt fyrirgefa ef þessi útvatnaða samfélagsmynd hefði verið afbyggð með einhverjum hætti. En Death at Wentwater Court gerir ekkert annað en að festa í sessi bæði hefðbundin kynjahlutverk og stéttasamfélag. Þjónustufólkið slúðrar (á cockney að sjálfsögðu), dömurnar eru hjartahreinar og herrarnir hugdjarfir. Það er að vísu snemma gefið í skyn að lafðin á setrinu hafi ekki hreint mjöl í pokahorninu og maður fer strax að vona að þar leynist ef til vill eitthvað krassandi sem snúi þessu öllu á hvolf. Vonbrigðin eru algjör þegar í ljós kemur að hið myrka leyndarmál hennar er að hún hafði búið um tíma með manni án þess að þau hafi gengið í formlegt hjónaband! Hún er að sjálfsögðu uppfull af eftirsjá og þakklát lávarðinum eiginmanni sínum fyrir að fyrirgefa sér þessi bóhem mistök! Það má vel vera að þetta sé raunsæ lýsing á þeim óraunhæfu kröfum sem gerðar voru til yfirstéttarkvenna á þessum tíma. En langar mig að lesa um þær frá gagnrýnislausu sjónarhorni árið 2011 (nú eða 1994 þegar bókin kom fyrst út)? Svo sannarlega ekki.
Death at Wentwater Court er mögulega tilgangslausasta bók sem skrifuð hefur verið. Hana skortir algjörlega spennandi og sannfærandi fléttu sem ætti annars að vera frumskilyrði glæpasögunnar. Og þeir möguleikar sem felast í því að staðsetja atburðarásina í fortíðinni eru ónýttir með öllu. Nei, fjandinn hafi það, loðkragi eða ekki, ég fell ekki aftur í þá gryfju að dæma bókina af kápunni!
1 ummæli:
Takk fyrir þetta - ég get þá sett þessa á "forðast með öllum tiltækum ráðum" listann.
Ég var einmitt að enda við að lesa bók þar sem talsvert er minnst á föt og tedrykkju, en þó að kvenhetjan sé hugrökk og feministi er hún svo fullkomin og falleg að maður fyllist smám saman hatri í hennar garð. Ekki sniðugt.
Skrifa ummæli