Raddir frá Hólmanesi er nýtt safn ellefu smásagna eftir Stefán Sigurkarlsson. Höfundurinn hefur áður sent frá sér nokkrar bækur, þar á meðal Hólmanespistla árið 1995, sem ég geri af augljósum ástæðum ráð fyrir að kallist á við þá bók sem hér um ræðir, en því miður hef ég ekki lesið Hólmanespistla (því mun ég hins vegar drífa í þegar ég hef útvegað mér eintak).
Raddir frá Hólmanesi er býsna skemmtileg bók. Sögurnar gerast hérlendis og erlendis á ýmsum tímum, flestar þó í Hólmanesi eða í íslenskri sveit í grennd við það uppdiktaða þorp við Jökulflóa (sem minnir mjög á Stykkishólm). Endirinn er oft óvæntur og sögurnar einkennast af þægilegum húmor og huggulegheitum þó efnið sé gjarna meinlegt, tregablandið eða hreinlega sorglegt. Stíllinn er léttur og litríkur, algjörlega tilgerðarlaus og hvergi hroðvirknislegur. Ég get vel ímyndað mér að legið hafi verið yfir textanum og dedúað við setningar. Stefán Sigurkarlsson notfærir sér íslenska frásagnarhefð, mannlýsingar eru oftar en ekki í anda ýmiss konar gamalla sagnaþátta af einkennilegum mönnum og hann bregður líka fyrir sig dæmigerðum þjóðsagnastíl en stundum er lesandanum kippt til baka inn í nútímann svo minnir á stílbrögð sem Þórarinn Eldjárn er þekktur fyrir. Við sögu kemur íslenskt alþýðufólk og betriborgarar en einnig útlendingar, hinn fræga Dana Simon Spies ber til dæmis á góma og sömuleiðis líkþornaplástraframleiðandann heimsþekkta Doktor Scholl. Sögurnar eru sagðar í fyrstu persónu en stundum hafðar eftir hinum og þessum og skemmtilegar líkingar og persónulegar útleggingar frásagnarmannsins um fólk og fyrirbæri lyfta frásögninni. Ég á örugglega eftir að grípa oft í þessa bók.
P.S. Raddir frá Hólmanesi (sem Ormstunga gefur út) er fallega unnin og umbrotin og fer vel í hendi, vasa eða tösku.
Þórdís Gísladóttir
1 ummæli:
Gaman að fá umfjöllun og ábendingar um bækur sem ekki fara mjög hátt í umræðu og auglýsingum. Takk.
Skrifa ummæli