 |
Hvíta borgin: Á heimssýningunni í Chicago 1893 |
Undanfarið hefur frístundalestur minn mikið til snúist um fræðibækur og „bækur almenns efnis“ eins og það heitir á bókmenntaverðlaununum, en ég fór úr
rússíbanareið Mary Roach um heim dauða og rotnunar yfir í skuggaveröld heimssýningarinnar í Chicago árið 1893. Kveikjan að því var bók um sögu Chicagoborgar sem ég las í námskeiði í vor,
Nature´s Metropolis. Chicago and the Great West eftir William Cronon, sem ég var ansi hrifin af þótt um væri að ræða hagsögulegan doðrant, sem ég legg mig vanalega ekki mikið eftir. Cronon fjallar um þróun kapítalísks samfélags í Bandaríkjunum á síðari hluta 19. aldar og vöxt Chicago í samspili við landflæmið í vestrinu, með lifandi lýsingum á umbreytingu kátra svína í fryst og pakkað kjöt og áhrifum járnbrautarlestanna á tímaskynjun fólks, svo fátt eitt sé nefnt. (Í huga mér kölluðust svínakjötslýsingarnar á við skemmtilegustu kaflana í einni af jólabókaflóðsbókum síðasta árs,
Landvættum eftir Ófeig Sigurðsson, þar sem litlir grísir, beikon og kæfa koma einmitt ósjaldan fyrir.)
Í lokakafla
Nature´s Metropolis er sagt frá heimssýningunni sem haldin var í Chicago árið 1893 og var gríðarlega mikilvægur viðburður í sögu borgarinnar. Chicagobúar höfðu orðið fyrir miklu áfalli árið 1871, þegar bruni eyddi stórum hluta miðborgarinnar og hundruð manna dóu, en með heimssýningunni 1893 reis fönix Chicago úr öskunni og yfirburðir borgarinnar voru staðfestir á þessum tímum hins mikla kapphlaups bandarískra borga um stöðu „Næstu stórborgar“. Með heimssýningunni var Chicago einnig í samkeppni við París, en þar hafði verið haldin glæst heimssýning árið 1889 og Eiffelturninn byggður af því tilefni. Svar Chicago við Eiffelturninum var það sem á ensku er kennt við verkfræðinginn skapara sinn og kallað
Ferris wheel, en af einhverjum kaldhæðnislegum ástæðum kenna norræn tungumál það við samkeppnisaðilann París og kalla parísarhjól.
Ég ákvað á dögunum að ná mér í aðra og léttari bók um heimssýninguna í Chicago,
The Devil in the White City eftir Erik Larson, en hún hefur þann dramatíska undirtitil
Murder, Magic, and Madness at the Fair that Changed America. Titillinn vísar til þess að hluti heimssýningarinnar var þekktur sem
Hvíta borgin vegna hins ljósa yfirbragðs bygginganna, sem voru klæddar gifsi.
The Devil in the White City segir tvær sannar sögur, annars vegar af tilurð og framgangi heimssýningarinnar og hins vegar af ferli raðmorðingjans dr. H. H. Holmes, sem stundaði iðju sína í borginni á svipuðum tíma.