Nokkuð fjölbreytilegur listinn á þessari opnu frá því í fyrra |
Hin blómum skrýdda bók |
Hingað til hef ég yfirleitt valið mér tilfallandi kompur og minnisbækur til að halda utan um þetta. Einu sinni áskotnaðist mér snotur lestrardagbók frá Borgarbókasafninu en annars hafa þetta verið hinar ýmsustu bækur. Nýverið fékk ég að gjöf tvær sérhannaðar lestrardagbækur sem bíða þess að ég fylli þær af titlum - það eru tvær opnur eftir í minni núverandi og ég verð að sjálfsögðu að klára hana áður en ég byrja á þeirri næstu (áráttan ríður ekki við einteyming). Önnur þeirra er frá einhverju fyrirtæki sem heitir K TWO og ég hef aldrei heyrt um áður, en hún er voðalega falleg með blómum og mynd af bókabunka framan á. Í henni er greinilega ætlast til þess að maður færi inn bækur eftir höfundum, sem er sennilega gáfulegra en að nota bókatitlana sjálfa því þá lenda t.d. bækur úr sama bókaflokki ekki á sama stað, og það fellur nú aldeilis ekki vel að hugmyndum mínum um skipulag á lestri. Mér finnst reyndar pínulítið óþægileg tilfinning að geta ekki bara fært inn titlana í þeirri röð sem ég les þá - breytingar eru stundum svo agalega erfiðar - en ætla þó að láta á það reyna.
Lestrardagbókin sem er næstum full - utan frá séð |
Hin lestrardagbókin er af hinni rándýru Moleskine-ætt, enda fékk ég hana að gjöf frá erlendri vinkonu sem hefur yfir örlítið verðmeiri gjaldmiðli að ráða en við hér á Fróni. Hún er með alls kyns fídusum, t.d. límmiðum sem maður getur skellt á síðurnar hvort sem það er ánægja eða óánægja sem er manni efst í huga eftir lesturinn. Ég er ansi spennt fyrir þessari líka, nú verð ég bara að lesa sérdeilis mikið til að fylla báðar nýju bækurnar.
Haganlegir reitir til að fylla í |
En hvað segja lesendur? Skrifið þið niður hvað þið lesið? Eruð þið með sérstaka lestrardagbók eða er þetta meira svona kasjúal? Er stafrófsröð eftir höfundum málið eða hvað? Segið frá, segið frá!
14 ummæli:
vá, ekki vissi ég að það væru til sérbækur fyrir þessa ástundun.
Ég hef skrifað niður skáldsögur, smásagnasöfn, leikrit og ævisögur í einhverja ómerkilega stílabók síðan 2004. Hver bók fær eina línu svo þetta er þéttskrifað og ekki svo margar opnur búnar. Held að með þessari aðferð geti ómerkilega stílabókin enst mér alla ævi.
Mér finnst alveg ómögulegt að hafa ekki yfirsýn yfir lesturinn.
Var með litla bók sem ég skrifaði í titlana í u.þ.b. ár eða þar til ég uppgötvaði Goodreads.com
Nú er það bara rafrænt og fallegt.
Art Garfunkel hefur sett lestrarlista sína á netið. Þar er hægt að sjá hvað hann hefur lesið allt frá 1968.
Ég ætlaði einu sinni að byrja að nota Goodreads sjálfur (hef þó aldrei nóterað hjá mér hvað ég les... held ekki dagbók heldur) en uppgötvaði með sjálfum mér að ég hef engan áhuga á því að halda utan um þetta, hvorki fyrir sjálfan mig eða til að sýna öðrum.
Einu skiptin sem ég hef haldið svona lista er þegar ég hef neyðst til þess af því að ég hef þurft að hafa heimildalista í ritgerðum. En mig hefur alltaf langað til að vera þessi skipulagða týpa sem á í fórum sínum lestrardagbók og skráir allt niður, en hef alltaf hætt við bæði afþví að ég veit að ég myndi ekki hafa úthald í skráningarnar og eins afþví að ég fer að hugsa um allar bækurnar sem ég er þegar búin að lesa og hvergi hafa verið skráðar ....
Ég hef skrifað niður bækurnar sem ég les, svona þegar ég man, (flokkaðar eftir árum) í word-skjal síðan árið 2006. Annars veit ég ekki alveg hvað mér finnst um þetta. Þetta er snilld af því ég gleymi oft um leið hvaða bækur ég hef lesið, en þetta getur líka ýtt undir eitthvað svona "ég verð að lesa ógeðslega MARGAR bækur"-attitjúd, þegar maður á vitaskuld að leggja áherslu á gæðin...
Ég byrjaði á þessu árið 2009 eftir að hafa séð svona lista (einmitt hér á síðunni) frá Ernu Erlings. Verandi mikil listakona byrjaði ég á mínum lista strax í næsta mánuði. Síðan hef ég haldið hann nokkuð samviskusamlega þó að eitthvað hafi dottið út...minn er (ótrúlegt en satt) á tölvutæku formi - og hver bók og höfundur skráð í réttri lesröð undir hverju mánaðarheiti! Það væri þó gaman að nota svona moleskin fínerí!
Ég á ekki orð yfir þessu.
Lengi vel reyndi ég öðru hverju að skrá svona lagað í minnisbækur en entist aldrei til þess lengur en nokkrar vikur eða e.t.v. mánuði í einu, svo týndi ég bókunum eða gleymdi að skrifa í þær eða klúðraði þessu á einhvern annan hátt.
Svo kom að því í fyrravetur að ég tók tæknina í mína þjónustu. Núna er ég megarúðustrikuð og nota Excel-skjal og Dropbox (einhver besta uppfinning í heimi) gerir það síðan að verkum að ég kemst í skjalið hvar sem er. Í bókahlutanum af því er einn dálkur fyrir höfund, annar fyrir bókarheiti, þriðji fyrir daginn þegar lestur bókarinnar hófst og sá fjórði fyrir daginn þegar lestrinum lauk. Að jafnaði læt ég listann raðast eftir lokadagsetningu en það er þá hægt að raða eftir hinum atriðunum líka.
Í sama skjal skrái ég leikhús-, bíó- og tónleikaferðir.
(Ég vona að það líði ekki yfir Þórdísi af hneykslun eða furðu yfir þessum upplýsingum.)
Vá, þetta hafði mér bara aldrei dottið í hug. Ég sé alveg svona ákveðið appíl í þessu en finnst einhvern veginn of seint að fara að byrja núna, ég hefði viljað byrja bara um leið og ég lærði að lesa til að þetta yrði almennilega marktækt. Sem sagt er svarið nei, ég hef aldrei skráð hjá mér hvað ég les. Og kannski finnst mér bara best að hafa þetta þannig, í þau fáu skipti sem ég hef haldið dagbækur hef ég endað á að eyða þeim með varanlegum hætti, ég bloggaði í nokkur ár og eyddi svo blogginu (sem mörgum þótti stórfurðulegt) og ég eyddi ljóðunum sem ég skrifaði sem unglingur. Sennilega er svona skrásetning ekki fyrir alla.
Mér hefur aldrei dottið í hug að skrá eitt né neitt svona, enda sé ég ekki tilganginn með því, lesið þið þetta aftur eða fyrir hvern er þetta? Ég eyddi einmitt líka nokkurra ára bloggi eins og Eyja bara í einhverju bríaríi (og hef aldrei séð eftir því) og svo týnist flest sem ég skrifa og allar myndir og allskonar annað líka þegar ég skipti um tölvur. Ég man líka frekar lítið af lífi mínu og það sem ég man rifja ég sjaldan upp. Ég er líklega bara týpan sem lifir í núinu eða eitthvað ...
Mig langar samt að vera svona týpa sem á garðyrkjubók eins og fást hjá sumum alvöru garðyrkjuþjóðum. Þar er skráð hvað er sett niður, hvenær og hvernig það kemur upp og svona. Þetta er mjög gagnlegt en ég er alltof spontant og löt til að nenna svonalöguðu. Enda man ég aldrei hvað ég setti niður hvað og þarf alveg að bíða spennt eftir hvort það koma rifsber eða sólber á trén og hvaða blóm birtast í beðunum.
Ég hef einhvern tímann rennt í gegnum word-skjalið mitt. Fannst bara gaman að pæla í því hvað ég var að lesa tvítug, hvað tuttugu og eins o.s.frv. Og svo sé ég á þessu í hvaða kúrsum ég var á hvaða tíma. Þetta hefur einhverja svona sjálfsævisögulega fúnksjón hjá mér, þarna las ég þetta og ég var svona o.s.frv. Bókatitlarnir kveikja oft á minningum.
Skemmtileg svör! Vinkona mín hefur einmitt nýtt sér GoodReads og er mjög ánægð með það. Ég er svo analóg eitthvað að ég held mig við minnisbækurnar í bili.
En já, spurningin er auðvitað líka af hverju maður er að þessu. Upphaflega var þetta hjá mér (sem krakka) einhvers konar metnaðargirni, þ.e.a.s. mig langaði að lesa sem flestar blaðsíður og fékk eitthvað kikk út úr því. Núna finnst mér þetta bæði ágæt leið til að geta rifjað upp það sem ég hef lesið, t.d. fletta upp einhverju sem mig rámar óljóst í, og svo líka til að hafa yfirsýn yfir lesturinn. Það var til dæmis út af þessu bókhaldi mínu sem ég áttaði mig á því fyrir nokkrum árum hvað ég var farin að lesa hræðilega lítið á íslensku - hafði lesið 3 bækur á íslensku af ca. 100 yfir árið. Vægast sagt slæmt fyrir þýðanda og áhugamanneskju um eigið mál ... Í því tilfelli varð bókabókhaldið beinlínis til þess að ég breytti lestrarvenjum mínum og rétti hlutfallið verulega af. Svo finnst mér líka mikilvægt að lesa reglulega á þeim tungumálum sem ég ræð við, til að halda þeim við, og í fyrra t.d. fattaði ég að þau háleitu markmið höfðu ekki gengið sérlega vel upp.
Ég veit ekki hvaðan þessi listaþörf kemur, mér hefur bara alltaf þótt eitthvað ótrúlega fullnægjandi við það að skrifa niður hluti af ýmsum toga. Ég er alltaf á leiðinni að fara að halda bjór- og vínbók!
Og já, sjálfsævisögulega fúnksjónin heillar mig líka. Mér finnst allt renna voðalega mikið saman í eitt svona á seinni árum (sagði þrítuga konan) en þegar ég renni yfir það sem ég hef verið að lesa á tilteknum tíma rifjast alls kyns aðrir hlutir upp fyrir mér. Dæmi úr bókinni sem ég skoðaði þegar ég skrifaði færsluna:
Gríðarlega Carl Hiaasen-leslota minnti mig á sumarið 2010 þegar ég sat endalaust úti á svölum eða úti í garði við lestur, á milli þess sem ég vann í þýðingu. Ég bókstaflega fann fyrir sólinni á andlitinu á mér og nettri geitungahræðslu þegar ég mundi eftir þessari Hiaasen-hrinu ...
Brúðkaupsnóttina eftir Ian McEwan og Juliet, Naked eftir Nick Hornby man ég núna að ég las í einhverju Bretlandsferðalagi, fæ svona flökkutilfinningu þegar ég sé titlana og man eftir að hafa legið á dýnu í húsi vina minna að lesa þá fyrrnefndu. The Ice Storm er líka ferðalagsbók, las hana aðallega í lestum.
Svo sé ég David Sedaris á hverri opnunni á fætur annarri frá því í fyrra og man hvað hann var mér mikill vinur í raun á einhverju ógurlega stressandi tímabili. Ég hlakkaði á hverju kvöldi til að koma heim og skríða upp í rúm með Sedaris-bók í hendi.
Bókaminningar ...
Skrifa ummæli