Ég hef stundum furðað mig á kenningum kristninnar um erfðasynd: að börn séu brotleg frá fyrstu stund gagnvart æðra máttarvaldi, samsek í syndum mannkynsins og skuli upp frá því vinna markvisst í yfirbót. Kannski þetta sé eitthvað skiljanlegra fyrir kaþólikkunum með sín aflátsbréf og sálnafyrirbænir ‒ Lúther hafði jú af okkur hreinsunareldinn, þar með viðskiptafaktorinn og gerði ferlið allt svarthvítara og ósveigjanlegra. En sem ég nú velti þessu fyrir mínu trúlausa sjálfi finnst mér augljóst að möguleikinn á raunverulegri erfðasynd felist í þeirri arfleifð genasamsetningar og ytri aðbúnaðar sem foreldrar okkar létu okkur eftir og kunna að móta okkur varanlega, hvort sem er til hins betra eða verra.
Sögumaður bókarinnar Allt er ást (Och allt skall vara kärlek) eftir Svíann Kristian Lundberg lítur svo á að hann, sem sjálfur er bæði faðir og sonur, hafi fæðst „inn í sjúkdóm og stétt“ (43); yfirgefinn af áfengissjúkum föður og uppalinn af geðveikri móður í lágstéttar-innflytjendahverfi í Malmö. Höfundur vann til bókmenntaverðlauna sænska ríkisútvarpsins 2012 fyrir bókina, sem kom nýlega út hjá Bjarti í aldeilis fínni þýðingu druslubókadömunnar Þórdísar Gísladóttur (sem hefur fjallað um Lundberg, og lítillega um þessa bók, í fyrri pistli hér á síðunni).
Sagan virðist sjálfsævisöguleg upp að töluverðu marki, og líkt og Fríða Björk Ingvarsdóttir benti á í Víðsjárpistli á dögunum fellur hún inn í hefð bókmennta sem fjalla um skáldskaparskrif á meðvitaðan hátt; sögumaðurinn (í þessu tilfelli alnafni höfundar) leyfir lesanda að fylgjast með aðdraganda og tilurð verksins sem hann hefur í höndum. Einn helsti hvati hans við skriftirnar er upprifjun: „Sá sem man er sá sem öðlast frelsi því hann á líka sögu sína.“ (37) Minnið er auðvitað mikilvæg forsenda allrar frásagnar, en á hinn bóginn getur frásögn styrkt minnið; vilji maður muna, minninganna vegna, þá skrifar maður. Þó sér sögumaður einnig vissa uppgjöf í skrifunum; lítur ef til vill svo á að með þeim leiðbeini hann öðrum við lífið, í anda klisjunnar að þeir sem ekki geti gert hlutina sjálfir geti þó að minnsta kosti kennt þá: „...ég held að allar frásagnir séu í eðli sínu líkar kviksjársýn, að þær skýri í raun frá því sem mislukkast. Við vildum tala og lifa en gátum það ekki og því skrifuðum við.“ (38)
Sögumaðurinn/persónan/höfundurinn Kristian Lundberg leitaði ungur skjóls í vímu en hvarf frá neyslu eftir að hafa verið hætt kominn 26 ára gamall. Á frásagnar/ritunartíma sögunnar hefur hann verið allsgáður í um tvo áratugi og gefið út fjölda bóka í millitíðinni. Hann býr með syni sínum við kröpp kjör og vinnur ýmis ófaglærð störf, hafandi ungur helst út úr skólakerfinu, en skriftir eiga hug hans allan: „Í mörg ár vann ég líkamlega vinnu og skrifaði í fríum. Ég upplifði það öfugt. Að skrifa var það sem skipti máli.“ (92) Hann ver ári til starfa á Planinu svokallaða, en þangað eru verkamenn ráðnir dag í senn gegn lúsarlaunum til að leggja bílum annarra. Veran þar verður honum hvati að ritun sögunnar: „Það er hugsanlegt að hin raunverulega frásögn [..] hafi byrjað á sömu sekúndu og ég gekk út af planinu... [...] ...þá afneitaði ég líka reglunum sem neyddu mig til undirlægjuháttar. [...] ...vinnan á Planinu var ekki bara vinna, ekki hvaða vinna sem var, hún var endurkoma til manns sem ég hafði gleymt að ég væri.“ (19‒20) Sem stéttvilltur Svíi á plani meðal fjölda réttindalausra innflytjenda fær hann tilefni til að rýna í eigin stöðu. Hvað veitir manneskju tilverurétt ‒ stimplaðir pappírar og aðrar staðfestingar samfélagsins, eða eitthvað allt annað?
Raddir innflytjenda án borgaralegra réttinda verða auðveldlega þaggaðar og þá skortir ekki hvað síst úrræði til að láta í sér heyra í samfélaginu. Sögumanni bregst reyndar ekki skáldleg sýn á þögn þeirra félaganna á planinu gagnvart yfirmönnnum sínum: „...Að þegja er stundum það eina mannlega sem eftir stendur.“ (37) Þó þegir hann ekki sjálfur ‒ hann skrifar, og það sem meira er, kemur textanum til utanaðkomandi viðtakenda, enda er þögnin aldrei „það eina sem eftir stendur“ fyrir honum.¹ Öll höfum við val um hvað staðfestir mennsku okkar við mismunandi aðstæður í lífinu - það getur verið dauðinn, eða ástin, en þeir vita sem reynt hafa að næsta ógerlegt er að eiga í ástarsambandi við manneskju sem ekki er nægilega annt um sjálfa sig. Ástin heldur sögumanni gangandi og er miðlæg gegnum allan textann sem mótvægi við sjálfshatrið, ástin til konu sem yfirgaf hann fyrir löngu og sem hann, eftir áralanga þögn, herðir sig loks upp í að tala við aftur: „Ef ástin hefði ekki komið og breytt öllu, þá hefði ég aldrei staðið hérna: gegnsósa af framtíð og sögu, eltur uppi.“ (10) Fortíðinni verður varla breytt eða arfleifð foreldranna strokuð út en við ráðum því sjálf hvernig við vinnum úr henni, hvort við skrifum söguna áfram þannig að úr verði okkar eigin. Allt er ást er saga af glímunni við að fyrirgefa og létta af sér arfleiddum syndum feðranna, sættast við beiska fortíð og skapa ástinni rými í hennar stað. Falleg saga, æðrulaus og sterk.
- - - - - - -
¹ Þess má geta að á langri ritaskrá Lundbergs er m.a. að finna ljóðabók með titlinum Sá sem ekki talar er dauður (Den som inte talar är död, 2003).
2 ummæli:
En skemmtilegt. Get ekki beðið eftir að setjast niður með þessa í íslenskum grasbala.
Grasbali er svo gott orð! einhvernveginn alls ekkert viss um að þeir fyrirfinnist eins víða í útlöndum...
Skrifa ummæli