5. september 2012

Rithöfundar eru tvíhöfða skepnur

Í sænskum dagblöðum í dag kemur fram að nýjasta bók Kerstin Ekman, Grand final i skojarbranschen, sem kom lítillega við sögu hér, verði fljótlega kvikmynduð. Í sænskum dagblöðum  gærdagsins kom fram að bók Åsu Linderborg, sem kom við sögu hér og hér, verði kvikmynduð á næstunni með Mikael Persbrandt í aðahlutverki. Um daginn frétti ég svo af því að í Svíþjóð sé nú verið að setja upp leikrit eftir bókinni Yarden, sem sem hefur komið hér við sögu og að tónlistin í verkinu verði eftir Sigur Rós. Þetta er svona upphafsútúrdúr til að koma því að hvað við Guðrún Lára erum seigar við að fjalla um funheitt, sænskt efni hér á síðunni.

Efni þessarar færslu er hins vegar Grand final í skojarbranschen eftir Kerstin Ekman. Bókina lauk ég við í gær eftir að hafa eytt töluvert löngum tíma í lesturinn. Það er frekar óvenjulegt að ég sé lengi að lesa bækur, yfirleitt eyði ég ekki tveimur vikum í að lesa eina bók en Grand final i skojarbranschen er löng og ekki fljótlesin. Hún er hins vegar sérlega safarík og með betri bókum sem ég hef lengi komist í. Þessi nýjasta bók Kerstin Ekman kom út á sænsku í fyrra en ég keypti hana í Góða hirðinum í sumar, greinilega ólesna, og kann þeim sem nennti ekki að lesa hana kærar þakkir fyrir að hafa sent hana í nytjagám í Sorpu.

Eins og Guðrún Lára minntist á þegar Tuula Sariola og leigupenninn Ritva voru til umfjöllunar þá minnir bók Kerstin Ekman á þeirra sögu en hún er þó alls ekki byggð á henni, enda byrjaði Kerstin Ekman að skrifa bókina löngu áður en saga Tuulu Sariola varð opinber. Grand final i skojarbranschen er sjálfsævisöguleg skáldsaga og segja má að hún fjalli um bókmenntaheiminn sem höfundurinn hefur lifað í síðustu sex áratugina. Kerstin Ekman er fædd 1933, menntuð við Uppsalaháskóla og starfaði í kvikmyndabransanum og sem lýðháskólakennari áður en hún gerðist rithöfundur. Ferilinn hóf hún á glæpasögum og þótti endurnýja formið. Árið 1978 var hún valin í Sænsku Akademíuna en hætti að mæta þegar henni þótti samverkamenn sínir þar ekki standa við bakið á Salman Rushdie árið 1989. Því er stóllinn hennar í Akademíunni auður, það er víst ekki hægt að hætta. Wikipedia segir Kerstin Ekman hafa fengið hátt í þrjátíu verðlaun fyrir bækur sínar en eftir hana hafa verið þýddar þrjár bækur á íslensku eftir því sem ég best veit.



Kerstin Ekman þegar hún var kvikmyndagerðarkona
Önnur aðalpersóna Grand final i skojarbranschen heitir Lillemor Troj, en Lillemor er millinafn Kerstin Ekman sem hét einu sinni Hjorth að eftirnafni. Hin aðalpersónan er Barbro, kölluð Babba, Andersson og þær eru báðar nemendur í bókmenntasögu í Uppsölum á sjötta áratug síðustu aldar. Lillemor er úr yfirstéttarfjölskyldu, sæt og fín og alltaf vel tilhöfð en Babba er búttuð, ófríð, kaldhæðin, peysutýpa úr verkamannastétt, sem hefur ekki nokkurn áhuga á glamúr og opinberu lífi. Upphaf þess að Babba gerist leigupenni Lillemor er smásagnasamkeppni í tengslum við lúsíuhátíð. Babba sannfærir Lillemor um að fá að nota hana sem höfundarnafn því sú síðarnefnda er lúsían holdi klædd, grönn og með ljóst liðað hár. Sagan vinnur verðlaunin og Lillemor tekur við peningaverðlaunum sem þær skipta jafnt. Síðan líða áratugir og Babba skrifar skáldsögu eftir skáldsögu sem Lillemor hreinritar og ritstýrir dálítið og setur nafn sitt á. Hún fær verðlaun og viðurkenningar fyrir bækur sínar, verður opinber persóna, er í stöðugum samskiptum við lesendur, fer í allskonar fín boð, les upp á bókamessum og hátíðum, hún er valin í Sænsku akademíuna og situr í sjónvarpssófanum hjá Skavlan. Babba lifir allt öðruvísi lífi. Hún nýtur þess að vappa um í flíspeysu á gúmmístígvélum, éta kaldar pylsur, eyða helmingnum af peningunum sem þær þéna í það sem hana langar í, hún fær sér feitan og kafloðinn elskhuga sem er þjóðlagamúsíkant og er almennt blessunarlega laus við allskonar stúss og flandur sem tengist því að vera frægur rithöfundur. Svona gengur þetta í áratugi þar til útgefanda Lillemor berst handrit að bók þar sem Lillemor er aðalpersónan. Skyndilega er allt leikritið afhjúpað og ljóst er að Lillemor er alls ekki sú fullkomna manneskja sem hún hefur áratugum saman gefið sig út fyrir að vera. Fyrir utan að hún getur ekkert skrifað þá hefur einkalífið verið óttalega ömurlegt. Fyrsti maðurinn hennar smitaði hana af kynsjúkdómi og hún varð ófrjó, hún giftist svo háskólaborgara í pólitík sem er lydda sem á son sem er límsniffari, mamma hennar er snobbuð fyllibytta og ýmislegt annað ekki jafn slétt og fellt og hún hefur látið í veðri vaka í fjölmiðlum. Æviferill Lillemor eins og honum er lýst í Grand final i skojarbranschen er yfirborðslega mjög líkur ævi Kerstin Ekman. Hún byrjaði sem glæpasagnahöfundur, vann við kvikmyndir og sem kennari, gifti sig og skildi, varð virtur höfundur og var sjanghæuð inn í Sænsku akademíuna.

Kerstin Ekman með Peter Stormare við tökur á bíómynd 
Lillemor er tragísk persóna, hún hefur mikinn metnað fyrir yfirborðsmennskunni en er alltaf í vandræðum í einkalífinu. Hún er líka með áhyggjur af öllu svindlinu en Babba sannfærir hana stöðugt um að þetta sé allt í lagi. Það er nefnilega ekki þannig að Lillemor sé afæta á Böbbu, þær þurfa hvor aðra. Babba getur ekki hugsað sér að vera fræg, hún líkir sjálfri sér við maðk sem vill smjúga undir yfirborðinu. Þegar Lillemor er valin í Akademíuna og veltir því fyrir sér að afþakka segir Babba henni að það sé algjör óþarfi, henni hafi bara verið boðið þangað vegna þess að nú þurfi karlveldið að hressa upp á ímyndina og hún sé valin vegna þess að hún er pen og stillt, háskólamenntuð kona sem kemur vel fyrir og engin hætta sé á að fari að rugga einhverjum bátum á rúmsjó karlveldisins. Lillemor sættist á þetta og situr í rókókóstól í Bruno Magli-skóm og silkikjól með körlunum í Akademíunni en það fer þó hrollur um hana þegar hún áttar sig á því að það velti beinlínis á hennar atkvæði hver fái Nóbelsverðlaunin í bókmenntum eitt árið.

Grand final i skojarbranschen er full af kaldhæðnislegum athugasemdum Böbbu um bókabransann, um Lillemor sem þráir ekkert meira en viðurkenningu samfélagsins, um gagnrýnendur og margt annað sem tengist bókmenntum og samtíma. Inni í stóru sögunni eru síðan margar fyndnar sögur. Ein þeirra fjallar um þegar Babba opnar fornbókaverslun þegar hún lendir í vandræðum með skattinn og verður að gefa upp einhverjar tekjur. Hún getur auðvitað ekki gefið upp helminginn af launum Lillemor sem sín laun. Hún nennir ekki að reka þessa bókabúð og gerir hana að netverslun en þá eykst bara bissnessinn svo Babba lætur prenta viðvörunarmiða sem hún límir á bækurnar sem hún selur. Hugmyndina fær hún af viðvörunarorðum á vínflöskum. Á miðunum stendur til dæmis: Bókmenntir hafa áhrif á heilastarfsemina og draga úr frjósemi - Bókmenntir eru orsök flestra sjálfsmorða í okkar landi - Bókaryk orsakar banvænt lungnakrabbamein - Lesið ekki upphátt fyrir börn. Það veldur heyrnarskemmdum - Lestur er mjög vanabindandi. Byrjið aldrei að lesa.

Grand final i skojarbranschen er til í bókasafninu í Norræna húsinu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Oh hvað ég vildi að ég gæti lesið þessa bók! Hún hljómar svo skemmtileg og áhugaverð. (Sænskan er ekki tungumál sem heilinn á mér vill meðtaka)

Þórdís Gísladóttir sagði...

Þessi bók kom út á dönsku fyrir nokkrum dögum, hentar það tungumál betur?