13. desember 2009

„Læfseiver“

images
cocktailsÞegar ég hafði jafnað mig á því að á blaðsíðu 8 kemur fyrir harðhent og óhugnanleg hjúkrunarkona að nafni Maríanna var Síðustu dagar móður minnar eftir Sölva Björn Sigurðsson sannkallaður gleðigjafi. Það er sjaldan sem íslenskir rithöfundar þora að vera svona fyndnir (ef frá er talin Auður Haralds) en ég hló margoft upphátt yfir gríðarlega litríkum ferðalögum Dáta og Evu um líflegar lendur Amsterdam. Rauða hverfið hefur fyrir löngu öðlast sinn sess í heimsbókmenntunum en ég man ekki eftir annari eins reið í gegnum það - og engri þar sem lesandinn slæst í för með tæplega fertugum, einhleypum manni og krabbameinssjúkri, spriklandi fjörugri móður hans. Það er líka langt síðan ég hef lesið bók þar sem aðalsöguhetjurnar innbyrða jafn brjálæðislegt magn af áfengi - Philip Marlowe og aðrir alkóhólíseraðir einkaspæjarar glæpasagnanna komast ekki með tærnar þar sem Eva Briem Þórarinsdóttir og læfseiverinn (peli sem hún skilur sjaldan við sig) hafa hælana. Svo sannfærandi er frú Briem með "spesdrykk" í hendi að þegar hún á tímabili hvílir læfseiverinn og snýr sé að jurtatei þá missti ég svolítið tengslin við hana og keypti umskiptin varla.

Þrátt fyrir öll ærslin spyr bókin í raun stórra spurninga um líf og dauða sem ekki er hægt að líta fram hjá. Ég var sjálf eindreginn stuðningsmaður líknardauða þar til ég las grein þar sem bent var á að eins mikilvægur og þessi möguleiki hlýtur að vera manneskjunni þá er hann um leið gríðarlega vandmeðfarinn. Sumt dauðvona fólk er hreint ekki tilbúið að kveðja og heldur dauðahaldið í lífið fram á síðustu stundu - það er skelfilegt ef fólk í þannig stöðu velur líknardauða af röngum ástæðum eins og til að vera ekki lengur fjárhagslegur og/eða andlegur baggi á fjölskyldu sinni. Líknardauði má ekki vera svo sjálfsögð leið að það sé pressa á fólk að fara hana.

En hér verður að taka fram að þótt bókin velti upp spurningum um dauðann og hvernig hann ber að höndum er hún langt frá því að vera vígvöllur heimspekilegrar baráttu. Hún er þvert á móti sérlega manneskjuleg og skemmtileg þótt dauðinn sé vissulega handan við hornið.

Persónugallerí Sölva er dásamlega litríkt og eftirminnilegt en á toppnum trónir auðvitað Eva Briem. Hún er einn af þessum larger than life karakterum sem á sér svo sannarlega hliðstæðu í íslenskum veruleika og eins ýkt og ævintýri þeirra mæðgina verða á köflum, tapa þau aldrei þeirri tengingu við blákaldan raunveruleikann sem gerir þau svo áhrifarík. Eva er yfirgengileg og í raun óalandi og óferjandi en hún er svo skemmtileg og sönn að henni fyrirgefst allt. Hún er full af mótsögnum eins og allar alvöru manneskjur og mikið sem mér þykir leiðinlegt að geta ekki fengið mér í glas með henni.

Maríanna Clara

1 ummæli:

ÞG sagði...

Ohh hvað þetta hljómar skemmtilega.