13. september 2012

Muriel Spark leiðréttir nokkrar rangfærslur

Lesendur kannast sennilega einhverjir við átakið „Að lesa bækur sem hafa verið lengi ólesnar í hillunum“. Ég endist oftast ekki mjög lengi í slíku átaki því um leið og ég er búin með fyrstu ólesnu bókina grípur einhver önnur bók athygli mína á bókasafni eða í bloggfærslu eða bara í hillunum hjá einhverjum öðrum. Ég byrjaði í svona átaki núna í september og náði að ljúka einni bók úr eigin hillum. Þessi bók var valin af algjöru handahófi, enda sjálfsævisaga rithöfundar sem ég hafði aldrei lesið neitt eftir áður, hinnar skosku Muriel Spark (1918-2006). Hún er þekktust fyrir skáldsöguna The Prime of Miss Jean Brodie, en eftir henni hefur verið gerð kvikmynd með Maggie Smith í aðalhlutverki.

Bókin, sem heitir því frekar tilþrifalitla nafni Curriculum Vitae, fjallar um fyrri hluta ævi Spark og lýkur um það bil sem hún er að byrja að gefa út bækur og geta sér nafn sem rithöfundur. Fram að því drífur ýmislegt á daga hennar. Hún ólst upp í Edinborg upp úr fyrra stríði, giftist kornung og flutti með manni sínum til Zimbabwe eða Rhódesíu eins og það hét þá (þar sem hún bjó skammt frá Doris Lessing, þótt þær kynntust ekki þá) og eignaðist son. Eiginmaður hennar reyndist veikur á geði og ofbeldishneigður svo hún fór frá honum og flutti aftur til Englands um það leyti sem seinni heimsstyrjöldin hófst, kom syni sínum fyrir hjá foreldrum sínum í Edinborg en vann sjálf fyrir sér við fjölbreytt störf í London. Hún skrifaði í fagtímarit um skartgripi, starfaði fyrir dularfulla áróðursskrifstofu sem hélt úti falskri þýskri útvarpsstöð með aðstoð flóttamanna, og var miðpunkturinn í dramatískum listrænum ágreiningi um módernisma sem ritstjóri ljóðatímaritsins Poetry Review og var loks rekin úr því starfi. Bókinni lýkur um 1960 en þá er Spark orðin rithöfundur í fullu starfi.

Spark með Robin syni sínum, áður en hann gerðist
gyðingur og vondur myndlistarmaður.
Auk þess sem kemur fram í sjálfsævisögunni var víst ýmislegt annað frásagnarvert í lífi Spark, til dæmis hatrammar og opinberar deilur hennar við son sinn. Spark gerðist kaþólsk en sonur hennar gerðist gyðingur og það olli miklum átökum milli þeirra. Hann er líka myndlistarmaður og einhvers staðar sá ég að hún lýsti því opinberlega yfir að henni þætti ekki heiðarlegt að liggja á þeirri skoðun sinni að hann væri frekar ómerkilegur sem slíkur. Lái honum hver sem vill að hafa sagt „átsj, mamma“.

Stíllinn á bókinni er viðkunnanlega sjálfsöruggur, blátt áfram og næstum því kæruleysislegur. Maður veltir því eiginlega fyrir sér við lesturinn af hverju í ósköpunum Spark hafi tekið upp á því að skrifa ævisögu; það er eins og hún hafi ekki sérlega mikinn áhuga á því. Það er augljóst að hana langar ekkert að nudda ókunnugu fólki upp úr sínum prívatmálum, né heldur virðist hún nenna að ræða til lengdar hvötina bak við höfundarferilinn eða listræna sannfæringu sína. Hún fer hratt yfir sögu og kafar sjaldnast dýpra í hlutina – í minningargrein um Spark á Guardian er sjálfsævisagan kölluð purse-lipped, enda er hún ekki nema 224 blaðsíður með frekar stóru letri þótt hún fjalli um fjörutíu ára tímabil. Síðari hluti ævi hennar hefði auðveldlega komist fyrir í sömu bók.

Það er helst að það lifni svolítið yfir frásögninni þegar kemur að deilunum kringum Poetry Review, og þá kemur líka fram möguleg ástæða fyrir ævisöguskrifunum. Nokkrum sinnum í bókinni minnist Spark í hálfgerðum véfréttarstíl á mikilvægi þess að leiðrétta rangfærslur, það sé illt að þeir sem hafi áhuga á að rannsaka skrif hennar og líf hafi ekki réttar upplýsingar í höndunum en verði að reiða sig á óáreiðanlegar heimildir – án þess að útskýra það frekar. Yfirleitt eru þetta smáatriði sem hún tiltekur. En um það leyti sem Spark verður ritstjóri Poetry Review kemur til sögunnar Derek nokkur Stanford, sem var kærastinn hennar og samstarfsmaður á tímabili en hlýtur hér mjög neikvæð eftirmæli. Spark upplýsir í þessum kafla að Stanford hafi síðar, eftir að slitnað hafði upp úr vináttu þeirra, skrifað um hana persónulega ævisögu sem sé uppfull af villum og röngum staðhæfingum. Hún fer ekki í nein smáatriði frekar en fyrri daginn en það er greinileg undirliggjandi spenna og hálfkveðnar vísur í textanum sem ókunnugur lesandi hefur takmarkaðar forsendur til að átta sig á. Síðan er aðalsöguhetjan skyndilega hætt á Poetry Review, búin að fá taugaáfall sem afgreitt er á einni síðu eða svo og gefa út sína fyrstu skáldsögu – og þar með er ævisögunni  lokið. Spark er búin að koma frá sér leiðréttingum á nokkrum smáatriðum og draga rækilega úr trúverðugleika Derek Stanford og maður hefur á tilfinningunni að þar með sé raunverulegum tilgangi bókarinnar náð. Hún skrifaði heldur aldrei annað bindi ævisögunnar, þótt það fyrra kæmi út fimmtán árum áður en hún dó.

Skáldsögur Spark byggja víst margar á sjálfsævisögulegum atriðum og ég held það hljóti að vera meira gefandi að lesa þær en Curriculum Vitae. Sérstaklega er ég forvitin um það sem í fyrrnefndri minningargrein er kallað her militantly anti-humanist fictional aesthetic. Það hlýtur að vera eitthvað í því.

Engin ummæli: