6. október 2011

Nýræktarstyrkir Bókmenntasjóðs

Í dag, fimmtudaginn 6. október, tilkynnti Ásta Magnúsdóttir ráðuneytisstjóri mennta- og menningarmálaráðuneytis hverjir hlytu Nýræktarstyrki Bókmenntasjóð árið 2011, en þetta er í fjórða sinn sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað. Athöfnin fór fram í Nýlistasafninu á Skúlagötu 28 og þar var boðið upp á hnetur, súkkulaðirúsínur, saltstangir og drykki í ýmsum litum.  Nýræktarstyrkjum er ætlað að styðja við útgáfu á nýjum íslenskum skáldverkum sem hafa takmarkaða eða litla tekjuvon en hafa ótvírætt menningarlegt gildi. Undir þetta svið falla skáldverk í víðri merkingu þess orðs til dæmis sögur, ljóð, barnaefni, leikrit, eða eitthvað allt annað, og leitað var eftir breidd og fjölbreytni í umsóknum.  Í ár bárust 30 umsóknir um 5 styrki að upphæð 200.000 kr.

Styrkina fengu að þessu sinni barnabók, myndasögutímarit, skáldsaga, bókverk/myndljóð og unglingabók og meðal styrkþegar var ein úr röðum okkar, sem skrifum á Druslubókasíðuna, Hildur Knútsdóttir og einnig fengu verk eftir Bryndísi Björgvinsdóttur og Arndísi Þórarinsdóttir styrki. En eftirfarandi verk og höfundar hlutu styrki, blóm og hamingjuóskir:



Aðsvif (myndasögutímarit)
Ritstjóri: Andri Kjartan Jakobsson

Játningar mjólkufernuskálds
Höfundur: Arndís Þórarinsdóttir
Útgefandi: Forlagið

Flugan sem stöðvaði stríðið
Höfundur : Bryndís Björgvinsdóttir
Útgefandi: Forlagið

Sláttur 
Höfundur: Hildur Knútsdóttir
Útgefandi: JPV

Hold og hjarta - líkamlegu ljóðin 
Myndljóð unnin upp úr bók Magneu frá Kleifum.
Höfundur: Ragnhildur Jóhanns
Útgefandi: Ófundinn

12 ummæli:

Garún sagði...

Vei! Til hamingju Hildur! Óska hinum líka til hamingju og vona að nýræktin vaxi og blómstri sem aldrei fyrr :-)

Annars skondið orð, nýrækt - eins og verið sé að rækta nýja tegund af einhverju... eða viðkomandi nýfarin að rækta...hmm...veit ekki hvort ég sé alveg sátt við þetta orð.

Nafnlaus sagði...

Nýrækt er býsna fallegt orð.

Garún sagði...

Ég er sammála því. Orðið er fallegt. Velti bara fyrir mér hvort það sé rétt orð fyrir þessa styrki.

Nafnlaus sagði...

Kostulegt grín að veita hálfsárs gamalli bók, sem forlag tók upp á sína arma og fékk þal gríðarmikla umfjöllun, þessi smánarverðlaun, sem örugglega hefðu komið einhverju hinna verkefna vel. Mögulega stuðlað að því að það verkefni hefði þá komið út.
Hvert rennur féð? til forlagsins? höfundarins?
Tekur því varla að pirra sig á hinu, að verðlaunabókin og unglingabókin fái prísinn, vélin - forlagið - mun mala undir þeim báðum samt.
Hin tvö verkefnin eru örugglega vel að þessu komin. Verkefni sem hafa takmarkaða eða litla tekjuvon.

Guðrún Lára sagði...

Til hamingju Hildur og allir hinir!

Kristín Svava sagði...

Það eru forlögin sem fá peninginn. Hann er ekki mjög mikill en munar um hann ef um sjálfsútgáfu eða eitthvað í svipuðum dúr er að ræða.

Það hefur gerst að höfundar hafi fengið styrkinn og síðan fengið útgáfusamning, og þá hefur styrkurinn fylgt þeim yfir á forlagið, en hefur Forlagið með stóru F-i alltaf verið svona duglegt að sækja um styrki fyrir hönd höfunda sem það var áður búið að samþykkja að gefa út? Ég er mjög sátt við að þessum tilteknu höfundum Forlagsins sé hampað, en í ljósi þess að þær eru ekki að græða neitt á þessum styrk (nema hann hafi beinlínis verið forsenda útgáfu, sem væri grátlegt) finnst mér sjálfsagt að setja spurningamerki við að það sé verið að mjatla þessum styrkjum handa verkefnum með takmarkaða eða litla tekjuvon í stærsta útgáfufyrirtæki landsins. Og láta svo eins og það séu höfundarnir sem fá þá.

Arndís sagði...

Fresturinn til að sækja um styrkina rann út í apríl. Ég veit að fyrir mína parta var ég ekki komin með útgefanda þá. Handritið hafði verið sent til Forlagsins, sem hafði enn ekki tekið afstöðu til þess. Ég bað Forlagið um leyfi til að sækja um styrkinn í eigin nafni, hugsandi sem svo að það væri gott að geta "borgað með sér" ef ég væri að fara að leita mér að útgefanda.
Ég gat þess í umsókninni að handritið væri í skoðun hjá Forlaginu, en það var enginn búinn að skuldbinda sig til að mylja undir mig þegar þetta var ;)

Hildur Knútsdóttir sagði...

Ég þakka hamingjuóskirnar!

Og það var enginn meira hissa á styrkveitingunni en ég sjálf, þar sem ég hafði ekki hugmynd um að Forlagið hafði sótt um styrkinn fyrir mína hönd.

Nafnlaus sagði...

Sælanú allir.
Í sambandi við bókina mína þá sótti ég um styrkinn í apríl til að geta borgað myndskreyti fyrir teikningar inni í bókina. Síðan leið og beið. Ég borgaði myndskreytinum úr eigin vasa fyrir nokkru því það tíðkast ekki að bækur sem fá íslensku barnabókaverðlaunin séu myndskreyttar - og væri ósanngjarnt að hálfu Forlagsins að borga fyrir myndskreytingar í bókina mína þegar þau hafa ekki gert slíkt hið sama fyrir aðra. Styrkurinn sem ég sótti um var því fyrst og fremst fyrir þessar myndskreytingar, það var ljóst í umsókninni en kom ekki fram í athöfninni. - Bryndís Björgvinsd.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Hmm já, mér finnst allir verðlaunahafarnir vel að þessu komnir og óska þeim innilega til hamingju.

En ég er hins vegar sammála Kristínu Svövu um að það er vafasamt að eyrnamerkja þetta höfundunum út á við og setja þetta upp eins og einhverja æðislega ungskáldastyrki sem geri skáldum/útgefendum með hugsjónir kleift að stunda grasrótarstarf. Það er bara ekki rétt. Ef tiltekið forlag fær peningana þegar styrkur er veittur á það að vera á nafni forlagsins, sama hver sótti um hann upphaflega - og mér finnst reyndar yfirhöfuð að stærsta forlag landsins ætti ekki að geta fengið krónu af þessum peningum, með fullri virðingu fyrir þeirra útgáfustarfsemi. Það gengur þvert á það sem ég hélt að væri tilgangurinn með þessari tilteknu styrkveitingu. Sérstaklega þegar verk eru þegar komin út og þ.a.l. liggur fyrir að útgáfan var fjárhagslega möguleg án þess að styrkurinn kæmi inn í dæmið. Í þessari úthlutun eru sumsé þrjár (góðar) Forlagsbækur. Þótt við drögum myndskreytingastyrkinn frá eru þetta samt 2 af 5 styrkveitingum. Ekki mjög grasrótarlegt og ekki forsenda þess að útgáfa sé möguleg.

Sumsé: Til hamingju, kæru skáld og ritstjórar - en úthlutunarreglurnar þarf að skoða, eða breyta lýsingunni þegar styrkirnir eru auglýstir.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

... og vil taka fram að ég hef aldrei sótt um styrkinn sjálf, þetta komment hljómar dálítið eins og ég sé bitur umsækjandi sem var hafnað! Sver að ég er það ekki!

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þetta síðasta komment frábært og dæmigert því það er svo oft þannig á Íslandi að ef maður segir sína skoðun, gagnrýnir eitthvað, þá er maður átómatískt álitinn vera með einhver annarleg sjónarmið og eiga einhverra hagsmuna að gæta ;)