5. ágúst 2013

Að lesa eða lesa ekki?

Þeir sem fylgjast með bókmennta- og kvikmyndaumræðunni í Bandaríkjunum gætu hafa rekið augun í umfjöllun um Orson Scott Card á síðustu vikum. Þessi bandaríski vísindaskáldsöguhöfundur hefur verið að í þrjátíu og fimm ár og er líklega þekktastur fyrir bókaflokkinn vinsæla um Ender, en kvikmynd sem byggð er á fyrstu bókinni - Ender's Game - er væntanleg í bíó fyrir næstu jól. Það er óbeint þess vegna sem Orson Scott Card er nú ræddur fram og til baka á hinum ýmsu vefsíðum - margir hafa nú uppi háværar kröfur um að fólk sniðgangi myndina og hætti að kaupa bækur höfundarins. Ástæðan er ógeðfelld hómófóbísk orðræða Scott Card, sem hefur ítrekað haldið því framsamkynhneigð sé óeðli eða erfðafræðileg brenglun, og lýsti því m.a. yfir að kollsteypa ætti hverri þeirri ríkisstjórn sem samþykkti ein hjúskaparlög öllum til handa, auk þess sem hann er þess fullviss að samkynhneigðir karlmenn hafi upp til hópa verið misnotaðir kynferðislega sem börn og séu þess vegna með "brenglaða" kynvitund. Jebbs, svona frekar viðbjóðslegur málflutningur heilt á litið. Scott Card er mormónatrúar og reyndar hvorki meira né minna en afkomandi Brigham Young.
Ender's Game hefur selst í bílförmum
Þessi umræða tengist spurningu sem hefur verið mér hugleikin síðustu misserin; hvort persónuleiki eða skoðanir höfunda hafi, eigi að hafa eða eigi ekki að hafa áhrif á viðbrögð manns við verkum þeirra. Það er að segja, hvort hið ytra skarist við verkið sjálft. Hvort heimurinn sem er skapaður í bók geti staðið einn og sjálfur eða hvort maður lesi alltaf í stærra samhengi. Er maður að kvitta undir skoðanir sem manni þykja ógeðfelldar ef maður kaupir, les og jafnvel nýtur bóka eftir fólk sem vafasöm viðhorf? Þessar pælingar eiga að sjálfsögðu líka við um annað listafólk, kvikmyndagerðarfólk (barnanauðgarinn Roman Polanski kemur strax upp í hugann), tónlistarmenn og svo framvegis.

Stundum fæla yfirlýsingar rithöfunda mann frá bókum sem maður hefur ekki lesið. Mig til dæmis langar ekki að lesa neitt eftir enska höfundinn Martin Amis því ég hef aldrei lesið svo mikið sem hálfa grein eftir hann eða viðtal við manninn án þess að langa til að sparka í vegg. Ég get ekki ímyndað mér að maður sem hefur jafnhaturs- og hrokafullar skoðanir um alla aðra en hvíta forréttindakarlmenn geti haft neitt sniðugt eða merkilegt að segja mér um mannfólkið, hvort sem það er uppskáldað eður ei. En ég hafði heldur aldrei lesið neitt eftir hann þegar ég komst að því hvað mér þykir hann hroðalegur - hvernig hefði mér liðið ef bækurnar hans hefðu verið í uppáhaldi hjá mér?

Það er nefnilega aðeins flóknara með höfunda sem maður heldur þegar upp á.
Hver kannast ekki við vonbrigðin þegar einhver sem manni finnst klár og frábær kemur með einhverja hrikalega yfirlýsingu eða gerir eitthvað ömurlegt? Ég varð mjög svekkt þegar Alan Davies beit eyrað af manni. Ég varð mjög svekkt þegar ég sá einhverja tilvitnun í Björk þar sem hún sagðist ekki vera femínisti. Níu ára ég var mjög svekkt þegar hún komst að því að Narníubækurnar væru kristileg allegóría og fattaði að stelpurnar í bókunum fengu ekkert að gera nema vera prúðar eða hégómlegar. Ég er alltaf mjög glöð þegar J.K. Rowling staðfestir þá bjargföstu skoðun mína að hún sé eðalmanneskja.

En þarf maður að afneita því sem upphaflega vakti aðdáun manns? Gerist það kannski sjálfkrafa, að maður fær óbragð í munninn? Ég veit nota bene ekki svarið.

Svona líður mér þegar ég heyri minnst á Martin Amis
Í fyrrasumar lenti ég oftar en einu sinni í samræðum um þetta þar sem sitt sýndist hverjum. Í kjölfarið á stelpupussupistli Guðbergs Bergssonar talaði ég annars vegar við fólk sem langaði að henda öllum Guðbergsbókunum sínum, hins vegar við fólk sem fannst engu skipta hvað hann skrifaði á einhverja bloggsíðu, hann væri jafn góður rithöfundur fyrir því. Og svo fólk sem var einhvers staðar þarna á milli - með þetta óbragð sem ég minntist á að ofan.

Og já, þessi pistill fældi mig frá því að lesa þær af bókum Guðbergs sem ég á ólesnar. Örugglega ekki að eilífu, en mér finnst þær ekki girnilegasta stöffið í hillunum í augnablikinu. Samt segja fúkyrði hans um ungar stúlkur ekki neitt um bækurnar sjálfar. Held ég? Úff, þetta er svo flókið.

Sumum finnst Martin Amis samt frábær
Og hvað með alla gömlu höfundana? Hvað með rasismann í Tinna, í Enid Blyton, í næstum hverri einustu gömlu bók þar sem minnst er á fólk af öðrum kynþætti en þeim hvíta? Hendum við bókunum eða lesum við þær með nútímagleraugunum okkar eða leggjum við gleraugun til hliðar?

Í tilfelli Orson Scott Card finnst mér kannski auðveldara að gera upp hug minn en oft annars. Maðurinn er virkur samtímahöfundur sem hefur ítrekað haldið fram hatursáróðri gegn samkynhneigðum og þeim sem berjast fyrir jöfnum réttindum óháð kynhneigð. Mig langar ekki að kaupa mér bækur eftir hann því ég vil ekki að peningarnir mínir fari (óbeint) til fólks sem viðhefur svona málflutning. Þarna ræður mín persónulega afstaða úrslitum. Kannski hefði ég mjög gaman af bókunum hans. Kannski er ég að missa af einhverju? En það eru svo margar spennandi bækur til í heiminum.

En semsagt, niðurstaða mín er engin. Ég veit ekki hvað mér finnst í þessum málum - sem er óvenjulegt. Ég veit ALLTAF hvað mér finnst! Hvað finnst ykkur? Hafið þið, kæru lesendur, lent í siðferðisklemmu þegar kemur að bókmenntum? Hefur öfgakristinn hægrihöfundur eyðilagt fyrir ykkur heittelskaðar barnabækur? Eru einhverjir höfundar sem þið gætuð ekki hugsað ykkur að lesa vegna málflutnings þeirra í alls ótengdum málum? Eða náið þið að hunsa allt slíkt og gleymið ykkur einfaldlega í bókaheimi?

20 ummæli:

Þorsteinn sagði...

Þetta er náttúrulega eilíft vandamál! Þó er hægt að hugga sig við það í tilfelli hans Orson Scott Card að Ender's Game er eina bók hans sem ekki er vandræðalega mikið rusl. Ender's Game er fyrsta bókin í fjórleik þar sem bækurnar versna og versna út í hið óendanlega; í síðustu bókinni er nákvæmlega ekkert flæði, karakterarnir, sem maður er orðinn ótrúlega leiður á, fá magnþrungnar, grátbólgnar tilfinningakrísur á annarri hverri blaðsíðu, og það er alltaf þegar þær komast í snertingu við eitt eða annað author substitute sem skýrir fyrir þeim einhvern kostulega grunnan sannleik um eðli heimsins. Cue the tears. Ég held að þessi fjórleikur sé versta bókasería sem ég hef nokkru sinni lesið. Þó hef ég alltaf soft spot fyrir Ender's Game!

Nafnlaus sagði...

Ég hélt einmitt einu sinni að ég hefði fundið hinn fullkomlega ásættanlega höfund í Roald Dahl, en komst svo að því að hann hefur einhvern tíma gloprað út úr sér einhverju vafasömu um gyðinga. Núorðið er ég hætt að googla rithöfunda.

Ragnhildur

Arngrímur Vídalín sagði...

Ég á, einhverra hluta vegna, auðveldara með að líta framhjá skoðunum dauðra höfunda en þeirra sem enn lifa. Tolkien var íhaldssamur fyrir kaþólikka, Hamsun og Gunnar Gunn voru kannskinasistar, það truflar mig ekki. Sama og með gyðingahatarann Wagner, ég elska tónlistina hans.

En ef höfundur gefur út skáldsögu um Islam sem dæmi, og ég veit að hann er ofsóknaróður kynþáttahatari, þá er ólíklegra að ég lesi hana. Sér í lagi ef ég þekki viðkomandi, sem hefur kannski rausað um þetta hugðarefni sitt í nokkur ár og nú gefið út um það bók, þá fer ég ekki að verja tíma mínum í að lesa eitthvað sem ég hef þegar heyrt og mér mun fyrirsjáanlega þykja tóm steypa, hvort sem það er vel skrifað eða ekki og sama þótt búið sé að smíða þvílíka sögu umhverfis það. Það er bara ekki samræða sem mér hugnast. Ég get ekki notið sögunnar ef hún er augljóslega hylki fyrir móraliseringu höfundar. Ef hún á hinn bóginn stendur í engum tengslum við skoðanir höfundar, þá er auðveldara að virða skoðanir hans að vettugi og njóta bókarinnar.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Ókei, ég er ánægð að lesa þetta um Ender-bækurnar! Hljómar ekki eins og ómissandi perla vestrænna bókmennta.

Og ó, nei, Roald Dahl líka?! Ég gúggla heldur ekki rithöfunda. Nema bara einhverja sem eru löngu dauðir. Ég held ég sé nefnilega dálítið sammála Arngrími með gamla og nýja tímann. Ég tók t.d. dásamlegt Hamsun-tímabil í gagnfræðaskóla og les hann við og við, og hinar próblematísku skoðanir hans flækjast lítið fyrir mér þótt ég leiði hugann yfirleitt að þeim á einhverjum tímapúnkti. Einhvern veginn geri ég líka minni hugmyndafræðilegar kröfur á gamla/dauða höfunda - ef svo væri ekki væri auðvitað nánast ómögulegt fyrir femínískan lesanda að lesa karlakanónuna eins og hún leggur sig. Maður býst ekki sérstaklega við víðsýni eða framsæknum skoðunum, sem aftur þýðir að þær koma manni skemmtilega á óvart ef þær birtast. Mér hefur líka alltaf fundist óþægilegt þegar fræðifólk reynir að troða nútímahugmyndafræði upp á höfunda fyrri alda, t.d. þegar prófessor í háskólanum mínum í Wales reyndi að færa fyrir því rök að Shakespeare hefði kannski bara verið femínískur höfundur. Þá fannst mér við komin út í eitthvað rugl, að lesa texta út frá okkar eigin tímum með hugmyndafræði sem höfundurinn hefði aldrei komist í tæri við eða getað beitt. En þetta er smávegis útúrdúr ...

asgeirhing sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
asgeirhing sagði...

Góðar bækur eru marglaga og víðar og rúma bæði góðar og andstyggilegar skoðanir - það er jafnvel vel mögulegt að andstyggilegheit vissra höfunda séu hreinlega styrkleiki þegar kemur að skáldsöguskrifum. Til dæmis er ekki ólíklegt að afturhaldssamir karlskarfar skrifi betri afturhaldssama karlskarfa en betur meinandi höfundar. Ætlunin skiptir þá ekki endilega öllu máli, annar höfundurinn skrifaði sannfærandi skúrk óviljandi og hinn skrifaði slappan skúrk viljandi.

Mín eftirminnilegasta reynsla í þessum efnum - og nú kemur feitt spoiler warning fyrir þá sem eiga eftir að lesa Fables myndasögurnar - var í 7 eða 8 bindi, þegar ein aðalpersónan leggur út frá allri sögunni so far og í ljós kemur að öll serían er meira og minna pro-Ísrael áróður. Sem wikipedia staðfestir að rími sannarlega við skoðanir höfundarins: He describes himself as "rabidly pro-Israel" and says that Fables "was intended from the beginning" as a metaphor for the Israeli-Palestinian conflict,"

Mín fyrstu viðbrögð voru auðvitað að finnast ég hafa verið fíflaður, fíflaður til þess að hafa - óbeint í gegnum samlíðan með skáldsagnapersónum - haldið með Ísraelum í baráttu sinni við að fremja þjóðarmorð á Palestínumönnum. En svo fór ég að pæla þetta betur: við réttlætum öll skoðanir okkar, finnum þeim „réttlátan“ farveg á einhvern hátt, ósjaldan með tilliti til heimatilbúinnar (og vissulega oft falsaðrar) mýtólógíu. Og ég held það geti verið heilmikill og hollur lærdómur að sjá hlutina út frá sjónarhóli þeirra sem maður er hjartanlega ósammála - en oftast er það nefnilega nánast ómögulegt, ef maður heyrir boðskapinn hráan hristir maður náttúrulega bara hausinn. En ef þetta laumast svona aftan að manni, þá skilur maður hlutina aðeins betur. Maður skiptir sjaldnast um skoðun, enda er það kannski frekar hlutverk annars literatúrs en skáldsagna að fá mann til að skipta um skoðun, skáldsögur snúast miklu frekar um að fá mann til að skilja.

Það er nefnilega ekkert mál að hafa allar réttu skoðanirnar - en við breytum engu um allar þær skoðanir sem okkur þykja rangar ef okkur skortir allan skilning á því hvaðan þær spretta og hvaðan þær sækja röksemdir sínar og réttlætingar.

Ásgeir H

Hildigunnur sagði...

Ég steinhætti að lesa bæði Jonathan og Faye Kellerman þegar Ísraelsáróðurinn varð sífellt meira augljós í bókum þeirra. Missti sem betur fer ekki af neinu, þar sem bækurnar höfðu verið að þynnast sífellt út og voru orðnar óttalegt rusl.

Finnur sagði...

Í myndinni La Chinoise tekur pólitíska sellan sem myndin snýst um sig til og býr til lista yfir fjölmarga rithöfunda og leikskáld. Síðan strika þau yfir nöfnin eitt á fætur öðru eftir því hvaða stéttasvik þau hafa framið og komast að því að það sé einungis leyfilegt fyrir fólk með þeirra pólitísku skoðanir að lesa Brecht, ef ég man rétt.

Örn Ólafsson sagði...


Mange revolutionære som har forkastet stalinismen, holder stadigvæk fast i nogle af dens forestillinger. Det er vel fordi de ikke forekommer at være politisk centrale, og fordi de har et positivt skær. Blandt disse kan nævnes forestillingen om en socialistisk kunst og litteratur under kapitalismen. Ja, man forsøger jo at vinde folk for revolutionen. Hvorfor skulle man så ikke hylde kunstnere som allerede går ind for revolutionen, og anse deres værker for at være revolutionære?
Ja mest fordi de ikke kan være det. Karl Marx sagde jo at i et klassesamfund hersker et idésystem (en idéologi) som retfærdiggør klassedelingen. Han undtog ikke arbejderklassen, og det er en revisionistisk (socialdemokratisk) vildfarelse at antage at arbejderklassen i et kapitalistisk samfund har en sund, socialistisk holdning, en spire til fremtidens socialistiske samfund. Denne holdning skal bare aktiveres, og til det behøver vi et socialistisk kunstværk. Dette fører til en dyrkelse af arbejderklassens aktuelle idéer og holdninger, som faktisk er i takt med klassesamfundet. Således forsøger denne idéologi at fastholde arbejderklassen i kapitalismens folder! Det kræver en langvarig revolutionær kamp at frigøre sig fra den borgerlige idéologi.
Vi kender denne holdning godt fra socialdemokratiet. Det har i årtier arbejdet på en modkultur indenfor kapitalismen, bygget på arbejderklassens ”sunde bevidsthed”. Arbejderlitteratur, musik, bryggerier, rejsebureauer, alt skulle være selvstændigt. Men naturligvis var det underordnet markedssamfundets mekanismer, kunne kun overleve ved udbytning af arbejderne. Så disse foretag tjente mest til at indordne arbejderbevægelsen i kapitalismen.

Örn Ólafsson, Kaupmannahöfn

Þorgerður sagði...

Það er langt síðan ég hef lesið neitt eftir Amis en hafði alveg gaman að gamla stöffinu hans, Money fannst mér t.d. skemmtileg. En hann er þokkalega óþolandi í viðtölum og greinum, samhúðarlæk á það.

Maríanna Clara sagði...

Ég segi eins og þið Salka og Arngrímur - ég á mun auðveldara með að aðskilja gamla/dauða höfunda frá verkum sínum - ekki síst af því það er ómögulegt að setja sig í þeirra spor og átta sig á því á hverju skoðanir þeirra/fordómar voru byggðar. Fólk getur lítið að því gert að vera barn síns tíma - í dag finnst manni hins vegar fólk ekki hafa neina afsökun fyrir því að vera illa upplýst eða með fordómafullan hatursáróður.
Að því sögðu þá er alltaf hollt að minna sig á það sem félagi Morse sagði einhvern tíman - um að maður ætti aldrei að rugla saman listamönnum og list þeirra (mig minnir að einhver stórkostleg óperusöngkona hafi reynst vera morðingi). En ég er afskaplega lítið spennt fyrir Orson Scott Card...

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Fullt af djúsí kommentum og nóg að hugsa um! Og já, góður púnkturinn sem ég eiginlega gleymdi að hafa með - að maður getur auðvitað ekki bara lesið/hlustað á skoðanasystkini sín. Maður hlýtur að vilja eiga í einhvers konar samræðu við fólkið sem maður er ósammála. Vita hvað það er að segja og hvers vegna því finnst það sem manni finnst. Og stundum skiptir maður meira að segja sjálfur um skoðun! (þó sjaldnar en maður ætti, hugsa ég)
Og þegar fólk er komið út í það að bókstaflega banna bækur á hugmyndafræðilegum forsendum þá er stutt í Fahrenheit 451-stemningu.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

*það sem ÞVÍ finnst, augljóslega!

Ugla Egilsdóttir sagði...

Ég held að það ali á óhollum viðhorfum til fólks að gera þá kröfu að listamenn séu ekki bara góðir listamenn, heldur hafi skynsamlegar skoðanir, eða séu almennilegar manneskjur (nema auðvitað ef þeir eru nánir manni og það komi manni beinlínis við). Rétt eins og bara almennt í mannlegum samskiptum þá er kannski ekki rétt að afskrifa fólk algjörlega á öllum sviðum þótt það hafi stóra galla. Það er manneskjulegra að aðskilja það og gefa fólki séns.

Arngrímur Vídalín sagði...

Margt áhugavert sem hefur komið fram hérna, ekki síst sjónarmið Ásgeirs og Uglu. Maríanna Clara nefnir að aðskilja listamanninn frá verkum sínum og það er nokkuð sem mér finnst vera alveg sjálfsagt að lesendur leitist eftir fremsta megni við að gera (eða kannski segi ég það af því mér var innrætt það í háskólanum).

Mig langaði því að árétta að það eru fyrst og fremst fyrirsjáanlegar móralíseringar sem fæla mig frá bókum. Ef ég hef ekki rökstuddan grun um að viðkomandi bók sé lítið annað en staðgengill fyrirsjáanlegra skoðana höfundar þá get ég lesið hana með opnum hug sama hverjar skoðanir höfundar á annað borð eru.

Maður á að sjálfsögðu ekki að lesa aðeins það sem manni sjálfum þykir þægilegast. Raunar hef ég mest yndi af þess háttar bókmenntum sem ögra mér á einhvern hátt, og þykir stundum erfitt að finna þess háttar bækur að komist nálægt því. Þó að Guðbergur sjálfur geti vel ögrað mínum skoðunum þá er það að lesa Guðberg í samanburði einsog að vera sleiktur af kettlingi. Bækurnar hans trufla mig ekki neitt og ég les þær ef ég nenni.

Asta sagði...

Ég tók þá ákvörðun fyrir mörgum árum að lesa ekkert eftr Orson Scott Card og hef ekki séð eftir því. Ég sé ekkert að því að fá t.d. lánaða bókina og lesa hana þannig en mig langar ekki til að kaupa hana og gefa þannig mitt þögla samþykki fyrir ferli þessa manns.

Hannes Oli sagði...

Ég er búinn að vera velta þessu fyrir mér, er hægt að fordæma öll verk Guðbergs eftir bloggfærslu? Hvenær dregur maður línuna? EN svo rakst ég á þessa tilvitnum í Neil Gaiman og var pínu sammála...
"If I were only allowed to read or enjoy art or listen to music made by people whose opinions and beliefs were the same as mine, I think the world would be a pretty dismal sort of a place."
Hannes Óli

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Takk fyrir áframhaldandi góð komment! Þessi Gaiman-tilvitnun er helvíti góð. Og sömuleiðis pælingin með að gera þá kröfu til listafólks að það falli manni vel í geð sem persónur. Ég meina, fullt af stórkostlegum listamönnum voru/eru örugglega alveg óþolandi í eigin persónu - þið vitið, kannski hefði manni fundist Van Gogh yfirgengilega dramatískur eða fúll eða eitthvað en það eyðileggur ekki stjörnubjörtu nóttina hans ...

Eyja M. Brynjarsdóttir sagði...

Fyrir mér snýst þetta ekki beint um fordæmingu verkanna heldur hvernig hlutir forgangsraðast á listanum óendanlega yfir bækur sem mig langar að lesa en hef ekki mátt verið að að lesa ennþá. Það sem ég átti ólesið af verkum Guðberg þegar hann byrjaði að tala um stelpupussulætin hrapaði niður um allmörg sæti á listanum. Ég veit ekki hvort ég get útskýrt nákvæmlega af hverju -- mig bara langar ekki eins mikið til að lesa bækur eftir Guðberg og mig gerði áður. En ég myndi alveg lesa þær ef ég hefði ekkert annað lesefni sem freistaði mín meira.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Það er alveg eins og með mig og bækur Guðbergs. Löngunin hvarf, vegna þess að í hvert sinn sem ég renni augunum yfir bókahillurnar og sé eitthvað sem ég á eftir að lesa eftir hann fæ ég einhver hugrenningatengsl við stelpupussupistilinn og þá bara vel ég eitthvað annað.