Finnska skáldkonan Sofi Oksanen ætti að vera Íslendingum kunn, ef ekki fyrir vinsælan skáldskap, þá ef til vill fyrir að hafa sármóðgað útvarpskonu Rásar 2 í viðtali í vetur sem leið. Oksanen hefur gefið út þrjár skáldsögur, tvö leikrit og samritstýrt einu greinasafni — þar af hefur Hreinsun notið mestrar velgengni, sem upphaflega var leikrit, frumsýnt 2007. Oksanen vann síðan skáldsögu úr handritinu sem kom út árið eftir. Fyrir skáldsöguna, sem hefur verið þýdd á tugi tungumála og kom út í íslenskri þýðingu Sigurðar Karlssonar 2010, hlaut höfundurinn ótal viðurkenningar og gríðarlegt lof víða um heim. Leikritið hefur sömuleiðis farið víða og er um þessar mundir í sýningu í Þjóðleikhúsinu í Reykjavík.
Ég las Hreinsun á sínum tíma, þó nægilega seint til að hæpið kringum bókina hefði glætt mér þónokkrar væntingar (og reyndar eftir að hafa séð leikritið, á sænsku). Ég varð ekki alveg jafn hrifin og gagnrýnendurnir, eins og kannski er hætt við þegar verk hefur verið hafið svo til skýjanna. Þetta er um margt merkileg bók og ágætis skáldsaga, efnið mjög áhugavert — og reyndar grunar mig að gagnrýnendum og úthlutunarnefndum hafi einmitt verið það ofarlega í huga; hvað umfjöllunarefnið er góðra gjalda vert. Það er það svo sannarlega — saga Sovét-Eistlands hefur legið í þagnargildi þar til tiltölulega nýlega og Hreinsun var þarft og gott innlegg í þá umræðu (og í sjálfu sér er athyglisvert að leikverkið kom ekki á svið í Eistlandi fyrr en 2010) — en kannski ekki þar með sagt að hún sé alveg stórfenglega framúrskarandi skáldsaga. Mér fannst leikritið líka áhrifameira en skáldsagan.
Nú er ég samt aðallega að hugsa um bók sem ég hef nýlokið við, og fannst mögnuð, en það er fyrsta skáldsaga Oksanen; Kýr Stalíns (2003). Hún kom út á íslensku núna fyrir jólin, einnig í þýðingu Sigurðar Karlssonar.
[Sögustund: Eistar lýstu yfir sjálfstæði frá Rússum 1918 (rétt eins og Finnar nýttu þeir tækifærið í kjölfar byltingarinnar) og unnu sjálfstæðisstríðið gegn Rússum og Þjóðverjum 1920. Sjálfstæðistíminn varði uns Rauði herinn gerði innreið sína 1939 og innrás nasista í Sovétríkin '41 hafði síðan þriggja ára hernám þeirra á Eistlandi í för með sér. Að því loknu var Eistland áfram undir Sovétmönnum, sem viðurkenndu sjálfstæði þeirra 1991, en síðustu herdeildirnar yfirgáfu landið ekki fyrr en '94.]
Í fyrra sat ég námskeið hjá eistneskum gestakennara í háskólanum hér í Turku, þar sem skoðuð voru skrif kvenna frá Eystrasaltslöndunum um eigin reynslu (eða þá reynslu sem eldri kynslóð kvenna hafði miðlað til þeirra) af hernámi, brottflutningum, vinnubúðum og hversdagslífi kommúnismans. Um þetta var að sjálfsögðu hvorki talað né ritað á meðan Sovétríkin stóðu og eftir fall þeirra liðu 10-15 ár áður en opinber umræða fór af stað að ráði — en þá var líka sem flóðgátt hefði brostið; fólk var beinlínis hvatt til að tjá sig og margir brugðust við. Reynsla kvenna á samyrkjubúum og í síberískum vinnubúðum var um margt annars konar en karlanna og einkenndist töluvert af kynbundnu ofbeldi og (yfirleitt árangurslausri) viðleitni til að verja börnin. Ein eistnesku kvennanna sem við lásum texta eftir í námskeiðinu, og sáum einnig heimildamynd eftir, heitir Imbi Paju og það er einmitt hún sem ritstýrði téðu greinasafni ásamt Sofi Oksanen. Safnið kom út á finnsku 2009 og nefnist í lauslegri þýðingu Að baki öllu leyndist ótti: Hvernig Eistland glataði sögu sinni og hvernig hún verður endurheimt. Efnið er Oksanen greinilega hugleikið, en Kýr Stalíns eiga það sammerkt með Hreinsun að saga Sovét-Eistlands er ofin saman við samtímaástand í Finnlandi og Eistlandi með stöðu kvenna í forgrunni og eru kvenpersónur gjarnan fulltrúar fleiri en einnar kynslóðar í sömu fjölskyldu.
Sjálf er Oksanen dóttir finnsks föður og eistneskrar móður og uppalin í Finnlandi, og það er kannski engin stórkostleg furða að útvarpskonu Rásar tvö hafi flogið í hug að inna skáldkonuna eftir því hvort bækurnar hennar væru sjálfsævisögulegar — reyndar er kannski ólíklegt að hún hafi lesið Kýr Stalíns áður en íslenska þýðingin kom út, hvað þá sett þá sögu í samband við bakgrunn höfundar — en aðalpersónan er semsagt finnskur bókmenntafræðinemi sem á eistneska mömmu með verkfræðimenntun; alveg eins og Oksanen sjálf, og á alveg sama aldri. Á hinn bóginn er höfundi auðvitað óhjákvæmilegt að setja eitthvað af sjálfum sér í verk, án þess að það verði beinlínis „sjálfsævisögulegt“ — enda sé um skáldsögu að ræða, ekki sjálfsævisögu — og Oksanen spurði útvarpskonuna einmitt að því hvort hún vissi ekki hvað skáldsaga væri. Það var svosem ekki allur skandallinn, heldur benti hún henni því næst á að sleppa þessu frekar ef hún hefði svona heimskulegar spurningar, sem fréttakonan tók óstinnt upp og spurði hvort hún þyrfti kannski að vera með bókmenntafræðipróf til að mega tala við hana... stormur í glasi af íslensku vatni, og ekki það sem ég ætlaði að skrifa um hér!
En þessu tengt má nefna að um svipað leyti bakaði Oksanen sér nokkra óvild í Finnlandi fyrir að geta þess í erlendum fjölmiðlum, í tengslum við Hreinsun, að í Finnlandi tíðkaðist ofbeldi gegn konum í meira mæli en á hinum Norðurlöndunum. Þetta vita Finnar auðvitað best sjálfir — það má bara ekki tala um það í útlöndum! Oksanen er almennt lítill aðdáandi Finnlands, sjá þessa Youtube-klippu úr viðtali á ensku, undir nafninu Sofi Oksanen — Fjandkona Finnlands. Það kemur þá líklega síst á óvart að hún finni litla samleið með stjórnmálaflokknum Perussuomalaiset, eða Hinum sönnu Finnum* — ef einhver vill hlusta á finnsku, eða bara horfa á Oksanen og Jussi Halla-aho, fasískt þenkjandi finnskan stjórnmálamann, rífast uppi á sviði um innflytjendapólitík, þá er þetta frá bókamessunni í Helsinki 2010. Þar spyr Oksanen viðmælanda sinn m.a. beint út hvort hann hafi upplifað mismunun á finnskum vinnumarkaði sökum þess að vera útlendingur. Svarið segir sig sjálft, og að sama skapi það, að ólíkt Halla-Aho þekkir Oksanen slíka mismunun sjálf — ef ekki frá fyrstu hendi, þá gegnum móður sína, sem hefur líklegast ekki getað notað sovéska verkfræðiprófið sitt mikið í Finnlandi á sjöunda áratugnum, ekki frekar en móðirin í Kúm Stalíns...
- - - - - - - - - - - -
* Ég má til með að minnast hér á finnska myndasögu, sem segir frá því þegar gömlu guðirnir úr Kalevala lenda í nútímanum og hvernig þeir furða sig á Finnlandi í dag. M.a. hittir guðinn Väinämöinen fyrir náunga sem segist vera „sannur Finni“, sem Väinämöinen skilur auðvitað sem svo að viðkomandi sé af Sama-ættum...
3 ummæli:
skemmtileg lesning Erla! og sérstaklega því ég er akkurat að lesa Kýr Stalíns núna.
Geturðu mælt með bókum fyrir mig (sem þýddar hafa verið á ensku) að lesa, jafnvel einhverjar af þeim sögum sem þú fræddist um í umræddum skólatíma í Finnlandi?
Hæ Valgerður, takk fyrir það! :)
Imbi Paju skrifaði bók sem hefur verið þýdd á ensku og heitir Memories denied... fletti henni upp í Gegni og enska þýðingin er ekki þar, en ef þú lest sænsku er Förträngda minnen hinsvegar til á aðalsafni Borgarbókasafnsins.
ok ég skrifa þessa allavega hjá mér næst þegar ég panta af amazon :) takk takk
Skrifa ummæli