Ég skrifa stundum í bækurnar mínar (með blýanti). Þá leiðrétti ég ýmislegt, krota spurningamerki og upphrópunarmerki og skrifa jafnvel á spássíuna: "Þessu ber nú bara ekki saman við það sem stendur á bls. 32". Um daginn fór ég með gamla ferðahandbók til Lissabon og þá kom í ljós að síðast þegar ég var þar hafði ég bætt ýmsum upplýsingum við og mótmælt höfundinum, t.d. skrifaði ég að það væri ekki rétt að matarskammtar á portúgölskum veitingahúsum væru alltaf gríðarlega vel útilátnir, en því hélt höfundur Berlitz-bókarinnar fram. En bókakrot mitt finnst mér almennt vera í hófi og stundum skrifa ég alls ekkert í bækurnar.
Í fyrra keypti ég eintak af Listinni að elska eftir Erich Fromm í Góða hirðinum. Þegar ég fór að fletta bókinni sá ég að hún var merkt konu og að konan hafði m.a.s. skrifað nafnnúmerið sitt undir nafnið sitt fremst. Hún hefur líka strikað undir mjög margar setningar, næstum allar. Auk þess hafði hún skrifað ýmis símanúmer í Listina að elska, t.d. númerið hjá flugfrakt Loftleiða á Akureyri og hjá einhverjum sem seldi ýmislegt í smáauglýsingum DV á sínum tíma og var sennilega líka dagmamma, það er meira að segja símanúmer og götuheiti aftan á bókinni. Ég fletti auðvitað þessum fyrrverandi eiganda bókarinnar upp á timarit.is og í ljós kom að viðkomandi dó fyrir nokkrum árum og átti sér augljóslega viðburðaríkt líf, ýkjulaust má örugglega kalla það mjög dramatískt lífshlaup. Ég fer ekki nánar út í það en hér fyrir neðan eru nokkrar myndir úr bókinni.
5 ummæli:
Ætli hún hafi ekki getað lesið setningu nema strika undir hana?
Það hefði verið skemmtilegt ef þú hefðir skrifað höfundi Berlitz-bókarinnar og sagt honum þetta með matarskammtana.
Þú segir nokkuð! Vitleysingur var ég að senda ekki Berlitz-manninum bréf.
Ja-há! Þetta er einhver virkasti bókakrotari sem hefur orðið á vegi mínum.
Ég er fremur viðkvæm fyrir kroti, eins og áður hefur komið fram í kommentum við bloggið, en finnst hins vegar óskaplega gaman að skoða gamlar ljóðabækur úr fórum ömmu og afa og sjá hvar amma hefur strikað undir áhersluorð og ákveðin lykilorð. Hún las nefnilega ljóð í útvarpið og víðar, og mér finnst ég einhvern veginn komast nær henni við að lesa sömu ljóðin og hún var að spekúlera í fyrir hálfri öld eða meira.
Ég skora á þig, Þórdís, að skrifa skáldsögu um lífshlaup þessarar konu.
Það ætti allavega einhver að skrifa um þessa konu.
Skrifa ummæli