6. september 2012

Einar Áskell og refsingin

Síðustu fjóra áratugi hefur reglulega komið út bók um brúnklæddu feðgana, Einar Áskel og hinn góðlega pabba hans. Þeir feðgar hafa líka nokkrum sinnum birst á þessari síðu, til dæmis hér og hér. Á dögunum bættist enn ein við þær tuttugu og fimm sem til voru fyrir og hún kom út samtímis á Íslandi í Svíþjóð. Bókin heitir á íslensku Sá hlær best ...! sagði pabbi og þýðandi er Sigrún Árnadóttir.

Eins og blogglesendur munu væntanlega átta sig á eftir lestur þessa pistils sé ég ekki fyrir mér að þessi bók sé fyrir mjög litla krakka, enda stendur aftan á henni Einar Áskell fyrir stóra krakka, en á heimasíðu sænska forlagsins er mælt með henni fyrir 3-6 ára.

Líkt og oftast á við um Einars Áskels-bækurnar er sögusviðið heimili feðganna. Það er sunnudagur og allir í góðu skapi. Einar Áskell og Milla eru að byggja stjörnustríðsveröld sem gerist á tímum riddaranna og allt á að vera tilbúið þegar frændurnir Birgir og Benni koma í heimsókn. En þegar þeir kumpánar birtast, þeir virðast vera aðeins eldri en Einar og Milla, eru þeir með sitt eigið dót, farsíma og fjarstýrðan torfæru-árásar-jeppa með gripklóm. Þeir hafa nákvæmlega engan áhuga á stjörnustríðsmannvirkjunum  með riddaraþemanu og rústa öllu fyrir Einari og Millu og í kjölfarið brjálast þau og elta Birgi og Benna þannig að húsmunir brotna, hurðir skella og almenn ólæti verða. Pabbi kemur æðandi öskureiður og spyr hver hafi byrjað og þar stendur orð gegn orði líkt og við má búast, en frændaóbermin virðast sannfæra pabba um að Einar og Milla hafi byrjað og pabbi þrumar að þá verði þeim refsað í einrúmi. Þau sjást ganga hnípin inn í herbergi, en strákarnir glotta og velta því fyrir sér hvort þau verði flengd. Birgir og Benni læðast síðan að dyrunum á herberginu þar sem Einar og Milla eru með pabba og tárin renna niður kinnar þeirra síðarnefndu og þau kvíða óréttlátri refsingunni. En þá kemur í ljós að pabbi hefur heyrt allt og séð og er bara að plata Birgi og Benna, enda má ekki berja börn, og síðan segir: „Maður verður bara að nota hausinn. Maður verður að vera sniðugur og leiða óvinabjána á villigötur svo þeir haldi að hér sé heldur betur verið að rassskella ... “ Síðan hvíslar pabbi að Einari og Millu að þykjast skæla á meðan hann klappar saman lófunum.




Þegar þarna var komið sögu fylltist undirrituð gríðarlegri samúð með siðblindu hrokagikkjunum Birgi og Benna, ég ímyndaði mér að þeir væru illilega vanræktir af foreldrum sínum eða eitthvað þaðan af verra og hugsaði með skelfingu til þess ef ég væri barn sem væri statt fyrir utan herbergi með tveimur leikfélögum mínum sem verið væri að rassskella, og það meira að segja fyrir syndir sem ég hefði drýgt. „Þarft þú ekki aðeins að róa þig og endurskoða uppeldisaðferðirnar og fá þér í eina pípu?“ hugsaði ég með tárin í augunum og horfði ásakandi á reiðilegan Einars Áskels-pabbann sem rífur síðan upp hurðina og þrumar: „Sá hlær best sem síðast hlær!“ með þeim afleiðingum að Birgir og Benni detta aftur fyrir sig og Birgir meiðir sig í fætinum og Benni í bakinu. Og auðvitað þurfa þeir að taka út sína refsingu, safna saman dótinu og laga til og Einar og Milla segja þeim að þau hafi ekkert verið rassskellt og bara þóst gráta. Lokasetning bókarinnar hljóðar svo: „Upp frá þessum degi langar frændurna til að líkjast pabba hans Einars Áskels og læra að nota hausinn.“

Sá hlær best ...! sagði Pabbi er með flottari Einars Áskels-bókum. Myndlýsingar, samklipp og teikningar, eru æðislegar og þær ná alltaf jafn vel að lýsa stemningunni. Birgir og Benni eru til dæmis augljóslega alveg óþolandi góðir með sig með farsímann og fjarstýrða torfæruskrímslið. Þó að feðgarnir hafi alltaf búið í svipuðu umhverfi þróast myndefnið stöðugt. Í þessari bók situr pabbinn við tölvu, pípan er enn á sínum stað í byrjun bókar, en ekki sést bjórglasið sem einhvern tíma var innan seilingar og bleikklædd prinsessu-Barbie er komin til sögunnar, ég sé þá dúkku ekki alveg fyrir mér í bókunum sem komu út fyrir um fjörutíu árum.

Það er augljós siðferðisboðskapur í þessari bók og hún býður upp á umræður um að maður eigi ekki að skemma og eyðileggja og að maður eigi að laga til eftir sig og bæta fyrir misgjörðir. En refsingarótti Einars Áskels og Millu og þykjustu-rassskellingin, með vitleysingsræflana Birgi og Benna á nálum fyrir utan, fór dálítið fyrir viðkvæma merarhjartað í mér.

Engin ummæli: