27. desember 2009

Hinn nýi Þórbergur - Um ÞÞ í forheimskunarlandi eftir Pétur Gunnarsson

„Mér er hulið hvernig hættan á að fá yfir sig ævisöguritara hefur ekki fengið neinn ofan af því að eiga ævi,“ er setning sem Pétur Gunnarsson vitnar til eftir bölsýnishöfundinum Cioran undir lok seinna bindis bókar sinnar um Þórberg Þórðarson. Pétur bætir við að það hafi lengi verið talinn tvíverknaður að rita ævisögu Þórbergs – svo rækilega hefði hann gert henni skil í ótal bindum. [1]

Þar til á allra síðustu árum var það einasta sem skrifað var um Þórberg Þórðarson ritað af honum sjálfum. Helgi M. Sigurðsson hafði safnað saman óbirtum brotum úr dagbókum Þórbergs og bréfum hans og gefið út í bókunum Ljóra sálar minnar (1986) og Mitt rómantíska æði (1987). Halldór Guðmundsson reið á vaðið eftir nær tveggja áratuga hlé á umfjöllun um Þórberg og árið 2006 kom út bók hans Skáldalíf – Ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri. „En það er með Þórberg, eins og okkur hin: hann er margir. Þær á annað hundrað dagbóka sem hann lét okkur í té minni á glerstrendingana sem í stað þess að endurvarpa spegilmynd deila henni upp í óteljandi myndbrot,“ skrifar Pétur.  (258)
Skáldfræðisaga er heitið sem Pétur Gunnarsson hefur gefið verki sínu um Þórberg. Fyrri bókin, ÞÞ – Í fátæktarlandi, hefur undirtitilinn Þroskasaga og Pétur skiptir verkinu í tvennt eftir vísnabroti sem ÞÞ kompóneraði við Vögguvísu Brahms, birti í Eddu og lagði til að yrði letrað á legstein sinn:

Liggur hér Þórbergur
Lifði í fátæktarlandinu
Dó í forheimskunarlandinu
Dó í forheimskunarlandinu. [2]

Grafskriftin á vitaskuld að varpa einhverju ljósi á líf þess sem er látinn og þetta taldi Þórbergur varpa ljósi á sitt líf. Því er ákaflega vel til fundið af Pétri að finna sér efnivið í titla á ævisögulegt verk Þórbergs úr þessum meitluðu setningum.
Í fyrra bindinu loðir nefnilega fátæktin við Þórberg, eins og hún gerði áður en hann varð frægur á einni nóttu fyrir Bréf til Láru. Bókin er sannkölluð þroskasaga sem hefst þegar Þórbergur fer að heiman frá sér úr Suðursveit og alfarinn til Reykjavíkur. Það gerðist árið 1906, þegar hann var á átjánda ári. [3] Pétur leitast við að endurskapa andrúmsloftið í Reykjavík í byrjun 20. aldarinnar. Hann leitar ekki einungis fanga í bókum Þórbergs, bréfum hans og dagbókum, heldur líka í öðrum heimildum um Reykjavík þess tíma. Sem dæmi má nefna Sögu Reykjavíkur eftir Guðjón Friðriksson og Við sem byggðum þennan bæ, eftir Vilhjálm S. Vilhjálmsson. Ennfremur setur Pétur sig inn í hugarheim Þórbergs, ímyndar sér líðan hans við ákveðnar aðstæður og skáldar í eyðurnar. Sem alvitur sögumaður, sem sér að auki hundrað ár fram í tímann, getur hann leyft sér ýmislegt og dregið skáldlegar ályktanir af atburðum og hugsunum Þórbergs. Hið sama er uppi á teningnum í seinna bindinu, sem hér er til umfjöllunar. ÞÞ - Í forheimskunarlandi. Þó eyðir höfundur meira púðri í aðra en Þórberg: vini hans og kunningja, hvað var að gerast í bókmenntum og listum, heimsmálum og þjóðmálum. Þetta bindi er „úthverfara“ ef svo má segja, á meðan hið fyrra var meiri sálarlífslýsing skáldsins.

Nivea-krem og hjónaband ...
Bókin er saga af einkalífi Þórbergs jafnt sem hans hugmyndasaga. Eins og segir á káputexta leitast höfundur ennfremur við að „endurskapa andrúmsloft liðinna ára.“ Ekkert vex af tómarúmi og heldur ekki Þórbergur Þórðarson. Í upphafi bókar hafa aðstæður Þórbergs breyst frá því sem áður var. Hann er kvæntur maður og bregður Pétur upp kómískri mynd í byrjun, þar sem skáldið dundar við að bera Nivea-krem á konu sína Margréti í útlöndum. Hveitibrauðsdögunum eyða hjónin á slóðum esperantista og kommúnista og njóta lífsins. Það er vel undirstrikað í bókinni að að einhverju leyti er ÞÞ kominn á hina svokölluðu „réttu hillu“ í lífinu, miðað við hvað ráðaleysi hans gat oft orðið mikið og dimmt í sálu hans í fyrri bókinni. Þetta er á árunum eftir 1930, hann starfar við Esperantókennslu og ferðast víða til þess að sækja þing sósíalista, auk þess sem út koma eftir hann bækur sem bera áhugamálum hans vitni; Alþjóðamál og málleysur (1933) Pistilinn skrifaði (1933) og Rauða hættan (1935). Munúðarfullur kremburðurinn leggur áherslu á að nú er hann „kominn í höfn“ í kvennamálum, sem, eins og fyrra bindið greindi frá, hafa oft reynst honum flókin og erfið.

Félagar og hugsjónir
ÞÞ - Í forheimskunarlandi er margradda frásögn. Hún er öðruvísi en fyrra bindið, þar sem meira var byggt á bókum Þórbergs sjálfs, bréfum hans og dagbókum. Hér leitar Pétur víða fanga og kallar til marga heimildarmenn. Hann leggur meiri áherslu á að draga upp mynd af þjóðlífinu á þessum tímum og ástandinu í þjóðfélagi, listum, menningu.
Það er skemmtilegt að Pétur notast mikið við dagbækur og bréf Þóru Vigfúsdóttur, eiginkonu Kristins E. Andréssonar, sem Þórbergur umgekkst mikið. Raunar átti ÞÞ alla tíð margar vinkonur. Sat löngum á hágreiðslustofunni Hollywood hjá Kristínu Guðmundardóttur vinkonu sinni, var vinur Maríu Thoroddsen (sem var víst kvenna skemmtilegust) og virðist alltaf hafa verið í góðum tengslum við eiginkonur vina sinna. Rödd Þóru og fleiri kvenna ljá bókinni femínískan blæ, sem er ekki algengt að finna í slíkum verkum. Sagt er að það hafi verið nokkurs konar þjóðaríþrótt Íslendinga um árabil að rífast um hvor væri betri rithöfundur, Halldór Laxness eða Þórbergur Þórðarson. Einkum var þetta iðkað eftir að leiðir með þeim í pólítík skildu. Þegar Halldór sagði eftir ræðu Krúsjoffs „Við vorum sviknir“ en Þórbergur sat við sinn keip, sem hann gerði raunar alveg fram í andlátið. Pétur tekur í bók sinni verðskuldað pláss undir samneyti þessara tveggja „risa“ Alveg frá því að þeir eru „bræður í Unuhúsi“ og þar til Þórbergur skilur við á Vífilsstöðum. Hann varpar nýju ljósi á samband þeirra, þennan meting sem maður greinir alltaf undir niðri, en sýnir engu að síður vináttu sem er sterkari en flest. Fleiri menn líkamnast á síðum bókarinnar ÞÞ – Í forheimskunarlandi. Erlendur, Hallbjörn og Árni prófastur, eins og gefur að skilja, og menningarpáfinn Kristinn E. Andrésson og Þóra Vigfúsdóttir eru vitaskuld fyrirferðarmikil, en þau umgengust bæði Þórberg og Laxness. Öll voru þau skoðanasystkin, svona framan af, að minnsta kosti. Mögnuð er lýsingin á því þegar Kristinn liggur banaleguna:
Á lokasprettinum er hann eins og þegar stjarna deyr, það gerist í rosalegum eldglæringum, líkast því að hún neyti hinstu krafta til stórkostlegs sjónarspils. Kristinn kallar menn að sjúkrabeðnum og hvetur þá til dáða eða les þeim pistilinn fyrir að hafa gerst fráhverfir málstaðnum. Jafnvel Einar og Brynjólfur fá það óþvegið fyrir sína „realpólitík“ og forystumenn alþýðusamtakanna hirtir hann fyrir þeirra skammsýna magamál.
Halldór Kiljan er einn af þeim sem kallaðir eru á teppið og fær yfir sig skunu fyrir svik við málstaðinn og liðhlaup af fleyi sósíalismans. Halldór var vanari hinu, að hann léti móðan mása en Kristinn hlustaði hljóður. Nú situr hann gneypur og biður um það eitt að þeir megi kveðjast sem vinir. Í gættinni stendur Þóra og nýr saman höndum í öngum sínum og bíður þess að óveðrinu sloti. Fylgir að lokum Halldóri til dyra og þrýstir hendur hans í þakklætisskyni. (238)

Kristinn tileinkar Þórbergi síðustu bók sína, m.a. „fyrir skilning á alþjóðasjónarmiðum alþýðustéttanna...“ (238) Þeir voru fáir sem aldrei kvikuðu, en Þórbergur var vissulega einn af þeim.

Sérviskur og leyndarmál
Pétur greinir frá ýmsum háttum Þórbergs sem mætti kalla krúttlega sérvisku, en hafa ennfremur orðið til þess að einhverjir hafa í gegnum tíðina afskrifað hann sem skrítinn karl, sérvitring og trúð, sem ekki væri mark takandi á. Dæmi má nefna þá áráttu hans að mæla alla skapaða hluti, t.a.m. tímalengd göngutúra sinna (sem styttust og lengdust eftir því hvaða mánuður var í árinu). Margt af þessu er vel þekkt öllum þeim sem eitthvað hafa kynnt sér verk Þórbergs Þórðarsonar, en líka bætir Pétur ýmsu við. Sumt er nýtt og þar hlýtur að bera hæst mælingar skáldsins á baðherbergisvenjum sínum. Þ.e. hversu langur tími fer í það daglega að „hægja sér til baks og kviðar“. Áður hafði ég heyrt að á klósettinu hefði ÞÞ ætíð lesið Gamla testamentið á Esperantó, en þessar upplýsingar eru mun nákvæmari, og alveg í anda Þórbergs! Pétur hefur bersýnilega fínkembt allt sem Þórbergur ritaði og allt sem um hann hefur verið ritað, dagbækur, minnismiða, bréf. Og sumt er honum ráðgáta og stundum reynir hann að ráða í táknin, en stundum leyfir hann lesendum bara að hugsa sitt. Hálfkveðnar vísur eru nokkrar og pirra höfundinn greinilega jafn mikið og okkur:
Í febrúarbyrjun 1940 heldur Þórbergur ásamt spúsu sinni til Grindavíkur þar sem þau hjón hyggjast dvelja um mánaðartíma, Þórbergur við hreinskriftir á fyrra bindi Ofvitans. En ekki eru liðnir nema fjórir dagar þegar bréf berst frá vinkonu hans, Kristínu Guðmundardóttur, sem hann svarar strax næsta dag (8/2). Það er eitthvað á seyði sem við megum ekki fá vitneskju um, hann strikar út heila línu í dagbókinni með breiðbandi. Næst lætur Kristín kalla hann upp í síma (15/12) og segir að Erlendur vilji finna hann. Erindið er nægilega brýnt til að Þórbergur standi upp frá verki sínu og hristist í rútu til Reykjavíkur eftir holóttum Keflavíkurvegi. Um kvöldið er hann mættur í Unuhús ásamt söfnuðinum sem hann færir til bókar (Kiljan, Þórður Sigtryggsson, Steinn Steinarr, Benedikt Stefánsson, Steinunn, Áslaug...) Síðan er kirfilega krassað yfir línuna fyrir neðan. Hvað er í gangi? (69)


Þetta brot varpar ekki aðeins ljósi á hugsanlegt leyndarmál Þórbergs, heldur einnig erfiðisvinnu Péturs, ævisagnaritarans, sem má láta sig hafa það að rekast á svona ráðgátur sem á náttúrlega að banna með lögum!

Annar Þórbergur
Þórbergur þreyttist aldrei á því að segja okkur í bókum sínum að hann væri að segja sannleikann um líf sitt og samferðamanna sinna. Í Sálminum um blómið beinlínis þrástagast hann á orðunum: „Ég er ekki að skrifa skáldsögu...“. Eins og drepið var á hér í upphafi skirrðust margir við að skrifa ævisögu Þórbergs Þórðarsonar vegna þess hversu mikið um ævi sína hann hefði skrifað sjálfur. Það væri vísast ekkert til þess að skrifa um! Þórbergur skýldi sér líka á bakvið dagsetningar og veðurlýsingar og kappkostaði að öll sannreynanleg atriði væru rétt, áður en hann fór að skálda.
Ekki bara skáldaði ÞÞ í verkum sínum, eins og sagan fræga um „Framhjágönguna“ úr Íslenskum aðli sýnir. Þegar kom að veigamiklum atriðum úr hans eigin lífi, þá sleppti hann úr og endurskapaði að vild. Það gerði það að verkum að á síðari árum hefur orðið til annar Þórbergur, í bókum Halldórs Guðmundssonar og Péturs Gunnarssonar. Þeir hafa m.a. grafið upp launbörn skáldsins og varpað ljósi á sársauka hans og erfiðleika í hjónabandi. Þetta hefur skapað nýjan Þórberg í huga lesenda. Hann er ekki lengur bara „þessi fyndni sem fór upp á fraukuna í kirkjugarðinum“ eða „æringinn og spaugarinn“ heldur flókin og margbrotin manneskja, sem gerði mistök sem ekki urðu aftur tekin, manneskja sem kannski vildi annað en hann fékk, en hafði ekki afl til þess að breyta aðstæðum sínum eða rísa gegn þeim.
Það kemur vel fram í bók Péturs að Þórbergur hafði sín takmörk og þurfti að kyngja beiskum vonbrigðum. Sumu kaus hann að ýta til hliðar og reyna að gleyma. Kannski var hann með Asperger-heilkenni, eins og Halldór Guðmundsson lét að liggja að í bók sinni. Mér er nær að halda það, þó að Pétur geri það ekki að umtalsefni í bókum sínum. Kannski er líka ósanngjarnt að sjúkdómsgreina fólk fjörutíu árum eftir dauða þess – og enn ósanngjarnara að svo margbrotinn persónuleiki sem Þórbergur var skuli fá einhvern einn stimpil eða merkimiða, sem á að skýra allar hans gjörðir.

Og Mammagagga ...
Margrét Jónsdóttir hefur alltaf verið Þórbergsaðdáendum hálfgerð ráðgáta. Eiginkonan sem þótti svarkur og skass og allir eldri Vesturbæingar virðast muna eftir. Þegar hún æpti t.d. út um gluggann og skipaði þjóðskáldinu út og suður eins og hundi. Sennilega er eitt af hennar fleygari tilsvörum það sem hún sagði þegar hún hafði látið auglýsa eftir Þórbergi í útvarpinu (hann kom ekki á „réttum tíma“ heim úr gönguferð). „Að þú skulir voga þér að vera kominn heim. Og það lifandi!“ Þetta segir kannski ýmislegt, hemm. Pétur gerir sitt besta til þess að átta sig á þessari konu, sem mér finnst einmitt vera lykilatriði til þess að ná að skilja ýmislegt í síðari hluta ævi Þórbergs. Margrét er stór hluti af seinna bindinu, eins og gefur að skilja, en hún er hreint ekki „auðveld“ manneskja og alls ekki sympatísk. Bréf sem eftir hana liggja skrifuð eru í takt við sögurnar af henni. Hún virðist hafa verið frek, sjálfhverf og stútfull af minnimáttarkennd, en hún kemur fram í monti og enn meiri frekju, sem stundum jaðrar við geðbilun. Það er líka grunnt á reiði ævisagnaritarans í hennar garð, undirtextinn á stundum mettaður hneykslun – og skyldi engan undra. En Pétur segir líka frá því hvað það er sem hún var Þórbergi. Hann var ákaflega háður henni með marga hluti og dáðist að ýmsu í fari hennar. Þrátt fyrir allt fann hann hjá Margréti einhverja festu, einhvern samastað, sem honum hafði ekki lánast að finna áður.
Annað sem lengi hefur vantað í umræðu um ævi Þórbergs, sem kunni svo óskaplega vel að tala við börn og skrifa af þeim skringilegar og skemmtilegar sögur (sbr. Lillu Heggu í Sálminum um blómið og Skottu í Viðfjarðarundrunum) og það varpar Pétur ljósi á, er að Jón Þór, sonur Margrétar bjó með hléum á heimili þeirra. Pétur bregður upp þeirri sterku og sorglegu mynd að á ritunartíma Viðfjarðarundranna var Jón Þór „til vandræða“ og Þórbergur lét þess nokkrum sinnum getið í dagbók sinni, segir „gat ekkert skrifað sakir heimilisástæðna“ (51) en ekki nóg með það. Guðbjörg, dóttir Þórbergs, sem hann hafði aldrei sinnt, bjó skammt frá, þó að enginn vildi nokkuð af henni vita. (51)
Af þessum börnum skrifaði Þórbergur engar skemmtisögur. Um þau skrifaði hann aldrei eitt aukatekið orð, heldur elti uppi Skottur og Heggur, sem hann hafði engum skyldum að gegna og skrifaði um þær einhverjar dýrustu perlur íslenskra bókmennta tuttugustu aldarinnar. Þarna birtist sá Þórbergur sem gengur gegn mýtunni um hann. Þórbergur sem vildi ekki sýna sig í bókunum sem hann skrifaði.
Þó að ég hafi hrósað Pétri fyrir greinargóða mynd af Margréti Jónsdóttur – og jafnframt fyrir sterkt kvenlegt sjónarhorn, sem sjaldgæft er að finna í bókum af þessu tagi, þá situr enn eftir spurningin í huga lesandans: Hvaðan kom Margrét Jónsdóttir? Hvað skapaði þessa konu sem hafði svo djúp áhrif á rithöfundinn Þórberg Þórðarson? Hula er enn yfir fortíð hennar, hún hittir Þórberg komin yfir þrítugt og þá tveggja barna móðir, og skapgerð hennar gefur til kynna að hún hafi reynt margt misjafnt í lífinu. Átti hún sér einhverja „Sólu“ eða lifði hún í tómarúmi fram að þrítugu?
Það er ósanngjarnt að fara þess á leit við Pétur að hann svari þessum spurningum. Ekki vil ég sækja í smiðju samtímagagnrýnenda sem vilja iðulega lesa einhverja allt aðra bók en höfundurinn skrifaði. En vonandi fáum við einhvern tíma að lesa um „týndu árin“ í lífi Mömmugöggu, það yrði áreiðanlega safaríkt.

Hreinn skemmtilestur?
Hvort sem bók Péturs Gunnarssonar er kölluð skáldfræðisaga, skáldævisaga eða bara ævisaga, er ljóst að hún er mjög vel heppnað verk. Hún setur þennan mikla rithöfund „í samhengi“ bæði við annað fólk og hans samtíð og hún leyfir okkur að kynnast manninum sem hann vildi ekki endilega sýna okkur í verkum sínum. Hér skal þó viðurkennt að ég er ósammála ritdómum og auglýsingum um þessa bók sem tönnlast á orðunum „Hreinn skemmtilestur“ og tala um fyndnina í verkinu. Þvert á móti finnst mér oft slegið á harmræna strengi og dýptin vera meiri en maður á að venjast í verkum af svipuðu tagi. Og það er gott vegna þess að það þarf ekki alltaf að vera gaman.
Engar myndir eru í seinna bindinu, en hins vegar hefur Pétur ákveðið að leyfa okkur að sjá ýmis „sönnunargögn úr lífi Þórbergs“ ef svo má segja. Þetta eru dagbækur sem strikað hefur verið yfir orð í, og annað fullkomlega afmáð. Bréf, útreikningar, færslur um að hann hafi ekki eirð í sér til vinnu (iðulega þegar hann hefur fengið blátt bann á að geta haft samneyti við Guðbjörgu dóttur sína). Þetta eru sönnunargögn sem tengjast einnig fyrra bindi sögunnar, t.a.m. þegar Pétur telur að ÞÞ hafi átt í stuttu kynferðissambandi við Kristínu Guðmundardóttur og í dagbókinni strikað undir þá samfundi þeirra þegar þau stunduðu kynlíf (þá er líka X efst á síðunni!). Sönnunargögnin eru mjög til bóta og færa lesanda nær frásögninni. Það kemur t.a.m. fram tárunum á viðkvæmum Þórbergsaðdáanda að sjá titrandi rithönd skáldsins undir það síðasta. Hnignun dauðvona manns, sem reynir að fremsta megni að halda í reisn sína með því að fara reglulega í klippingu og nótera hjá sér stefnumót sín við rakara, en er ófær um að skrifa nokkuð annað.

Ævikvöldið
Í sögulok kemur einna best í ljós hversu gott skáld Pétur Gunnarsson er og hversu mikla samúð hann hefur með viðfangsefni sínu. Ógleymanleg er frásögn af síðustu ferð ÞÞ á Hala, þegar hann, veikur, gamall maður vildi deyja þar sem honum þótti hann alltaf eiga heima.
Það ætlar aldrei að hafast að koma honum út úr Halabænum, hann snýr jafnharðan við í göngunum og gerir sér upp erindi aftur inn til að kasta af sér vatni. Bæjargöngin, þessi fáu skref, breytast í vegalengd, torfæru, það þarf að sækja stól til að hann geti hvílt sig í hléum. „Við vorum hátt í klukkutíma að komast vestur á hlað frá bæjardyrunum og það er ekki langur vegur, líklega fimm metrar.“ Sagan endurtekur sig í flugskýlinu á Fagurhólsmýri, Þórbergur snýr stöðugt við í dyrunum. Farþegarnir eru farnir að tínast út í vél og hreyflarnir teknir að snúast. Margrét trompast, en fyrir lítið kemur, Þórbergur heldur áfram að snúa við. Á endanum vindur sér að honum bláókunnugur maður, tekur hann í fangið og ber hann grátandi út í vél. (246)


Þórbergur hlaut margar viðurkenningar í ellinni. Heiðursdoktorsnafnbót við HÍ var ein þeirra, þó að Háskólinn hafi ekki treyst sér til þess að útskrifa hann á sínum tíma, þrátt fyrir stíft skólanám, vegna þess að stúdentsprófið vantaði. En þrátt fyrir margvíslegan heiður á ævikvöldinu er ÞÞ ekki lesinn í skólum landsins nú til dags og yngri kynslóðir þekkja hvorki á honum haus né sporð. En Pétur huggar okkur með því að „með meiri fjarlægð sjatnar gruggið og rykið sest, en textinn tekur að vaxa fram“. (259) Og það er kenning höfundar ÞÞ – Í forheimskunarlandi að sá bautasteinn sem Þórbergur reisti sér með pennastönginni muni standa lengur en legsteinninn með grafskriftinni frægu.

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir

[1] Pétur Gunnarsson, ÞÞ-Í Forheimskunarlandi, Reykjavík: JPV, 2009, bls. 258. Hér eftir verður vitnað til bókarinnar með blaðsíðutali innan sviga á eftir hverri tilvitnun.

[2] Þórbergur Þórðarson, Edda Þórbergs Þórðarsonar, Reykjavík: Mál og menning, 1975 (önnur útgáfa, aukin), bls 216.

[3] Pétur Gunnarsson, ÞÞ – Í fátæktarlandi. Reykjavík: JPV, 2007.

5 ummæli:

Kristín í París sagði...

Glæsileg úttekt. Takk.

ÞÞ – Í forheimskunarlandi « Forlagið – vefverslun sagði...

[...] „…vel heppnað verk. Hún setur þennan mikla rithöfund „í samhengi“ bæði við annað fólk og hans samtíð og hún leyfir okkur að kynnast manninum sem hann vildi ekki endilega sýna okkur í verkum sínum.“ Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir / midjan.is [...]

Pétur Magnússon sagði...

Takk fyrir frábæra grein

Erna sagði...

Ég verð að fara að ná mér í þessa bók. Hélt að ég myndi fá hana í jólagjöf en það klikkaði.

ÞÞ í forheimskunarlandi – kilja « Forlagið – vefverslun sagði...

[...] „…vel heppnað verk. Hún setur þennan mikla rithöfund „í samhengi“ bæði við annað fólk og hans samtíð og hún leyfir okkur að kynnast manninum sem hann vildi ekki endilega sýna okkur í verkum sínum.“ Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir / midjan.is [...]