30. janúar 2012
Að ala niður börn
„Margir smábarnaforeldrar (þar á meðal ég og eiginkona mín) höfum áhuga á uppeldisaðferðum Önnu Wahlgren. Ein spurning sem mig myndi langa að fá svar við er hvernig hennar eigin börnum hefur vegnað? Hún á níu stykki ef mig misminnir ekki. Urðu þau öll að sjálfstæðum, andlega heilbrigðum einstaklingum eða hafa þau borið einhvern skaða af aðferðum móður sinnar?“
Þannig spyr ónefndur sænskur faðir í hversdagslegu netspjalli í byrjun ársins 2010. Nú tveimur árum síðar hefur hann væntanlega fengið svörin sem hann óskaði eftir. Fyrir örfáum vikum kom nefnilega út bókin Felicia försvann sem eru minningar Feliciu Feldt, fullorðinnar dóttur umræddrar Önnu Wahlgren. Og dóttirin segir sínar farir ekki sléttar.
En áður en við rýnum í þá bók er rétt að bakka nokkur skref og gera grein fyrir Önnu þessari Wahlgren. Anna Wahlgren gaf út Barnaboken árið 1983, doðrant með undirtitilinn „umönnun og uppeldi barna frá 0-16 ára.“ Í bókinni setur hún fram kenningar sem hafa verið umdeildar allar götur síðan, sumir fullyrða að þær hafi bjargað lífi þeirra á þessum fyrstu erfiðu árum í foreldrahlutverkinu (þeirra á meðal er Camilla Läckberg sem lofaði aðferðir Önnu til að mynda í hástert í Steinsmiðnum), aðrir fussa og sveia. Í seinni tíð hefur Anna Wahlgren einbeitt sér að svefnvandamálum og gefið út bók um aðferðir til að fá börn til að sofa sjálf alla nóttina. Þau ráð hafa verið jafnumdeild og annað úr hennar ranni og hefur hún meðal annars verið harðlega gagnrýnd fyrir að fyrirskipa að öll börn eigi að sofa á maganum – nokkuð sem almennt hefur verið mælt gegn frá því í upphafi tíunda áratugarins þegar rannsóknir sýndu að koma mætti í veg fyrir stórt hlutfall vöggudauða með því að láta ungabörn sofa á bakinu. Gagnrýnendum Önnu Wahlgren þykja uppeldisaðferðir hennar stífar og telja þær frekar miðast að því að skapa foreldrunum rými en að hugsa um velferð barnsins. Þetta þykjast margir líka hafa lesið út úr sjálfsævisögu hennar í þremur hlutum, Mommo, sem kom út 1995-1997 þar sem hún ku greina frá bæði frjálslegum ástarmálum sínum og skemmtanalífi. Sjálf myndi Anna Wahlgren væntanlega frekar lýsa kenningum sínum á þann hátt að þær miði að því að móta sterka einstaklinga úr börnunum, leyfa þeim að taka ábyrgð en fría þau frá samviskubiti og skapa samband milli barna og foreldra sem einkennist af heilindum. Og einhvern veginn þannig er sú ímynd sem hún hefur gefið af sér og börnunum sínum átta (hún missti einn son ungan að árum), að þau hafi verið einn stór, samheldinn og hamingjusamur hópur þar sem allir hjálpuðust að við heimilishaldið og hver studdi annan. Þeirri mynd var víst líka haldið á lofti af fjölmiðlum í kringum útgáfu Barnaboken. Allt þangað til nú þegar þriðja barnið, Felicia, stígur fram og segir sögu sína.
Felicia försvann eru ólínuleg minningarbrot höfundarins sem spanna allt frá æskuárum og til dagsins í dag. Öll frásögnin hverfist um mömmuna, sambandið við hana og afleiðingar þess. Samkvæmt bókinni var æska barnahópsins langt í frá eins rósrauð og fjölmiðlaímyndin gaf til kynna. Mamman drakk, flutti linnulaust milli landshluta, dró heim hvern karlinn á fætur öðrum (sumum giftist hún, öðrum stundaði hún bara kynlíf með á meðan börnin voru læst inni í herbergi), hún hótaði börnunum öllu illu, jafnvel með hnífi, ef þau voru henni ekki að skapi, hún hótaði líka að drepa sjálfa sig oftar en einu sinni, hún stundaði það að útiloka börnin eitt og eitt í einu, hún beitti líkamlegum refsingum, hún niðurlægði ... og þetta er bara byrjunin. Ég held að hryllingurinn og súrrealisminn nái hæstu hæðum í kaflanum sem lýsir símtali sem höfundur fær frá þáverandi eiginmanni móðurinnar sem lýsir því í örvæntingu hvernig „uppeldissérfræðingurinn“ skríður á hnjánum í glerbrotum, vitstola eftir margra daga samfellda áfengisneyslu – og já, einmitt, alveg rétt, hún var líka með þrjú ungabörn hjá sér sem hún átti að kenna að sofa sjálfum! Þetta er ansi hátt fall fyrir manneskju sem ku víst hafa fullyrt að hún væri fremsti uppalandi í heimi.
En um leið og Felicia beinir spjótum sínum að mömmunni horfir hún gagnrýnum augum á sjálfa sig. Vissulega liggur það í samhenginu að flest það sem misfarist hefur í hennar lífi megi rekja til uppeldis og æsku en þó skynjar maður í gegnum textann að Felicia taki fulla ábyrgð á gjörðum sínum. Líka því að neita alfarið að sættast við móðurina (eftir fjölmargar misheppnaðar tilraunir). Og þótt hún sé augljóslega reið þá er hún ekki brjáluð, hún heggur ekki villt og galið heldur miðar af yfirvegun og að vel hugsuðu máli.
Þetta er vel skrifuð bók, ekkert meistaraverk en af töluvert hærri standard en gengur og gerist með svona lífsreynslusögur. Textinn er oft fallegur og ókrónólógísk uppbyggingin gerir það að verkum að lesandinn fléttar þráðinn smám saman sjálfur. Helstu veikleikar bókarinnar eru kannski hve hátt pabbanum er gert undir höfði. Bókin er tileinkuð honum og hann virðist hafa komið eins og frelsarinn sjálfur inn í líf höfundarins á fullorðinsárum. Samt er ekki annað að sjá en að hann hafi fram að því verið meira og minna fjarverandi frá því hann skilur við mömmuna. Af hverju er hún ekkert reið út í hann? Eins rýrir það trúverugleika frásagnarinnar örlítið að Felicia virðist sú eina úr hópi átta systkina sem umgengst ekki mömmuna. Ég veit að meðvirkni er sterkt afl en ég meina, mamma píndi systkinin til að horfa á standpínu áfengisdauðs eiginmanns síns og bara eitt af átta gefst upp á henni?! En þar fyrir utan veltir Felicia försvann upp ótal mikilvægum spurningum, spurningum um hlutverk og skyldur bæði foreldra og barna, um réttinn til að stilla afkomendum sínum upp til sýnis og um réttinn til að fella – nei, sparka, fólki niður af stallinum.
Og áhyggjufulli sænski smábarnapabbinn hefur loksins fengið sín svör. Það er alveg óvíst hvort börn Önnu Wahlgren hlutu skaða af uppeldisaðferðum hennar því hún virðist hafa beitt þeim takmarkað sjálf.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
jæja - ég rýk þá ekki út í búð til að kaupa bók eftir Önnu...
Einu sinni fletti ég Barnaboken í Statsbiblioteket í Uppsölum (eftir að vinkona mín sagði mér að þetta væri uppeldisbiblía margra Svía) og ákvað eftir fimm mínútna lestur að Anna Wahlgren væri vitleysingur. Síðan hef ég séð nokkur viðtöl við hana í sjónvarpinu og orðið sífellt staðfastari í þeirri trú. Ég sá og heyrði líka einhvern sænskan barnalækni salla niður svefnráð hennar (sem komu út á bók fyrir einhverjum árum), börn náttúrlega sofna fyrr eða síðar ef þau eru látin öskra nógu lengi.
Camilla Läckberg...já, neinei, ég mun aldrei taka mark á neinu sem sú kona er hrifin af.
Tek undir með Kristínu Svövu ...
Skrifa ummæli