Steinar Bragi vakti nokkuð verðskuldaða athygli fyrir ári síðan með skáldsögunni Konur sem var nýverið tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Íslands hönd.
Nú er hinsvegar komin út bókin Himininn yfir Þingvöllum sem inniheldur þrjár nóvellur sem tengjast í sjálfu sér ekki að öðru leyti en því að þær fjalla allar um dauðann í einhverjum skilningi. Munu lesendur heillast jafn hressilega af Himninum yfir Þingvöllum og Konum? Ég er ekki viss um það, þó ekki væri nema vegna þess að sögurnar eru nokkuð misjafnar að gæðum.
Fyrsta sagan í bókinni, Rafflesíublómið er býsna vel unnin, aðalpersónunni í þeirri sögu svipar til margra þeirra sem birst hafa í bókum Steinars Braga, einangraði lónerinn sem flækist inn í atburðarás sem lyftir tilveru hans á annað plan.Ungur maður hefur komið sér fyrir í íbúð látins afa síns til að skrifa háskólaritgerð um Laxness en þau plön fara út um þúfur þegar ung, ónefnd stúlka tekur að venja komur sínar til hans. Steinar Bragi fetar oft þverhnípið á milli kunnugleika og framandleika í verkum sínum og það gerir hann einnig hér, heimur sögunnar er örlítið á skjön, Reykjavíkin sem birtist hér er ekki alveg eins og hún á að sér. Sögufléttan er vel unnin og persónusköpunin er forvitnileg, sagan nálgast það jafnvel stundum að vera fyndin, en fyndni er ekki það fyrsta sem manni dettur í hug þegar skáldskapur Steinars Braga er annars vegar.
Önnur sagan, Dagur þagnar fjallar um ungt par sem dvelst á skíðahóteli í Ölpunum yfir sumar þar sem hún vinnur en hann stundar skriftir. Það verður að segjast eins og er að þessi saga missti algerlega marks hjá mér. Hér víkur byggingin fyrir löngum samtölum og vangaveltum persónanna en það er ljóst frá upphafi að sambandsslit eru í farvatninu. Undarleg miðaldra karlpersóna flækist inn í líf þeirra og sú flækja hefði getað orðið áhugaverð, en öll spenna hverfur í endalausum heimspekilegum vangaveltum og söguþráðurinn verður einfaldlega undir. Höfundurinn nær einhvern veginn ekki að halda þræðinum almennilega, allt rennur saman.
Þriðja sagan, Svarti hluturinn, hafði líklegast mestu áhrifin á mig. Hér er höfundurinn á kunnuglegum slóðum, en fyrir skáldsögur hans hverfast gjarnan í fantasíur og þessi saga er af þeirri gerðinni, með tilheyrandi heimsendatilfinningu og myrkri. Hugmyndin um manninn sem lifir einn í yfirgefinni borg hefur líka áður birst í skáldsögu Steinars, Sólskinsfólki . Hér segir frá dreng og stúlku sem eru stödd á olíuborpalli sem stendur í miðri eyðimörk, sjórinn er nefnilega horfinn. Dag einn birtist maður á hestbaki og þá breytist auðvitað allt. Hann hefur yfirgefið yfirgefnu borgina til að finna svarta hlutinn. Þessi saga er langt frá því að vera gallalaus, söguþráðinn hefði gjarnan mátt þétta, of margir útúrdúrar og endurtekningar veikja bygginguna og minnka spennuna. Hér er myndmálið hinsvegar áhrifamest, hugmyndin um svarta hlutinn sem allir leita að en enginn vill finna er býsna mögnuð og henni fylgja myndir sem eru ógleymanlegar, ekki síst myndin af svarta fílnum sem sýgur næringu úr eigin endaþarmi. Púff.
Hér má þannig finna margt af því sem vakið hefur áhuga og aðdáun á skáldskap Steinars Braga en miðjusögunni hefði að mínu mati gjarnan mátt sleppa.
Þorgerður E. Sigurðardóttir
7 ummæli:
Mér finnst að það hefði bara átt að gefa út fyrstu söguna.
Ég er ósammála, mér finnst þessar sögur allar í kippu flottur pakki. Svarti hluturinn minnti mig smá á Halastjörnuna eftir Tove Jansson, heimsendaþema og hafsbotninn þornaður upp! Ég sá hana líka alveg fyrir mér sem teiknimyndasögu. Sagan um parið á hótelinu er seigust en hún sneri mér í nokkra hringi og skildi mikið eftir. Það tók mig smá tíma að átta mig á tengingunni milli þess sem steingervingafræðingurinn segir í upphafi (um fuglana), við líf rithöfundarins, örlög konunnar sögunni minna á örlög stelpunnar í Konum. Það er dálítið síðan ég las þessar sögur og ég sagði þá að þetta væri bók sem hæpið væri að bjóða miðaldra konum því þetta væri bók fyrir alvöru töffara og þá sá ég fyrir mér einhverja gæja í Hamrahlíð sem fíluðu bækur almennt voða lítið nema Eitur fyrir byrjendur eftir EÖN sem þeim fannst mögnuð bók :)
Hér er líka strákur sem fílar konseptið: http://midjan.is/2009/12/06/bokaryni-himininn-yfir-thingvollum/
Ég leyfi mér að fullyrða að þetta álit hafi ekkert með kyn mitt eða skort á töffaraskap að gera. Hugmyndin að baki miðsögunni er fín en útfærslan bitlaus. Eða það finnst mér :)
hehehe - nei það er aldurinn sko sem segir til sín, önnur löppin í MR um miðja síðustu öld!
Það sem vekur helst athygli mína í dóminum er orðið ,,nokkuð" í fyrstu setningunni. Þar býr eitthvað áhugavert að baki.
Uss Þórdís, neðanbeltishögg:)
@GK: Ekkert sérlega dularfullt þarna, mér fannst Konur ekki alveg jafn gallalaus og mörgum en stórmerkileg engu að síður.
Mér fannst margt mjög flott í síðustu sögunni, sérstaklega í seinni partinum, en mér fannst fyrsti hlutinn af henni draga hana mikið niður, a.m.k. við fyrsta lestur.
Skrifa ummæli