23. apríl 2012

Paradís sjoppunnar

Er alveg örugglega allt þá þrennt er? Síðast þegar ég reyndi að skilgreina nýja bókmenntatísku tókst mér bara að finna tvö dæmi um körfukjúklinga sem sveimuðu um í nýlegum íslenskum skáldsögum (það upplýsist hér með að engan kjúkling var að finna í Nóvember 1976 eins og ég hafði gert mér vonir um). Nú þykist ég búin að koma auga á trend í bókmenntum níunda áratugarins en er aftur bara með tvö dæmi. „Allt er þá tvennt er“ – er ekki alveg hægt að semja um það?

Þessa fínu sjoppumynd og margar aðrar fann ég hér.
Nýja kenningin mín er sú að í bókmenntum níunda áratugarins hafi sjoppan birst sem eins konar paradís og að útilokun frá henni hafi þá um leið verið paradísarmissir. Gott dæmi um þetta er smásaga Þórarins Eldjárns, „Eftir spennufallið“ sem mér sýnist að hafi fyrst verið birt í Tímariti Máls og menningar árið 1988. Sagan byggir á frásögninni af syndafallinu og segir frá parinu Aðalsteini og Eddu sem fær vinnu í sjoppunni Paradís. Sjoppan er engin venjuleg sjoppa því auk þess að vera sérstaklega snyrtileg og arkítektahönnuð er aðstaðan fyrir starfsfólk vegleg. Þar er setustofa búin þægilegum húsgögnum, sjónvarpi, myndbandstæki, hljómflutningstækjum, plötu- og diskasafni auk veglegs bókasafns. Þar er líka að finna snyrtingu með baðkari, sturtu og gufubaði. Eigandi sjoppunnar, Guðni nokkur Weltschmerz, greiðir auk þess hvoru um sig laun sem jafnast á við tvenn bankastjóralaun. Reksturinn gengur smurt, álagið alveg passlegt og einu reglurnar þær að skötuhjúin yfirgefi húsnæðið klukkan hálftólf á kvöldin og láti tvo eplakassa sem standa við útidyrnar alveg vera. Allt leikur í lyndi þar til sölumaður Freistingar hf. Ormur að nafni tekur að venja komur sínar í sjoppuna og dvelja þar löngum stundum hjá Eddu. Kvöld eitt fær hann hana til að opna eplakassana og eins og menn er kannski farið að gruna er parið rekið úr sjoppunni strax daginn eftir og neyðast til að hverfa aftur til fyrra lífernis, fullu af basli og þjáningum.


Hitt dæmið um paradís sjoppunnar er ekki alveg eins bókstaflegt. Það er úr skáldsögunni Hjartað býr enn í helli sínum eftir Guðberg Bergsson sem kom út einum sex árum áður en smásaga Þórarins var fyrst birt. Í henni segir frá fráskildum manni sem eyðir stærstum hluta tíma síns á örvingluðu og stefnulausu rápi um borgina. Þrátt fyrir að tilfinningar hans til eiginkonunnar fyrrverandi séu nokkuð tvíbentar virðist hann sakna hennar og fjölskyldulífsins með dætrunum tveimur. Góðu árin sem þau áttu saman kristallast í minningum um sjoppuferðir: „Og nú þyrmdu yfir hann minningar og það glampaði á góðu stundirnar og hann saknaði heimilislífsins. „Ég ætla seint að komast yfir þetta,“ hugsaði hann hrærðum huga, og í hinum sama særða huga flykktust nú fram allar kvöldferðir þeirra hjóna út í sjoppu. [...] Manninum liðu ekki úr minni slíkar unaðsstundir lífsins, oft áttu þau hjónin gleðidaga í sjoppunni.“ (Guðbergur Bergsson, Hjartað býr enn í helli sínum, Reykjavík: Mál og menning, 1982, s.34). Eftir skilnaðinn er maðurinn hins vegar útilokaður frá þessum unaðsstundum og til að undirstrika paradísarmissinn er því nokkrum sinnum lýst í bókinni hvernig maðurinn horfir inn um sjoppuglugga á mæðgurnar sleikja ís og þamba gos.

Sjoppur eru náttúrulega fullkomnar líkingar fyrir paradís, þær einkennast af allsnægtum, einfaldleika og sakleysi. Írónían í dæmunum hér að ofan fer þó væntanlega ekki framhjá neinum og það er auðvitað hvorki hægt að taka þau alvarlega sem upphafningu né ádeilu á neyslumenningu nútímans. Því er þó ekki að neita að sjoppan er óneitanlega góð táknmynd þessa tíma. Æska mín á níunda áratugnum er full af sjoppum. Svona með lúgu þar sem manni var boðið að kaupa glerið eða drekka kókina á staðnum, þar sem maður benti afgreiðslufólkinu á blandið sem maður vildi fá í grænan nammiplastpoka og var dálítið hræddur við unglingana sem héngu öllum stundum á veggnum fyrir utan. Hefur þetta ekki allt meira og minna vikið fyrir einhverjum skrímslum með vídeóleigum, sjálfsafgreiðslu-nammibar, ísvélum og djúpsteikingarpottum? Paradísarmissir svo sannarlega.

6 ummæli:

Þórdís Gísladóttir sagði...

Sjoppa leikur stórt hlutverk í Andrabókum Péturs Gunnarssonar, Simmasjoppa er í einhverri Vesturbæjarbók, Hella eftir Hallgrím Helgason er önnur "sjoppubók", svo er líklega sjoppusena í Góðir Íslendingar eftir Huldar Breiðfjörð og örugglega fleiri og fleiri - ég man kannski eftir þeim á morgun.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Vesturbæjarbókin er Við í Vesturbænum frá 1982 (mig minnir að hún sé eftir Vilmund Gylfason en skrifuð undir dulnefni) og Andrabækurnar eru frá svipuðum tíma. Hella eftir Hallgrím kom 1990, svo hún er eiginlega eitísbók. Ég held að sjoppurnar í þessum bókum séu einmitt dálitlar Paradísir.

Kristín Svava sagði...

Ertu viss um að Vilmundur Gylfason sé á bak við Við í vesturbænum? Leó E. Löve er skráður höfundur hennar og hann virðist vera til. Vilmundur er hins vegar persóna í bókinni ef ég man rétt - var hann ekki kallaður Vimmi? - sem og innanríkisráðherra vor, Ögmundur Jónasson - Ömmi - sem er lýst sem myndarlegasta drengnum í hverfinu sem stúlkurnar telji að verði örugglega kvikmyndastjarna.

Þórdís Gísladóttir sagði...

Ahh, ókei. Nei, ég var ekkert viss, mig minnir bara að einhver hafi sagt mér þetta fyrir löngu.

Nafnlaus sagði...

Ég vek líka athygli á þeim undursamlega titli "Árni Birtingur og skutlan í skálanum".
Helga

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ah, sjoppan - svo stórkostlegt menningarfyrirbæri. Glatað að hún skuli vera nánast lögst af. Steríl N1-klón komast ekki með tærnar þar sem sjoppurnar höfðu hælana. Eitt af því sem er dapurlegt við að ferðast um landið núna er að í hverju einasta plássi kemur maður inn í sama fjandans N1-skálann. Meira að segja fokkings klósettin eru alls staðar eins.

Ég á minningar um að vera mjög hrædd við sjoppuunglinga, en samt var einhver spenningur í hræðslunni, sennilega einmitt af því að ég var búin að lesa svo margar bækur þar sem maður varð únglingur sem hékk í sjoppu og keypti kók í gleri og pulsu. Sjoppan í Andrabókunum kemur þar sterklega við sögu.