30. október 2011

Ljóðalestur á laugardagskvöldi

Haustið er eitthvað svo góður tími til að lesa ljóð. Ekki að það sé ekki alltaf góður tími til að lesa ljóð, en það er eitthvað svo fallega melankólískt við haustið sem hentar vel til ljóðalestrar, hvort sem viðfangsefnið er titrandi strá á heiði eða argasta klám.

Upp á síðkastið hef ég verið að glugga í doðrantinn The Harvill Book of Twentieth-Century Poetry in English, sem kom út 1999 og hefur að geyma úrval ljóða eftir rúmlega hundrað skáld.
Adrienne Rich í góðu geimi

Svona safnbækur einkennast auðvitað gjarnan af persónulegum smekk/menningarpólitískri stefnu ritstjóra eða hinni viðteknu kanónu, sem rýrir ekki gildi þeirra en er betra að vera meðvitaður um. Ritstjóri þessa rits er fyrrum kennari minn við Glasgow-háskóla, Michael Schmidt, sem einmitt var svo sniðugur að setja bókina á leslista ljóðanámskeiðs sem ég sat hjá honum. Honum hefur reyndar tekist nokkuð vel upp. Michael er sjálfur yfirlýstur módernisti en valið í bókinni er fremur fjölbreytt og virðist vera ágætisspegill á meginstrauminn í enskumælandi ljóðlist á síðustu öld. Vissulega fá hans eftirlætisskáld stórt pláss í bókinni (William Carlos Williams, Ezra Pound og John Ashbery eru hér framarlega í flokki) og formálinn fjallar að miklu leyti um módernistana, en hér kennir fleiri grasa. Þetta er engin jaðarbók - skáldin sem Michael Schmidt hefur valið eru (mis)þekkt nöfn - en fínasta yfirlit. Ég var ekkert sérlega vel lesin í breskri + bandarískri ljóðlist áður en ég flutti til Glasgow (las auðvitað e.e. cummings spjaldanna á milli á menntaskólaárunum, eins og djúpt þenkandi MH-stúlku sæmir ...) og kann þess vegna vel að meta svona yfirlit.Ljóðelskur mávur í Bath
Maður uppgötvar oft eitthvað nýtt í svona safnritum sem verður jafnvel til þess að maður kaupir sér ljóðabækur. Í þessari bók lærði ég fyrst að meta Edwin Morgan, sem maður verður að þekkja ef maður er bókhneigður Glasgow-búi. Hér má lesa ljóðið A View of Things eftir Morgan. Ég fíla margt eftir Elizabeth Bishop þótt hún sé dálítið fjarlæg; ljóðið Questions of Travel finnst mér til dæmis mjög gott. Diving Into the Wreck eftir Adrienne Rich er í uppáhaldi af því sem ég hef lesið eftir hana. Svo er ég agalega, agalega veik fyrir Dylan Thomas, kannski af því að ég bjó í Wales, kannski af því að ég elska Under Milk Wood, eða kannski af því að þetta er svo gott ljóð.

Engin ummæli: