10. nóvember 2010

Stolnar raddir

Stolnar raddir eftir Hugrúnu Hrönn Kristjánsdóttur lauk ég við á andvökustund í nótt. Þetta er saga stúlku á þrítugsaldri, Sóllilju, sem sem býr með dóttur sinni í kjallara hjá ömmu sinni en í húsinu býr einnig heyrnarlaus frændi með tölvudellu. Sóllilja finnur mynd af ömmu sinni og ókunnum karlmanni á bakvið mynd af ömmunni og afa sínum og kemst í framhaldinu að því að fortíð fölskyldunnar er flóknari en hún hefur hingað til talið.

Stolnar raddir er ekki leiðinleg eða óáhugaverð bók og það hvarflaði aldrei að mér að hætta að lesa (lífið er stutt og nóg af góðum bókum þannig af ef ég fæ ekki áhuga á efni bókar á 50-100 síðum þá legg ég hana frá mér) en hins vegar finnst mér verkið dálítið gallað. Söguþráðurinn er áhugaverður og ætti að vera spennandi en hann er allt of fyrirsjáanlegur og útreiknanlegur frá því snemma í bókinni. Miðað við hvað söguefnið er gríðarlega dramatískt þá fannst mér tilfinningarnar einhvernveginn ekki ná í gegn. Til þess er margt afgreitt með svo miklum hraði og persónurnar eru í heildina of óljósar, þær náðu a.m.k. ekki að fá á sig nægilega góða mynd í mínum huga með örfáum undantekningum. Þó að fatnaði og útliti fólks sé vel lýst (eins og þarna er oft gert) þá nægir það ekki til að persónan fái dýpt, þetta hefði verið hægt að vinna betur.

Sagan er í nokkrum lögum. Líf Sóllilju í nútíð finnst mér besti hlutinn. Bernsku hennar er lýst með ljóðrænum innskotum um fiðrildi, mjólk sem hellist niður og ýmislegt sem hún upplifir og hugsar en þau fannst mér síðri (ég held hins vegar að margir lesendur muni kunna vel að meta þá kafla) og saga ömmunnar er of  losaralega sögð og kaflarnir náðu ekki vel að fanga tíðaranda þess tíma sem þeir gerast á, en einmitt sú saga er hryggjarstykki bókarinnar.

Þrátt fyrir það sem ég hef nefnt er ýmislegt lúnkið í Stolnum röddum og ég vona að höfundurinn sé í stuði til að vinda sér í frekari bókaskrif. Frásögn af feisbúkkstatusum þeim sem móðirin setti inn, með nákvæmum upplýsingum um einkunnir systkina aðalpersónunnar og tilheyrandi kommentum vinkvenna, skemmtu mér til dæmis. Sóllilja sjálf er  vel heppnuð persóna; gölluð, lygin, ábyrgðarlaus og dugleg við að klúðra lífi sínu eins og býsna margt gott fólk þannig að ég held að margir lesendur muni ná góðu sambandi við hana.

Þórdís

Engin ummæli: