27. nóvember 2010
Meira kjöt, takk
Af hverju ákveður maður að skrifa ævisögu annarrar manneskju? Ef við reiknum hvorki með praktískum efnum á borð við gróðavon né hreinum listrænum hugsjónum (synd að fólk geri ekki meira af því að formbylta ævisögum) hefði ég haldið að það væri einkum af tveimur ástæðum: af því að viðkomandi manneskja hefur átt sérstaklega áhugaverða ævi eða af því að hún hefur upplifað áhugaverða sögulega tíma. Ég veit ekki hvort það er hægt að dæma um forsendurnar fyrir ritun bókar af kynningu hennar eftir á, en alltént er ævisaga Guðrúnar Ögmundsdóttur eftir Höllu Gunnarsdóttur, Hjartað ræður för, kynnt þannig að þetta séu hvort tveggja ástæður fyrir því að segja sögu hennar. Hún er sögð eiga að baki „litríka og dramatíska ævi“ (aftan á kápunni stendur líka – í gæsalöppum, en ekki kemur fram hvaðan tilvitnunin er komin – „Tilfinningalegur rússíbani“) auk þess að vera „holdgervingur ´68-kynslóðarinnar“ og hafa tekið virkan þátt í pólitískri baráttu gegnum tíðina.
Persónulega hafði ég mestan áhuga á að lesa sögu Guðrúnar vegna þátttöku hennar í Rauðsokkahreyfingunni og kvennabaráttunni almennt en bókin bætir engu við það sem ég veit um þá sögu fyrir og hef heyrt áður. Mér finnst uppbygging bókarinnar frekar vanhugsuð; þetta er hefðbundin og vandlega krónólógísk frásögn þar sem hver kafli lífsins fær nokkurn veginn jafn mikið bókarpláss. Það er hins vegar fullmikið sagt að ævi Guðrúnar hafi verið „dramatísk“ – into each life some rain must fall og allt það, en það er ekki beinlínis dramatík – og að tala um bókina sem „tilfinningalegan rússíbana“ er svo yfirdrifið að það virkar eins og háð. Það er eins og ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um hvað ætti að leggja mesta áherslu á í frásögninni og því verður bókin dálítið eins og langt Mannlífsviðtal, eins konar human interest story. Ég hef ekkert á móti svoleiðis sögum í sjálfu sér, hversdagslíf annarra hefur oft einhvern undarlegan sjarma, en allt á sér sinn stað og stund.
Ég held að bókin hefði grætt mikið á þematískari nálgun þar sem kafað hefði verið dýpra í ákveðna kafla og þeir settir í sögulegt samhengi. Það er væntanlega smekksatriði að einhverju leyti hvað er lögð áhersla á, eins og áður segir hafði ég persónulega mestan áhuga á kvennabaráttunni og hefði viljað miklu efnismeiri kafla um hana, en störf Guðrúnar í félagslega geiranum og þá þróun sem þar hefur orðið í alls kyns réttindamálum og hugmyndafræði hefði líka verið áhugavert að sjá setta í stærra samhengi. Sérlegir áhugamenn um flokkspólitík hefðu kannski viljað sjá meiri umfjöllun um tíma Guðrúnar á þingi en ég var reyndar dauðfegin að hún var ekki meiri, ég er búin að lesa yfir mig af ævisögum pólitíkusa með köflum á borð við „Fjárlög og landamerkjadeilur 1952“ og komin með algjört ógeð á þingrifrildum. Eiginlega hafa þær náð að sannfæra mig um að Alþingi hljóti að vera einn mest niðurdrepandi og mannskemmandi vinnustaður á landinu.
Mér fannst bókin ekki leiðinleg – ég meina, þetta er human interest, og Guðrún er augljóslega mjög sympatísk og skemmtileg manneskja – en það hefði verið hægt að hafa miklu meira kjöt á beinunum ef bókin hefði verið hugsuð betur og nálgunin verið örlítið frumlegri.
Kristín Svava
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli