Það er ekki út í bláinn að Bragi skiptir bók sinni í tvennt; við lesturinn kemur berlega í ljós að það er talsverður munur á fyrri og seinni ljóðunum, bæði hvað varðar andrúmsloft og stíl. Fyrri hlutinn er hrárri, einhvern veginn æstari og úthverfari; það veður á skáldinu. Ljóð Braga minna mig sumpart á bít-skáldin en ekki síður á ungskáld 9. áratugarins - það er pönk í honum og sprengikraftur. Í seinni hlutanum hemur hann kraftinn meira og ljóðin eru nákvæmari, meitlaðri og að mínu mati betur heppnuð einmitt vegna þess, þótt það sé reyndar líka gaman að lesa fyrri hlutann og fara með í rússíbanareiðina:
Svo frussast sorgin útum augntóftirnar,
fossar niður kinnarnar,
beljar yfir brosið.
Spyr _______ ráða.
Hann/Hún svarar í ótrúlega fallega meitluðum
setningum lausnum við öllu.
Hahaha!
Það er heimsósómastemning í bókinni og sjónarhornið er napurt:
Unga afl,
von breytinga,
bylting Íslands
er glerbrot og gubb.
Handahófskennt fálm.
Vandræðalegt kynlíf.
Miðbær Reykjavíkur
drap Che Guevara.
Þrátt fyrir vonleysið er textinn ekki fjarlægur eða firrtur, langt frá því, enda er ljóðmælandinn fyrirferðarmikill og jafnvel aðgangsharður við sjálfan sig. Litlar ljóðsögur af fólki og atburðum þótti mér gaman að lesa, til dæmis söguna af iðnaðarmanninum sem dúkkar upp úr fortíðinni. Þar hefði samt meiri nákvæmni og niðurskurður gert gæfumuninn og það er líklega stærsti gagnrýnipunkturinn í heildina litið; skáldið mætti velja meira og hafna, finna kjarnann og fórna því sem dregur broddinn úr ljóðunum. Þá á ég ekki við meiriháttar stílbreytingu eða að Bragi hafni eigin röddu fyrir einhvers konar mínímalisma - hann vill ryðjast öskrandi fram og eins og hann minntist á í Víðsjárviðtalinu endurspeglar kakófónían í ljóðum hans kakófóníuna í samfélaginu. Við erum einmitt öll stöðugt að öskra og kæfa hvert annað með öskrum. Það er hins vegar oft þannig með anarkískustu listformin að þau útheimta mesta agann og blekkja þannig lesandann/áhorfandann/hlustandann.
Sjálfshæðnin er aldrei langt undan í bókinni né háðsleg meðvitund um formið. Fullkomið ljóð endar á þessum fleygu orðum:
Djöfull varstu að lesa fokking gott ljóð.
Til hamingju.
Rödd skáldsins verður skýrari og sterkari í seinni hluta bókarinnar sem boðar að sjálfsögðu gott; Bragi Páll er mættur til leiks og vonandi kominn til að vera.
*þið afsakið vandræðalegan titil en þegar mér einu sinni hafði dottið þetta í hug gat ég ekki sleppt því að nota þetta langa og asnalega heimasmíðaða orð