14. september 2012

Má ekki elska þig — ekki láta kápuna glepja þig

Einhverntíman um miðbik sumars barst Druslubókum og doðröntum bókin Má ekki elska þig eftir breska höfundinn Jenny Downham. Einhvernveginn leist okkur frekar illa á gripinn, fannst titilinn hljóma einkennilega væminn, myndin framaná kápunni einhvernveginn einsog verið væri að stæla ítalskar marmarastyttur og ekki bætti úr skák litla auglýsingin á fyrri bók höfundar sem er hringlaga mynd af neðri hluta stúlkulíkama í rauðdoppóttum stuttbuxum – og sjálf bókin heitir Áður en ég dey. Þetta var bara of mikið, engin sýndi bókinni áhuga. Ég ákvað svo á hádegisverðarfundi að nú væri sennilega kominn tími til að bjóða fordómum sínum birginn, taka sig saman í andlitinu og lesa eitthvað sem manni hefði aldrei annars dottið í hug að skoða. Ég hafði séð þessa bók tilsýndar áður, í kassaröðinni í Lyfju eða einhverjum álíka stað og hnussað yfir því að þetta væri nú ábyggilega ljóti ástarvaðallinn. En ég gekk sum sé út af fundinum með bókina í töskunni og fannst ég ansi sniðug að ætla nú að taka á því og komast að því hversvegna bækur á borð við þessa og hina með hræðilega nafninu verða metsölubækur. Ég viðurkenni að ég þurfti að taka smá tilhlaup, bókin var enn ólesin þegar ég fór í sumarfrí seint og um síðir og það var ekki fyrr en undir lok frísins, nánar tiltekið næstsíðasta kvöldið sem hún var tekin upp og lesin. En þá varð líka ekki aftur snúið, ég sem er allt að því sjúklega kvöldsvæf las fram eftir allri nóttu og náði ekki að stoppa fyrr en allt var búið!

Má ekki elska þig er sum sé hreint ekki sú væmna ástarsaga sem ég hafði talið. Hún var alls engin „rauð ástarsaga“ um forboðnar ástir. Hugrenningatengslin sem titillinn og kannski ekki síst kápan vöktu voru sum sé kolröng. Hér má kannski taka fram að á frummálinu, ensku, heitir bókin You Against Me sem vissulega vekur upp aðrar tilfinningar en íslenski titillinn. Hinsvegar má segja að sá titill sé erfiður í þýðingu þannig að þýðanda hafi verið vorkunn og e.t.v. komið með skástu lausn sem í boði er. Bókin er í flesta staði vel þýdd, aðeins á einstaka stað sem mér fannst brenna við að málfar væri aðeins enskuskotið, en aldrei þannig að það væri til vandræða.
Sagan fjallar raunar um „forboðna“ ást þeira Ellíar og Mikey og hvernig þau vinna úr þeim erfiðu aðstæðum sem þeim eru skapaðar. Þó aðstæður þeirra séu afar ólíkar, Ellí kemur úr vel stæðri fjölskyldu þar sem allt er slétt og fellt, á yfirborðinu amk, en Mikey úr lágstéttarfjölskyldu, sonur einstæðrar, drykkfelldrar móður sem hefur afar lítil tök á sinni tilveru og börnin hennar þrjú gjalda fyrir. Downham nær ótrúlega vel að lýsa persónum án þess að dæma þær; persónur eru kynntar til sögunnar og þeim lýst á þeirra eigin forsendum ef svo má segja. Henni tekst að sýna hversu flókin samskipti geta verið og hvernig hlutir eru iðulega ekki í raun einsog þeir virðast vera á yfirborðinu. 
Ég mæli óhikað með Má ekki elska þig. Sagan nær að vera allt í senn, falleg ástarsaga, saga um hin vonlausu stéttbundnu hálfduldu átök sem sífellt virðast eiga sér stað í bresku þjóðfélagi, pæling um samskipti foreldra og barna og ekki síst um kynbundið ofbeldi og það hvernig heilu fjölskyldurnar og hóparnir verða á endanum fórnarlömb í slíkum aðstæðum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Áður en ég dey er virkilega góð líka, um síðustu mánuðina í lífi dauðvona unglingsstúlku, sagðar frá hennar sjónarhorni.
Katla

Nafnlaus sagði...

Ég var ótrúlega hrifin af Áður en ég dey. Hún fjallar um stúlku sem er að deyja úr krabbameini en án þess að gera úr því hetjusögu eða væmna bók. Gert á forsendum stúlkunnar og það sem hana langar til að gera áður en hún deyr... ekki væmnir hlutir um að bjarga heiminum heldur einfaldir hlutir, reykja, sofa hjá o.s.frv¨.

Sif