17. október 2012

Margaret Atwood: The Blind Assassin

„Tíu dögum eftir að stríðinu lauk keyrði Laura systir mín út af brú.“ Svona hefst The Blind Assassin eftir Margaret Atwood og fljótlega á eftir fylgir blaðafrétt um dauða Lauru árið 1945, þá formáli skáldsögunnar The Blind Assassin eftir Lauru Chase með útgáfuárið 1947 og inn á milli næstu kafla á eftir eru m.a blaðafréttir af andláti iðnjöfursins Richards E. Griffen 1947 og banaslysi Aimee dóttur hans árið 1975. Í dánarfregnunum er líka minnst á Iris Chase Griffin, systur Lauru, konu Richards og móður Aimee, sem var sú sem rifjaði upp dauða Lauru og viðbrögð sín við honum í upphafskaflanum. Um Iris hverfist síðan stór hluti bókarinnar.

Mér finnst oft skemmtilegt trikk þegar blaðafréttir og annað þykjustu-ekta-efni er notað í skáldsögum þannig að þetta lofaði strax góðu og ennþá meira spennandi var hversu margar spurningar vöknuðu strax í byrjun. Hvaða fólk er þetta sem minnst er á, af hverju kemur fram að dóttur Aimee hafi verið komið í fóstur hjá Winifred afasystur sinni en ekki ömmunni Iris, hvert er hlutverk skáldsögunnar í sögunni, hversu langt tímabil spannar frásögnin? Og þannig mætti lengi telja.

Smám saman kemur í ljós að bókin er a.m.k. þreföld í roðinu. Meginþræðirnir eða lögin í frásögninni eru:
  1. Fyrstu persónu frásögn sem lögð er Iris í munn og gerist á ýmsum tímaplönum: hún segir frá sjálfri sér í samtímanum sem gamalli konu en rifjar líka upp æsku sína og aðra fortíð, þar með talin samskiptin við fólkið sem hér hefur verið nefnt.
  2. Kaflar úr fyrrnefndri skáldsögu en Iris hafði annast útgáfu hennar að Lauru látinni. Þar greinir frá leynifundum elskenda og í þessum hluta eru m.a. sagðar æsilegar sögur af geimverum.
  3. Umræddar geimverusögur sem eru þá saga í sögu í sögunni.
Inn á milli hefðbundinna bókarkafla er svo reglulega krydd á borð við bréfaskrif og fleiri blaðafréttir. Áhugafólk um metafiksjón fær heilmikið fyrir sinn snúð.

Þegar líður á bókina koma í ljós sífellt meiri tengsl milli þráðanna þriggja, án þess að þau séu útskýrð og það er ekki fyrr en í bókarlok sem fyllilega skýrist hvernig allar sögurnar tengjast. Þótt mig hafi verið farið að gruna ýmislegt og endirinn kæmi ekki á óvart fylltist ég samt svo mikilli forvitni um það hvernig Atwood hefði spunnið kóngulóarvefinn að mig langaði eiginlega að byrja strax aftur á byrjuninni til að kanna málið. Hvenær birtust fyrstu vísbendingarnar um það hvernig hlutirnir héngu saman og hversu margar voru þær? Hafði ég hnotið um flestar þeirra eða kannski misst af helmingnum?

Geimverusögurnar voru langsístar aflestrar – enda ekki endilega ætlað að vera meðal betri frásagna af þeirri tegund – en í heildarsamhenginu eru þær mikilvægar og þótt það sé oft freistandi að fletta hratt þar í gegn væri misráðið að hlaupa alveg yfir þær.

Skemmtilegasti þráðurinn er tvímælalaust sá sem snýst um Iris. Persónulýsingin sem þar er dregin upp er margbrotin og spennandi, Iris er meinfyndin og það er oft forvitnilegt hvernig ýmis af umfjöllunarefnum sem eru gegnumgangandi í bókinni, þar á meðal vangaveltur um minningar og frásögn og sannleika, tengjast beint og óbeint upprifjunum hennar. Í tengslum við þær er líka forvitnilegt hversu margt Iris lætur greinilega ósagt og reyndar dregur hún enga dul á það því hún segir beinlínis: „I look back over what I've written and I know it's wrong, not because of what I've set down, but because of what I've omitted.“

Enn eitt sem hreif mig sérstaklega er hvernig Atwood lætur Iris hugsa um líkamann, þar á meðal hvernig hún upplifir það að eldast:
„After having imposed itself on us like the egomaniac it is, clamouring about its own needs, foisting upon us its own sordid and perilous desires, the body's final trick is simply to absent itself. Just when you need it, just when you could use an arm or a leg, suddenly the body has other things to do. It falters, it buckles under you; it melts away as if made of snow, leaving nothing much. Two lumps of coal, an old hat, a grin made of pebbles. The bones dry sticks, easily broken.“

Í annars konar líkamlegri frásögn er heilmargt um hjónaband Irisar og Richards sagt í fáum orðum:
„Sometimes — increasingly, as time went by — there were bruises, purple, then blue, then yellow. It was remarkable how easily I bruised, said Richard, smiling. A mere touch would do it. He had never known a woman to bruise so easily. It came from being so young and delicate.
He favoured thighs, where it wouldn’t show. Anything overt might get in the way of his ambitions.
I sometimes felt as if these marks on my body were a kind of code, which blossomed, then faded, like invisible ink held to a candle. But if they were a code, who held the key to it?“

Þessi tengsl milli líkamans og sögunnar og minninga finnst mér líka heillandi:
„My bones have been aching again, as they often do in humid weather. They ache like history: things long done with, that still reverberate as pain. When the ache is bad enough it keeps me from sleeping.“

Mér skilst að The Blind Assassin þyki ekki ein af bestu bókum Atwood, og ég trúi því svosem því hún er vissulega dálítið ójöfn en það er samt svo margt frábærlega gert í henni að ég get óhikað mælt með lestrinum.

Því miður er The Blind Assassin bara önnur bókin sem ég les eftir Margaret Atwood, sú fyrri var The Handmaid‘s Tale sem ég las mér til ánægju fyrir löngu. Eiginlega er stórskrýtið að ég skuli ekki hafa lesið meira eftir hana því ég hef árum saman vitað að hún væri höfundur sem félli mér líklega í geð. Þegar Atwood var hér á bókmenntahátíð árið 2005 styrktist ég mjög í þeirri vissu því ég féll í stafi yfir því hvað hún var klár og hnyttin, bæði í verkunum sem hún las úr og þegar hún sat fyrir svörum. Það gerði mig ennþá ákveðnari í að vilja lesa margt og mikið eftir hana en tíminn hefur tilhneigingu til að gufa upp. Nú er ég samt ákveðin í að gera eitthvað í málinu. The Cat‘s Eye hefur alllengi verið til taks í einum af ólesnu bókastöflunum og sennilega byrja ég á henni en ég gæti þegið ábendingar um það hvert ég ætti að snúa mér eftir það. Hverjar eru uppáhaldsbækurnar ykkar eftir Margaret Atwood?

7 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

The Edible Woman.

Nafnlaus sagði...

Eiginlega á ég ekki uppáhaldsbók eftir Margaret Atwood. Hún er samt algerlega uppáhalds.

Þórdís Kristleifsdóttir

Nafnlaus sagði...

Mögulega mín uppáhalds eftir Atwood, en eins og kommentari segir hér að ofan er erfitt að velja. Ég tengdi einmitt langminnst við scifi-söguna en fattaði svo þegar á leið að það leyndist ansi mikið í henni og hún er mikilvæg í hinu stærra samhengi.

Salka

Erla Elíasdóttir Völudóttir sagði...

The Blind Assassin er enn uppáhaldið mitt í minningunni, af þessum slatta af bókunum hennar sem ég las í menntó og þarf greinilega að fara að tékka á aftur... Alias Grace fannst mér mjög góð líka.

Nafnlaus sagði...

The Handmaid's Tale.

Ekki spurning.

Sigfríður sagði...

The Edible Woman og Cat´s Eye

Erna Erlingsdóttir sagði...

Þegar ég skrifaði þetta var ég á því að The Blind Assassin væri ekki ein af bestu bókum Atwood en ég hef skipt um skoðun síðan og finnst hún algjörlega brilljant.