26. september 2012

Til Gautaborgar með Síberíuhraðlestinni

Rosa Liksom er svo mikill töffari.
Ég á það til að lesa fleiri en eina bók samtímis og jafnvel fleiri en tvær. Þótt bækur staldri auðvitað yfirleitt við í huga lesandans að lestri loknum (eða ættu að minnsta kosti að gera það) og jafnvel öðlist þar varanlegan sess, þá er misdjúpt á slíkri nærveru og hún verður kannski aldrei eins lifandi aftur og meðan á lestrarferlinu stóð. Þá má aftur velta því fyrir sér hver áhrif hálflesnu bókanna á áhrif hver annarrar á lesandann geti verið, og hvort að þræðir og andrúmsloft sumra bóka sem einhverra hluta vegna lesast ekki til enda kunni jafnvel að verða varanlega áleitnari fyrir vikið.

Undanfarið hef ég haft nokkrar í takinu ‒ er enn að lesa Yarden eftir Kristian Lundberg og smásögusafnið Burning Your Boats eftir Angelu Carter ‒ en í morgun sat ég í lestinni á leið hingað til Gautaborgar og lauk þar við finnsku skáldsöguna Hytti nro 6, eða Klefi nr. sex. Hún gerist einmitt um borð í lest, nánar til tekið Síberíuhraðlestinni milli Moskvu og Úlan Bator, þar sem finnsk stúlka deilir klefa með rússneskum, drykkfelldum og hnífglöðum manni í vorbyrjun á síðkvöldi Sovétríkjanna. Gegnum samskipti klefafélaganna dregur höfundur upp áhrifamikla mynd af upplifun hvors þeirra um sig af Rússlandi og af Sovétríkjunum, sem stundum eru eitt og hið sama en stundum jafnólík og mæðgin geta yfirhöfuð verið.

Fyrir tæpu ári síðan var ég á bókamessu í Helsinki og sá viðtal sem Sofi Oksanen tók við Rosu Liksom, höfund Klefa nr. 6, sem kom út um það leyti (ég bloggaði um messuna og viðtalið hér á síðunni). Liksom er einnig væntanleg á bókamessuna í Gautaborg ‒ sem er einmitt ástæðan fyrir veru minni hér ‒ og ég er farin að hlakka til að heyra hana tala meira um bókina, en hún mun m.a. taka þátt í pallborðsumræðum með enskuþýðandanum sínum undir yfirskriftinni Austur og vestur mætast. Ég veit að Sigurður Karlsson þýðandi, sem meðal annars hefur þýtt verk Sofi Oksanen og Tapio Koivukari prýðilega á íslensku, hyggst líka þýða Klefa nr. 6; sennilega má búast við henni á næsta ári. Svo er auðvitað ýmislegt fleira áhugavert í gangi á Gautaborgarmessunni, sem hefst á morgun og stendur yfir helgina, eiginlega of margt til að rekja hér, en m.a. verður Gunilla Bergström í viðtali undir yfirskriftinni Hvem er pappa Åberg? og einnig verða þónokkrir íslenskir höfundar á svæðinu. Ég hlakka til!

Engin ummæli: