9. september 2012

Frásagnarfræði, sálgreining, sjálfsögur og annað skemmtilegt

Í bókahillunni minni er ein fræðibók sem ég hef leitað í aftur og aftur í áranna rás. Bókin er eftir Peter Brooks og heitir Reading for the Plot: Design and Intention in Narrative. Fyrstu kynni mín af henni voru tveir kaflar sem ég las í ljósriti á námskeiði og var svo uppnumin að ég keypti bókina að því loknu. Allar götur síðan hefur hún verið endalaus uppspretta hvers kyns bókmenntaumfjallana og –pælinga.

Reading for the Plot fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um frásagnarfræði. En í stað þess að byggja kenningar sínar aðallega á málvísindum eins og margir fyrirrennarar í þeim efnum leitar Brooks á náðir sálgreiningarinnar. Markmið hans er þó ekki að sálgreina lesendur, höfunda eða persónur heldur nýtir hann sér hugmyndir Freud til að skapa frásagnarfræðimódel sem tekur ekki aðeins á uppbyggingu textans heldur innri öflum hans og samspili við lesandann. Brooks sækir einkum tvennt til Freud. Annars vegar eru það hugmyndir hans um yfirfærslu (transference á ensku) og svo samspil vellíðunarlögmálsins og dauðahvatarinnar. Það síðarnefnda fjallar hann um í sambandi við enda frásagna, hvernig lesandinn þráir að ná endanum, leysa flækjuna og upplifa kyrrðina að því loknu - en að það verði að gerast á réttan hátt. Í hvert sinn sem plottið tekur nýja stefnu, að því er virðist í áttina frá hinum rétta enda er það dauðahvötin sem tekur í taumana og stýrir því aftur á rétta braut. Og vellíðunarlögmálið safnar atburðunum saman í heild, skapar tengingar milli þeirra og sér til þess að þegar hinum rétta endi er loksins náð veiti hann lesandanum mestu mögulegu ánægju. Bæði dauðahvötin og vellíðunarlögmálið stefna í sömu átt, að endanum, en vegna samspils þeirra verður töf á því að takmarkið náist og sú töf er það sem við köllum miðju frásagnar. Hversu skemmtilegt væri til dæmis ævintýrið um Mjallhvíti ef veiðimaðurinn dræpi hana þarna á fyrsta degi í skóginum? Eða ef prinsinn í Öskubusku hefði á endanum gifst annarri stjúpsysturinni? Sennilega ekki mjög. Með því að fjalla um frásagnir út frá Freud og hugmyndum hans um vellíðunarlögmálið og Eros opnar Brooks líka á umræðu um lestur sem nautn og tengir frásagnir þrá, kynlífi, tælingu, hinum forboðna líkama og jafnvel vændi. Það er auðvitað vonlaust að gera þessu öllu nægilega góð skil í stuttum bloggpistli en þið verðið bara að trúa því að þetta er allt mjög áhugavert og kannski umfram allt mjög skemmtilegt – sem verður ekki alltaf sagt um fræðibækur.



Reading for the Plot skiptist í ellefu hluta þar sem sumir kaflanna eru hreinir fræðikaflar þar sem Brooks kafar í skrif Freud en inn á milli þeirra eru kaflar þar sem hann beitir þessum kenningum sem hann er sífellt að móta á ýmsar vel þekktar skáldsögur. Hér kennir ýmissa grasa, einn kafli fjallar til dæmis um Le Rouge et le noir eftir Stendahl og annar um Great Expectations Dickens en Brooks greinir ekki bara plottið og enda þessara frásagna heldur bendir hann á hvernig hvor um sig fjallar beinlínis um þetta efni. Það sama má segja um Heart of Darkness Conrads og Absalom, Absalom! Faulkners sem Brooks notar til að sýna hvernig ýmsar seinni tíma skáldsögur hafa sett spurningnamerki við alræði plottsins og gert tilraun til að útrýma því og klippa á söguþráðinn. En þrátt fyrir að þessar bækur hafni plottinu heldur hugmyndin um það áfram að vera miðlæg í frásögninni. Um leið og þessir greiningarkaflar eru notaðir til að reisa stoðir við frásganrfræðimódel Brooks eru þeir líka hver um sig lítil sjálfsögugreining (metafiction) á bókunum sem um ræðir. Það er því vel hægt að njóta þeirra sem stakra bókmenntaumfjallana en auðvitað er skemmtilegast að lesa þetta allt í samhengi.

Hvað sem öllum Freud og sjálfsögum líður fjallar bókin kannski fyrst og fremst um hvað plottið er yfirgripsmikið hugmyndakerfi sem við setjum svo margt annað en bækur inn í. Algjörlega ómeðvitað viljum við gjarnan að tilveran, okkar eigið líf jafnt sem sögulegir atburðir, lúti því, að atburðir hafi skýrt afmarkað upphaf, miðju og réttan endi. Stundum þurfum við ef til vill að hnika upphafinu aðeins til svo að það falli vel að endanum og stundum stýrum við hlutunum kannski pínulítið þannig að endirinn falli að því formi sem við þekkjum, svo okkur finnist hann vera réttur. Erum við ekki alltaf að tengja atburði saman, skapa heild og reyna í stóru sem smáu að upplifa þessa nautn sem fylgir góðri sögu?

Engin ummæli: