7. október 2011

Viðnám ímyndunaraflsins

Þegar við lesum skáldverk er fátt eins mikilvægt og að geta lifað sig inn í það. Það er yfirleitt lítið varið í að lesa skáldsögu ef við finnum ekki til samkenndar með söguhetjunum eða ef hegðun þeirra og viðbrögð eru ekki sannfærandi. Ímyndunaraflið er bráðnauðsynlegt til að fá eitthvað út úr lestri skáldverka og ákveðið samspil milli höfundar og lesanda þarf að koma til. Höfundurinn þarf að setja efnið þannig fram að það nái til lesandans og lesandinn þarf að vera móttækilegur, meðal annars með ímyndunarafli sínu, fyrir efninu. Ef þetta er ekki til staðar er tilganginum ekki náð. Hér má svo velta fyrir sér hvaða skorður, ef einhverjar, ímyndunaraflinu eru settar. Getum við ímyndað okkur, og lifað okkur inn í, hvað sem er? Vantar eitthvað upp á frjósemi ímyndunaraflsins ef við getum það ekki?
Mörg okkar njóta þess að lesa alls konar fantasíubókmenntir eða aðrar bókmenntir þar sem söguhetjur, jafnt mannlegar sem annarra tegunda, eru í alls konar langsóttum aðstæðum sem geta verið afar ólíkar nokkru sem á sér stað í raunveruleikanum. Við förum létt með að ímynda okkur flakk milli heima og vídda, alls konar galdra og öfl sem ekki eru þessa heims, talandi dýr og yfirnáttúrulegar furðuskepnur og ótal margt fleira. Við gætum þess vegna hlegið og grátið með fjölkunnugri drekakanínu sem berðist við sjávaranda úr fortíðinni og flakkaði milli tímavídda. En þýðir þetta að ímyndunarafl okkar eigi sér engin takmörk? Er hægt að lifa sig inn í hvað sem er?
Hér koma hugleiðingar heimspekinga til sögunnar. Fyrir rúmum 250 árum skrifaði David Hume:
Þó að íhugunarvillur sé að finna í siðmenntuðum skrifum allra tíma og þjóða þá draga þær ekki nema lítið úr gildi þessara verka. Einungis þarf litla breytingu á blæbrigðum í hugsun eða ímyndun til að við tökum á okkur þær skoðanir sem þá ríktu og lærum að meta þau sjónarmið eða niðurstöður sem leiddar eru af þeim. En afar heiftarlegt átak gerist nauðsynlegt ef breyta skal dómum okkar um hegðun og vekja kenndir á borð við velþóknun eða álösun, ást eða hatur, frábrugnar þeim sem hugur okkar hefur lengi mátt venjast … Ég get ekki, né væri það viðeigandi að ég gerði svo, gengist undir slíka [lastafulla] afstöðu (David Hume, „Af mælikvarða smekksins“).
Hume taldi sem sagt að þótt við gætum sett okkur í spor fólks á fjarlægum slóðum eða á öðrum tímum og þannig metið hluti útfrá aðstæðum ólíkum okkar eigin þá gilti það ekki þegar um væri að ræða gildisdóma á borð við þá sem varða siðferði. Og hann segir að það væri beinlínis rangt af okkur að reyna. Hume er svo sem ekki sérstaklega að fjalla um ímyndunaraflið eða skáldskap en það hafa aðrir heimspekingar gert, mun nær okkur í tíma, og sett þessi orð hans í slíkt samhengi. Tamar Szabó Gendler hefur þannig fjallað um það sem hún kallar ímyndunarviðnámsráðgátuna (e. puzzle of imaginative resistance) og þar lagt út af orðum Humes. Ímyndunarviðnámsráðgátan snýst um það að suma hluti eigum við afar erfitt með að ímynda okkur. Við getum ímyndað okkur heim þar sem manneskjur hafa vængi og geta flogið, þar sem verur með fjögur höfuð ráða ríkjum eða þar sem ýmiss konar náttúrulögmál eru brotin en það er afar erfitt, ef ekki ómögulegt, að ímynda sér heim þar sem rétt er að drepa barn á þeim forsendum að það sé stúlka, þar sem nauðganir eru réttmætar eða þar sem það besta sem hægt er að gera fyrir nokkurn mann er að pynta hann.
Kendall Walton hefur bent á svipaða hluti en vill ekki setja þá fram á sama hátt og Gendler. Hann vill gera greinarmun á því sem snýr að ímynduninni og því sem lýtur að skáldskap. Það sem greinargerðir beggja eiga þó sameiginlegt er að litið er svo á að hugmyndir um siðferði og annað gildismat séu það sem setja ímyndunaraflinu eða skáldskaparinnlifuninni einna mestar skorður. Gildismat okkar, ekki síst hið siðferðilega, liggur svo djúpt í okkur að við fáum okkur ekki einu sinni til að ímynda okkur eitthvað sem gengur gegn því eða lifa okkur inn í aðstæður þar sem það hefur ekkert vægi. Það virðist jafnvel eitthvað siðferðilega rangt við það að leyfa sér að ímynda sér að morð og limlestingar séu réttmæt.
Það virðist þó ekki bara vera eitthvað siðferðilegt sem truflar ímyndunarafl eða innlifun. Sjálf á ég að minnsta kosti erfitt með að lifa mig inn í líf sögupersónu sem hefur tilfinningalíf sem mér finnst of furðulegt eða ekki nógu sannfærandi. Það virðist ekki trufla trúverðugleika sögupersónu að hún sé þríhöfða þurs sem étur skósvertu í hvert mál og svífur um óháð þyngdarlögmálinu en ef hún gerir ekki greinarmun á sorg og gleði eða lætur sér standa á sama um sína nánustu þá verður hún svo framandi að sagan verður of fjarstæðukennd til að ég geti lifað mig inn í hana. 

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er sammála, og þetta er einmitt ástæðan fyrir þvi að ég gafst upp á Bjargvættinum í Grasinu (Catcher in the Rye). Karakterinn náði engan veginn til mín, varð "svo framandi að sagan [varð] of fjarstæðukennd til að ég geti lifað mig inn í hana."

Þórdís Gísladóttir sagði...

Haha, ég lifi mig algjörlega inn í Catcher inn í Ray því ég er Holden Caulfield.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Vá, þessi pistill er frábær! Hef eiginlega ekkert gáfulegt um hann að segja í augnablikinu, þarf að hugsa um þetta fyrst - en þetta er gooooott stöööööff.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Í leikhúsfræðinni er yfirleitt talað um "willing suspension of disbelief" sem einhvers konar sáttmála milli áhorfenda og leikara. Það er víst komið frá Coleridge, þ.e.a.s. frasinn, en það vissi ég ekki fyrr en ég gúgglaði hann rétt í þessu.

Nafnlaus sagði...

Ég er algjörlega ósammála þessu! Það sem mér finnst einmitt einkenna mjög góða bók er þegar manni tekst að setja sig í spor einhvers sem er eða gerir eitthvað siðferðilega brenglað/rangt.
Og það þarf eitthvað mikið til til þess að ég nenni að lesa eitthvað þar sem aðalpersónurnar eru verur sem eru ekki af þessum heimi (örugglega mikið til fordómar í mér), þó ég hafi reyndar verið mikið fyrir CS Lewis sem barn.
Og þó ég sé kannski ekki Holden Caulfield, þá lét ég mig dreyma um að ég væri ástkona hans í fyrsta skipti sem ég las bókina og móðir hans í seinna skiptið. Elska þessa bók í spað.
Katla