Í öðru tölublaði Listviða kemur fram að Gunnar Bohman, frægasti Bellman-söngvari Svía sé á Íslandi og syngi fyrir fullu húsi. |
Í Reykjavík voru líka gefin út allskonar blöð og tímarit. Í fyrradag rakst ég á eitt sem ég hef aldrei séð áður. Það heitir Listviðir og af því komu út þrjú eintök vorið 1932. Þetta skammlífa tímarit hafði að eigin sögn að markmiði að: vekja athygli á allskonar list, eins og hún kemur fram í bókmentum - leiklist - kvikmyndum - dansi - líkamsmenningu - hljómlist - málaralist - höggmyndalist - húsbúnaði - blómagörðum - garðrækt - heimilisiðnaði - iðnaði - verzlun - vörusýningum - og auk þessa listinni að lifa.
Ritstjóri Listviða var Olga Hejnæs, systir Önnu, konu Ólafs Friðrikssonar, en Olga stóð líka fyrir skemmtun í Iðnó og setti upp Kabarett á Hótel Skjaldbreið 1924. Hún stofnaði og átti verslunina Ninon í Austurstæti (sem seldi kjóla og annan sparilegan kvenfatnað frá árinu 1929 og eitthvað fram á 4. áratuginn allavega) og hana má sjá á mynd úr stuðpartýi hjá Ólafi Friðrikssyni og Önnu árið 1927 (myndin birtist með grein í Mogganum eftir Pétur Pétursson árið 1992).
Úr gleðskap hjá Önnu og Ólafi Friðrikssyni árið 1927. Þarna er ritstjóri Listviða, Olga Hejnæs (náfrænka hennar Maríönnu Clöru), með hressu fólki. |
Stutt umfjöllun um Vicki Baum sem sumir segja fyrsta metsöluhöfund heims. Bókin sem nefnd er, Grand hótel, kom út á íslensku og einnig fleiri bækur eftir Vicki Baum. |
4 ummæli:
Takk fyrir þessa ábendingu! Listviðir sýnist mér ákaflega áhugavert blað.
Það sló mig dálítið líka, þegar ég fyrst fór að hanga á timarit.is mér til skemmtunar, hve mikið var í gangi í gömlu Reykjavík, meira jafnvel en í dag. En ég held að einhverju leiti það sé út af því að í gamla daga var betur haldið utan um svona í fjölmiðlum. Ég heyri alltaf um fullt af frábærum viðburði, sem fóru alveg framhjá mér af því að það er engin staður þar sem maður getur tékkað á því hvað sé að gerast á Höfuðborgarsvæðinu.
Skemmtilegt!
Þetta er einmitt fortíð sem ég var langt fram eftir aldri viss um að væri ótrúlega óáhugaverð og þunglyndisleg. Núna finnst mér ógurlega spennandi að lesa um borgarlífið á þessum tíma, kannski líka af því að það tengir mann við kynslóðir sem er ekki svo langt í - í mínu tilfelli afa minn og ömmu sem fæddust 1918.
Mér finnst líka mjög gaman að skoða myndir úr Reykjavík frá því snemma á síðustu öld og fram yfir miðja öldina, það er oft svo mikið mannlif á götunum.
Skrifa ummæli