26. maí 2011

Uppgjafarbækur

Rétt áðan lenti ég á þræði hjá facebookvinkonu þar sem verið var að ræða höfundinn Ian McEwan. Það kom í ljós að fleiri en ég heillast ekki umtalsvert af hans bókum. Ég gafst upp, fyrir ekki svo löngu, á Booker-verðlaunabókinni Amsterdam, mér fannst hún óáhugaverð og leiðinleg þó að allt öðru væri haldið fram á kápunni og ég væri spennt þegar ég byrjaði að lesa. Amsterdam fór samt ekki í neinn af kössunum með u.þ.b. hundrað bókum sem ég sendi í Góða hirðinn um daginn. Ég hef sennilega hugsað mér að gera aðra lestrartilraun því þetta hlyti að vera misskilningur hjá mér og bókin í alvörunni rosalega góð, en líklega verður hún send burt í næstu umferð. Önnur bók sem ég gafst upp á fyrir ekki svo löngu er Áform eftir skræfuna Houellebecq (sem þorði ekki til Íslands af ótta við að verða strand hér í öskuskýi). Hún höfðaði ekkert til mín.

Vill ekki einhver segja okkur frá reynslu sinni af meintum góðum bókum sem hafa síðan reynst ólesandi?

20 ummæli:

Ingunn sagði...

Hvað sem er eftir Philip Roth. Tilgerðarlegt og uppskrúfað.
Helv... Flugdrekahlauparinn. Tilfinningarúnk.
Alkemistinn, Ellefu mínútur. Óbærileg leiðindi.
Paula eftir Isabel Allende. Sjá Flugdrekahlauparann.
Vikivaki eftir Gunnar Gunnarsson. Bara leiðinleg, sama hvað Jón Karl segir.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Mér fannst Roth ágætur árið 1990, svo varð hann bara leiðinlegri og leiðinlegri og að lokum steinhætti ég að nenna að lesa hann.

Erna Erlingsdóttir sagði...

Amsterdam er með síðri bókum eftir McEwan. Lestu Eilífa ást (Enduring Love) eða Friðþægingu (Atonement).

baun sagði...

Mér léttir við að lesa þetta. Ég fékk nefnilega bókina Atonement eftir þennan höfund í afmælisgjöf hér um árið og komst aldrei neitt áfram með hana. Fannst hún hrútleiðinleg og skildi ekki meinta snilld McEwans (og fannst ég voða vitlaus eitthvað). Annar höfundur sem ég næ ekki, í takmörkun minni, er Paulo Coelho.

Nafnlaus sagði...

Finnst einhverjum Paulo Coelho vera almennilegur höfundur? Þá á ég við fyrir utan nokkrar stelpur á er.is?

Hildur Knútsdóttir sagði...

Mér finnst Tuesdays With Morrie ofmetnasta bók í heimi, og höfundur hennar, Mitch Albom, vera leiðinlegasti núlifandi rithöfundurinn.

En þeir sem fíla hann fíla yfirleitt Coelho líka.

Tilviljun? Held ekki.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Reyndar man ég það núna að mér fannst Áform alls ekki alsæm. En ég nennti samt ekki að klára hana.

Nafnlaus sagði...

Ian Rankin hér - hef reyndar bara lesið eina bók eftir hann, um einhvern pólitíkus sem skiptist á að vera sekur og saklaus svona 7 sinnum í bókinni og maður varð bara pirraðri og pirraðri og á endanum skítsama hvort var.

Svo byrjaði ég á Prjónaklúbbnum eftir Kate Jacobs um daginn og gafst upp eftir nokkra kafla. Boooriiiing.

Þórunn Hrefna sagði...

Dostójevskí. Ég á þennan leiðindadurg komplett en hef aldrei klárað heila bók. Fyrirgefið guðlastið.

Nafnlaus sagði...

Ég las Glæp og refsingu spjaldanna á milli í bókmenntakúrsi og finnst hún ekkert spes.

Þórdís

Nafnlaus sagði...

Ég fékk persónulegt skeyti frá manni sem fannst Skotgrafarvegur eftir verðlaunamanninn Kari Hotakainen leiðinleg bók. Hún fékk einmitt að gossa hjá mér um daginn. Voða óáhugaverð (ég las hana á sænsku).
Þórdís (það eru leiðindi með kommentin hjá mér, þessi síða vill að ég sé anonymous.)

krummi sagði...

Hún var ekki bara leiðinleg, hún var óbærileg! Maður súrnar innan í hausnum við það að lesa hana!

Þórdís Gísladóttir sagði...

Finnskur kunningi kom í heimsókn á meðan ég var með Skotgrafarveg á borðinu. Hann leit á hana og spurði hvernig í ósköpunum ég gæti afborið að lesa þetta. Svo gaf hann mér skemmtilegar, finnskar teiknimyndasögur.

Sigfríður sagði...

Harry Potter fannst mér svo leiðinlegur að ég sofnaði ítrekað eftir örfáar bls og gafst endanlega alveg upp. Hélt einusinni að ég ætti að lesa Thomas Pynchon en var við dauðans dyr úr leiðindum þannig að ég hætti og hef ekki reynt aftur. Svo finnast mér íslendingasögur frekar svona ofmetið stöff líka.

Harpa Jónsdóttir sagði...

Ég sofnaði yfir Höfundi Íslands. Þrisvar. Þá gafst ég upp. Harry Potter er líka óbærilega leiðinlegur á köflum, þó það séu ágætir sprettir inn á milli.

Unknown sagði...

Ég gafst upp á Atonement eftir margar misheppnaðar atlögur.

Þrælaði mér í gegnum Alkemistann og leið eins og fábjána í bókarlok. Þrælaði mér í gegnum Veroniku og velti því fyrir mér hvort að bókagagnrýnendur væru á lyfjum. Gafst svo endanlega upp á þriðju bók Coehlo sem ég man ekki hver var, vonlaus um að finna meinta snilld höfundar.

Gafst upp á Höfundi Íslands eftir nokkrar tilraunir og hef gefist upp á öllum bókum Vigdísar Grímsdóttur nema Ísbjörgu.

Kristín í París sagði...

Ég er andskotanum þrjóskari og gefst sjaldan upp á skáldsögum. Engin sem kemur upp í hugann sem hefur verið "meint góð". En ég viðurkenni að ég grét pínulítið inni í mér af þjáningu þegar ég þrælaði mér í gegnum Faulkner, The sound and the fury. En ég kláraði samt. Ein bók sem fer ógeðslega í taugarnar á mér að geta ekki lesið, er íslenska þýðingin á Nietzsche, Svo mælti Zaraþústra. Mig langar svo að lesa hana en ég gefst alltaf upp um leið. Um daginn gafst ég líka upp á Landslag er aldrei nauðsynlegt, en líklega verður hún nú samt tækluð fljótlega.

ella sagði...

Rokland takk. Gat ekki klárað. Hallgrímur og ég náum bara ekki saman. Ég segi eins og Kristín að það er afar sjaldgæft að ég guggni á að lesa bók. Væri þó til í að sjá myndina en það byggist eingöngu á aðalleikaranum. Verð samt að segja að það rættist nokkuð úr höfundi Íslands þegar ég þumbaðist við að ljúka við hana.

Króinn sagði...

Harry Potter, ekki spurning. Sjálfsagt frábært barnastöff - en: Hvað það var við þessar bækur sem var svona mikið ,,ekki bara barnabækur" var ofar mínum skilningi - eða neðar - eða eitthvað. Fannst jafn óskiljanlegt að fullorðið fólk nennti virkilega að lesa þetta og ég færi allt í einu, skeggjaður og sköllóttur, að sökkva mér í Kára litla og Lappa af sömu áfergju og ég gerði þegar ég var átta ára.

Kláraði bara tvær fyrstu, það var tveimur of mikið.

Braddie G sagði...

Haha! The picture is funny! :-D But the fact is, books are friends of us. Books play a really important part role in our life. They show us the right direction towards peace, relief, success, and much more. "War and Peace" of Leo Tolstoy is a wonderful book, that has a great impact on my life. I would suggest you to read it. You will find peace in life. One more way to find peace and get relief from stress is, to Buy Etizolam Online