13. nóvember 2010

Húðflúr og hommaklám með ljóðrænu ívafi



Áður en ég dembi mér út í íslenska jólabókaflóðið, sem ég hef rétt tyllt tánni í enn sem komið er, langar mig að minnast á aðra bók sem ég lauk við í gær, svo ég gleymi því nú örugglega ekki. Það er ný bandarísk ævisaga eftir Justin nokkurn Spring með ómótstæðilegum titli sem leyfði mér ekki að láta hana ókeypta: Secret Historian. The Life and Times of Samuel Steward, Professor, Tattoo Artist, and Sexual Renegade. Samuel Steward var ekki þekktur maður en skilur eftir sig miklar heimildir um fjölbreytt og áhugavert lífshlaup sitt, enda vísar heitið Historian í titlinum til þess hve ötull skrásetjari hann var.

Samuel Steward fæddist í Ohio árið 1909. Hann tók doktorspróf í enskum bókmenntum frá Ohio State University í Columbus og starfaði sem háskólaprófessor í tuttugu ár upp frá því, lengst af í Chicago. Framan af dreymdi hann um að verða rithöfundur, hann orti ljóð og gaf út eina skáldsögu sem fékk ágætar viðtökur. Hann ferðaðist til Evrópu, lærði frönsku og kynntist ýmsu andans fólki, einkum Gertrude Stein og Alice B. Toklas sem urðu góðar vinkonur hans. Um 1950 fékk hann skyndilega gríðarlegan áhuga á húðflúri, batt enda á langan feril sinn sem prófessor og gerðist tattúlistamaður. Sem slíkur flutti hann til San Francisco og tattúveraði meðal annars fjölmarga meðlimi Hell´s Angels. Á sínum síðari árum tók hann aftur til við skriftir en í þetta sinn runnu frá honum klámsögur á borð við $TUD og My Brother, the Hustler. Hann lést á gamlársdag árið 1993.

Rauði þráðurinn gegnum þetta margbreytilega líf Stewards var gríðarlegur áhugi hans á kynlífi, bæði verklegur og fræðilegur. Hann var samkynhneigður og kynferðisleg ástríða hans olli honum mikilli togstreitu og erfiðleikum sem einkenndu allt hans líf. Hann lifði þó ótrúlega opinskáu einkalífi miðað við þá fordóma og ofsóknir sem samkynhneigðir máttu sæta, sérstaklega um miðja öldina, enda hafði hann sérstaka andstyggð á því tvöfalda lífi sem flestir þeirra neyddust til að lifa og streittist mjög á móti því. Hann skilur eftir sig gríðarlega áhugaverðar heimildir um heim samkynhneigðra í Bandaríkjunum fyrir upphaf mannréttindabaráttunnar. Sem fyrr segir var hann ötull, allt að því smásmugulegur skrásetjari, en besta dæmið um þá áráttu hans er hið svokallaða Stud File, nákvæm spjaldskrá yfir allar kynferðislegar athafnir sem hann tók þátt í frá upphafi (þær urðu á fimmta þúsund, með meira en 800 mismunandi einstaklingum). Í gegnum víðfeðma reynslu Stewards af heimi samkynhneigðra og samviskusama skrásetningu hans gerðist hann samstarfsmaður og mikill vinur dr. Alfred Kinsey, sem gaf út tímamótarannsóknir sínar á kynlífi Bandaríkjamanna um miðja 20. öld. Kinsey fór jafnvel út í hálfgerðar mannfræðirannsóknir og var viðstaddur skipulagðar orgíur á heimili Stewards, væntanlega með lonníetturnar á nefinu og nagandi blýant.

Í einni tilvitnun á bókarkápu segir gagnrýnandi um bókina að í henni séu fleiri dónasögur en viðkomandi hefði haldið að rúmuðust í einu lífi, og ég viðurkenni fúslega að þær eru með því skemmtilegasta í bókinni. Steward var svo dásamlega opinskár um hneigðir sínar og þau misupplífgandi ævintýri sem hann rataði í fyrir þeirra tilstilli. Rúmlega tvítugur skellti hann sér til Evrópu og heimsótti Lord Alfred Douglas, hann Bosie hans Oscars Wilde, gagngert í þeim tilgangi að sofa hjá honum og komast þannig nær skáldinu. Og gerði það, þótt Bosie væri kominn á sjötugsaldur og ekki sérlega aðlaðandi náungi. Um svipað leyti átti Steward eldheitan fund með Rudolph Valentino á hótelherbergi og varðveitti æ síðan lokk af skapahárum Valentinos til minningar (lokkurinn ku enn vera til). Síðar þróaði hann með sér mikið búningablæti. Það beindist í fyrstu einkum að sjóliðum, sem hann leitaði uppi meðal annars á YMCA í San Francisco, eða eins og þar segir: „Moreover, because the Y was full of uniformed sailors, Steward found himself in a state of permanent sexual arousal, and as the weeks passed, the condition left him exhausted.“ Þegar hann varð tattúlistamaður sá Steward svo mikið af myndarlegum sjóliðum á degi hverjum að sjarmi þeirra dofnaði en hann sneri sér þá að lögreglumönnum, táknmyndum yfirvaldsins, meðfram því sem hann fikraði sig áfram í sadómasókískum tilraunum. Þessi hrifning átti eftir að endast Steward út lífið og það er mjög krúttleg saga af því í lok bókarinnar þegar félag samkynhneigðra lögreglumanna í San Francisco býður honum í veislu á 9. áratugnum, og það er passað upp á að allir séu einkennisklæddir – gamli maðurinn var alveg í skýjunum eftir það partí.

Höfundur bókarinnar, Justin Spring, segir sögu Stewards af mikilli hlýju og virðingu. Þótt bókin sé mjög skemmtileg er ekki dregin nein dul á það að líf Stewards var oft einmanalegt, einkum á síðari árum, þegar hann var ekki lengur ungur og hraustur og eftirsóttur kynferðislega heldur meira í ætt við gamlan perra sem sat innan um typpastytturnar sínar og skrifaði klám, vilji maður lýsa því harðneskjulega. Eitt af því sem er mest heillandi við Steward er hversu fjölbreytt líf hans og persóna er – ástríðufullur kynlífssérfræðingur, streetwise tattúlistamaður, háfleygur bókmenntamaður sem neimdroppar villt – og hvað rennur saman við annað, hann skrifar háskólaritgerðir um samkynhneigð Whitmans, bækur um mannfræði tattúlistarinnar og hommaklámsögur uppfullar af vísunum í heimsbókmenntirnar.

Ég hef bara rétt tæpt á bókinni hér, það er margt í henni sem athyglisvert væri að ræða frekar, einkum og sérílagi ýmis atriði viðkomandi lífi samkynhneigðra í Bandaríkjunum á 20. öld og þeirri þróun sem verður í hugmyndum um kynhneigðir og kynlíf á þessum tíma. Bókin um Samuel Steward er alltént fyrirtaks upphafspunktur, svo verðið þið bara að koma með mér í leshring.

Kristín Svava

Engin ummæli: