16. apríl 2009

Börn og menning á leiðinni

Dyggir lesendur Barna og menningar geta farið að hlakka til því fyrra hefti ársins 2009 mun senn renna úr prentvélinni.

Meðal efnis má nefna stórskemmtilega grein Lönu Kolbrúnar Eddudóttur um teiknimyndapersónuna Tinna og höfund hennar Hergé. Arndís Þórarinsdóttir skrifar athyglisverða grein um Ljósaskipta-bækur Stephenie Meyer, sem eru umdeildar en hafa slegið í gegn og sú fyrsta kom út á íslensku fyrir skömmu. Tvær snjallar dömur sem skrifa á þessa síðu, þær Þorgerður E. Sigurðardóttir og Maríanna Clara Lúthersdóttir eiga greinar í blaðinu; grein Þorgerðar fjallar vítt og breitt um bækur sem höfða jafnt til yngri sem eldri lesenda en grein Maríönnu fjallar um bókina Strákurinn í röndóttu náttfötunum, sem tilheyrir flokki svokallaðra helfararbókmennta. Svo er auðvitað allskonar annað skemmtilegt efni í blaðinu, t.d. umfjöllun um nýlegar barnabækur, leikhús fyrir börn og ljósmyndasýningu í Þjóðminjasafninu.

Börn og menning, sem gefið er út af Íslandsdeild IBBY-samtakanna, kemur út vor og haust. Áskrift fyrir einstaklinga kostar 2800 krónur á ári og hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst á netfangið bornogmenning@gmail.com eða gera vart við sig í athugasemdakerfinu hér fyrir neðan.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Af hverju er bara tiltekið hvaða erlendu bækur fjallað er um í blaðinu? Eru íslensku bækurnar ekki nógu merkilegar til að ástæða sé að nefna þær á nafn? Eru höfundar greinanna merkilegri en umfjöllunarefnið?

GK

Þórdís Gísladóttir sagði...

Já, það er nákvæmlega þannig! Djók.

Nei, þetta stendur nú líklega bara svona vegna þess að þessar greinar eru lengstar og falla allar í þemaflokk um bækur sem höfða til breiðs aldurshóps og hafa jafnvel verið markaðssettar með ólíkum hætti fyrir ólíkan aldur.

Annars er þetta engin fréttatilkynning heldur bara eitthvað sem ég hripaði hérna niður í gleði minni í gær yfir fallega blaðinu - það á alveg eftir að "markaðssetja" nákvæmlega þetta eintak af Börnum og menningu og þegar að því kemur verður líklega minnst á alla; ritstjóra jafnt sem óbreytta skríbenta, karla og konur, rithöfunda, útlendinga og Íslendinga.

Nafnlaus sagði...

Ókilídókilí

GK