
Fyrsta glæpasaga Söru Blædel, Grønt støv, var reyndar ekki upp á marga fiska, enda var það svo að þegar farið var að þýða bækur hennar á íslensku var byrjað á annarri bókinni í flokknum um lögreglukonuna Louise Rick, Kallaðu mig prinsessu (Kald mig prinsesse) sem var verulega mikið skárri. Síðan hefur Sara Blædel skrifað allnokkrar bækur sem eru svo sem langt frá því besta sem finna má innan glæpasagnahefðarinnar en alveg skikkanleg afþreying. Sjötta sagan í flokknum og sú nýjasta, Dødsenglen, er hins vegar svo foráttuvond, illa plottuð og fyrirsjáanleg að það er langt síðan nokkur bók hefur farið eins í taugarnar á mér.

(Afsakið ef þetta eru fullmiklir sleggjudómar, það eru orðnir nokkrir mánuðir síðan ég las bækurnar og þær voru það leiðinlegar að ég nenni alls ekki að fletta þeim aftur til að rifja þær upp og geta rökstutt mál mitt betur.)

Það er skemmst frá því að segja að ég var svo ánægð með Dybt at falde að ég las allar hinar bækurnar í flokknum snarlega á eftir henni og var að mestu leyti hæstánægð. (Önnur bókin heitir Judaskysset og sú þriðja Kunsten at dø. Fjórða og nýjasta bókin, Den skaldede detektiv, er síst en vonandi er það bara tímabundin lægð.)
Upphafið á Fallið er hátt er býsna frumlegt og skemmtilegt. Þar fylgjast lesendur með hugsunum persónu sem hefur falið sig í þröngum skáp og hefur morð í hyggju. Að morðinu loknu færist sjónarhornið frá morðingjanum til manns sem verður aðalpersónan í bókaflokknum. Auglýsingamaðurinn Dan Sommerdahl hefur verið í veikindaleyfi vegna þunglyndis en er að jafna sig. Hann og konan hans, Marianne, hafa boðið Flemming vini sínum í mat en hann er rannsóknarlögreglumaður og er kallaður út vegna málsins í matarboðinu miðju. Ræstingakona á auglýsingastofunni þar sem Dan vinnur reynist hafa veirð myrt og Flemming ákveður að taka þennan staðkunnuga vin sinn með á vettvang. Dan blandast síðan margvíslega í rannsóknina og leysir málið á endanum en það reynist býsna margbrotið og áður en niðurstaða fæst hafa komið upp ótal flækjur.

Í þriðju bókinni, Kunsten at dø, er brotist inn í vinnustofu myndhöggvarans Kamille Schwerin, skúlptúrarnir hennar brotnir í mél og öldruð móðir hennar myrt í leiðinni. Rannsókn lögreglunnar lendir í blindgötu en Dan, spæjarinn í bókaflokknum, fer að kanna málið þegar hann tekur þátt í sama raunveruleikaþætti og Kamille. Eyjan þar sem raunveruleikaþátturinn er tekinn upp er stór hluti af sögusviðinu en rannsóknin teygir líka anga sína víða um listalífið í landinu.

Það er sameiginlegt einkenni á bókum Önnu Grue, og trúlega eitt af því sem mér líkar best við þær, að plottin eru töluvert margbrotin og æsileg en hafa samt einhverja jarðtengingu og eru nógu vel unnin til að ganga fullkomlega upp innan frásagnarinnar. Svo eru bækurnar líka fjölbreytilegar, þær gerast í mismunandi umhverfi og Anna Grue er ekki föst í einhverri einni formúlu. Ég er hæstánægð með að hafa leiðst út í að lesa bækurnar hennar.
8 ummæli:
Virkar spennandi að kynnast Önnu Grue - nú er bara að dusta rykið af dönskukunnáttunni og sjá hvort það dugi til!
Eins og ég nefndi kom fyrsta bókin nýlega út á íslensku þannig að það er hægt að prófa hana og láta svo vaða í dönskuna eftir það.
Ég á einmitt eftir að lesa Dødsenglen, pantaði hana á bókasafninu hér og var nr. 157 í röðinni ef ég man rétt svo hún er ekki alveg að detta inn. Ég vona að hún verði ekki eins vond og þú lýsir ... Kíki á hinn höfundinn, hef ekki heyrt um hana áður. Hef verið að lesa tvo sænska höfunda, Vivecu Sten og Mari Jungstedt og líkar ágætlega, sú hin síðarnefnda skrifar bækur sem gerast á Gotlandi, sem mér finnst afar sjarmerandi.
Ég væri alveg til í að hafa í bakhöndinni einhverja glæpasagnaseríu með virkilega góðu plotti og helst ófyrirsjáanlegum endalokum - svona fyrir þá daga sem maður er veikur eða vantar almennt eitthvað svona sem "les sig sjálft". Mælir þú með Anne Grue í svoleiðis hlutverk, Erna?
Guðrún Lára: Já, ég get alveg mælt með Önnu Grue í svoleiðis. En hún virkar líka þegar maður er ekki heilalaus.
Dönskukennarinn: Vonandi hefur þessi bloggfærsla náð að tempra væntingarnar til Dødsenglen þannig að lesturinn verði þér bærilegur! Takk fyrir ábendinguna um sænsku höfundana. Ég hef rekist á nöfnin en ekkert lesið , tékka ábyggilega á þeim við tækifæri.
Það má annars nefna líka að áður en Anna Grue byrjaði á seríunni um Dan Sommerdahl hafði hún skrifað tvær stakar bækur: Noget for noget og Det taler vi ikke om. Fyrrnefnda bókin er að ýmsu leyti ágæt en ekki gallalaus, man samt ekki alveg hvað mér fannst að. Hina hef ég ekki lesið.
Erna, ég ætla alls ekki að bera Önnu Grue saman við Dostojevskíj en datt þér nokkuð i hug Glæpur og refsing meðan þú last Noget for noget? Kerlingarbeyglan sem hnýstist í einkamál fólks og kúgaði svo af því fé - hver hefðu verið makleg málagjöld? Hmm, nú er kannski aðeins of langt um liðið síðan ég las hana en mér finnst að ég hafi farið að hugsa um glæp annars vegar og refsingu hins vegar, siðferði og sálarangist. Og var ekki örugglega sæðisgjafinn í þeirri bók ...?
Skemmtilegur punktur með Glæp og refsingu, mér hafði ekki dottið þetta í hug. Og jú, sæðisgjafinn var í Noget for noget.
Skrifa ummæli