Við fengum þennan gestapistil sendan frá Arngrími Vídalín, doktorsnema í miðaldabókmenntum og sérlegum áhugamanni um skrímsli.
Fyrir margar sakir er áhugavert að greina vörulista IKEA, og ekki síst núna því vörulistinn 2013 er um margt frábrugðinn þeim fyrri. Vanalega hefst listinn til að mynda á eins konar ávarpi verslunarstjóra til hins innbyggða lesanda bæklingsins; hér áður fyrr var jafnan heilskrokksmynd í lit af forstjóra sem annars var svarthvítur og brosti aldrei, en á seinni árum hefur siðurinn verið svarthvít ofanmittismynd af kankvísum verslunarstjóra með hönd undir höku eða krosslagða handleggi; ætíð var nafn þeirra ritað skrifstöfum undir myndinni og lesandinn gat skemmt sér við að geta sér þess til hvort undirskriftin hafi verið mannsins sjálfs eða markaðsdeildarinnar. En nú bregður öðruvísi við: í nýja bæklingnum er ekkert andlit fyrirtækisins fremst, engin vinaleg kveðja til væntanlegra viðskiptavina verslunarinnar, og raunar er hvergi minnst á neina verslun fyrr en í lok bæklingsins. Þess í stað er lesandinn boðinn „VELKOMIN/N Í NÝJA VERÖLD HUGMYNDA,“ og því bætt við að „við viljum gefa þér meira en áður.“ (bls. 3) Lesandinn fyllist hér strax nokkurri óvissu um hvaða ferðalag hann eigi í vændum þar sem ekki er fyllilega ljóst hver „við“ eru né hvort veröld bæklingsins eigi sér raunverulega hliðstæðu í verslun – sú ráðgáta er sem fyrr segir ekki leyst fyrr en í lok verksins og deilir bæklingurinn því að vissu leyti þematískri uppbyggingu með spennusögu. Þetta getur valdið nokkrum óhug hjá óreyndum lesanda, og þessi „nýja veröld“ sem svo er ekkert útskýrð vekur upp hugrenningatengsl við aðvörunina á hliði Vítis í kviðum Dantes: Lasciate ogne speranza, voi ch'entrate – látið af allri von, þið sem gangið hér inn (Dante, bls. 36). Enda kemur fljótt á daginn að ekki er allt sem sýnist í Hugmyndaveröld IKEA.
Á sumum stöðum eru óskiljanlegar fullyrðingar, t.d. „Snjall inngangur auðveldar lífið þegar farið er út um dyrnar“ (IKEA 2013, bls. 46), „Morgnarnir eru hópíþrótt“ (bls. 92), „Bless krakkar, halló herbergi“ (bls. 86) og „Sjálfbærni. Tungubrjótur, en einfalt í framkvæmd“ (bls. 102). En þegar á annarri opnu vörulistans birtist nokkuð aggressíf fullyrðing: „MÝKRI HLIÐIN Á LÍFINU“, og þar fyrir neðan er spurt hvað það sé sem gæðir heimilið lífi. Textinn flýtur á vinstri síðu yfir mynd af alhvítri stofu sem nær yfir alla opnuna, sem sannarlega virðist gera spurninguna enn meira aðkallandi: Hvað er það sem gæðir heimilið lífi? Það er enginn þar. Heimilið er líflaust. Við vitum ekki svarið.
Raunar er bæklingurinn allur í meira lagi passíf-aggressífur. Á einum stað segir: „Ég elska þig en þú lætur mér líða illa“ (bls. 56) og meiraðsegja orðið AFSLÖPPUN (bls. 139) er skrifað með hástöfum. Þetta heldur lesandanum á tánum. Annarsstaðar stendur: „Bólstruð setan eykur hættuna á að samræðunum [í matarboðinu] ljúki aldrei“ og svo er gefið upp verð á stólum (bls. 119). Hér er lesandinn varaður við því að kaupa stóla sem þó eru auglýstir á (tiltölulega) lágu verði, þegar framsetningin undir eðlilegum kringumstæðum væri til þess fallin að hvetja til kaupanna. Því er ekki að heilsa hér og er það undirstrikað með óeðlilega herptum svip konunnar sem situr á ódýnamískari enda gullinsniðsins, svo okkur er ekki beinlínis ætlað að horfa á hana heldur aðeins rétt nema hana meðan við blöðum í gegn; sjálf er konan einsog blanda af þingkonunni Siv Friðleifsdóttur og sænsku leikkonunni Noomi Rapace (Män som hatar kvinnor, Prometheus), svo hún er í senn kunnugleg og ókennileg. Svipur hennar lýsir bæði þrautseigju og þjáningu og lýsing hennar á myndinni sem og litaskema myndarinnar allrar bendir fremur til þess að hún sé ekki á staðnum í raun, heldur að hún sé klippt inn í þessar kringumstæður eigin þjáningar. Hún hefði betur látið ógert að kaupa NILS-stóla með örmum á 18.900,- stk.
Það var fyrst þarna að undirritaður varð þess var að nær enginn af öllu því fólki sem prýðir hina einkennilega stílhreinu Hugmyndaveröld IKEA er í raun á myndunum, heldur hafa flestir ef ekki allir verið klipptir inn í þessa veröld sem okkur hefur verið boðið inn í og of seint er að snúa aftur úr. Sérstaklega er óhugnanleg myndin af fólkinu sem er að fást við mat inni í eldhúsi á opnu á blaðsíðum 112-113, einsog vofur eða skuggamyndir fólks sem eldar í tilgangsleysi í eilífðinni og veit ekki sjálft að það er horfið yfir móðuna miklu, að það er ekkert eldhús. Og bráðum rennur upp fyrir lesandanum að þetta er ekki „saga fyrir svefninn sem endist alla nóttina“ (bls. 60) heldur völundarhús martraða sem hann hefur verið fangaður í, nokkurs konar draugaveröld hinna fordæmdu, og óvíst er hvort hann er óhultur. „Þetta er ekki svefnherbergi. Þetta er foreldralaust svæði“ (bls. 74) er okkur sagt, en hvað er þá orðið um börnin? Hvað hafa „Við“ gert við þau?
Það að fólk hefur ýmist verið fjarlægt eða fært inn á myndirnar eykur talsvert á óraunveruleikatilfinninguna, og inni á milli læðist að lesandanum sá grunur að hann sé að gægjast innst inn í fjórða hring Vítis þar sem hinum hégómlegu og gráðugu er refsað. Þegar Dante spyr Virgilíus í sjöunda þætti Vítis hvort hann þekki nokkra þá sem er refsað þar, svarar Virgilíus svo:
Að geta af sér hið illa og gæta hins illa hefur firrt þá vist í Paradís og dæmt þá til svona ryskinga. Hvað þetta er, þurfa orð mín ekki að fegra. Þú getur séð, sonur minn, hve skammvinnan hégóma Fortúna gerir úr þeim gæðum sem við treystum henni fyrir, og mannkynið sækist eftir og berst fyrir; því allt það gull sem er, eða hefur verið undir tunglinu, gæti aldrei friðað eina af þessum útslitnu sálum (Dante, bls. 53-4).Og þetta er sú tilfinning sem hellist yfir lesandann við lesturinn, að fólkið á myndunum sé heillum horfið og að bæklingur IKEA 2013 sé honum víti til varnaðar. Hann fær í sífellu misvísandi skilaboð, Farðu grófu leiðina (IKEA 2013, bls. 242) eða Farðu afslöppuðu leiðina (bls. 243), en sama hversu þessa heims verðmætum er hlaðið upp á myndunum verður ógnarveröld IKEA aldrei aðlaðandi, hún glepur ekki nema þá er mest hafa við græðginnar daður kúrt og sorfið þannig að siðferðisbjargi hjarta síns. Á mynd af furulagðri herbergiskytru kann að standa NÝTT við annan hvern hlut, en helvítisvistin er ætíð sú sama, og sá er fyrst og fremst boðskapur ritsins einsog hann horfir við hinum gagnrýna lesanda.
Aldrei fyrr hefur vörulisti IKEA kafað svo djúpt í þá dystópísku veraldarsýn sem hönnuðum hans er annars svo töm, og aldrei jafn gjörla hefur lesandinn áttað sig á tvíbentum boðskapnum, og staldrað við. Vörulistinn IKEA 2013 er sá metnaðarfyllsti hingað til og það er ekki þrátt fyrir að verslunarstjóra vanti til að leiða lesandann gegnum fjórða hring Vítis einsog Virgilíus forðum, heldur vegna þess að hann er ekki til staðar. Upplifunin verður fyrir vikið óbeislaðri, ógnvænlegri, en fyrst og fremst raunverulegri. Ég mæli hiklaust með þessu verki, og ef það væri ekki nú þegar til á öllum heimilum þá þyrfti snarlega að bæta úr því. IKEA 2013 má auk þess finna sem ókeypis rafbók á vefnum.
ARNGRÍMUR VÍDALÍN
Rit sem stuðst var við:
Dante Alighieri. Gleðileikurinn guðdómlegi. Erlingur E. Halldórsson þýddi og ritaði formála. Mál og menning. Reykjavík 2010.
IKEA 2013 (útgefandi og útgáfustaður ekki nefndir). 2013.
1 ummæli:
Hér í Svíþjóð hefur Ikea bæklingurinn 2013 verið til umfjöllunar í hverjum einasta fréttatíma undanfarna daga eftir að það kom í ljós að allar konur höfðu horfið úr Saudi-Arabísku útgáfu hans með einhverjum dularfullum hætti. Þessi pistill setur það mál í nýtt og sérlega spennandi samhengi.
Skrifa ummæli