30. nóvember 2010

Dagur kvenna sem hata karla.

Ég vil byrja á því að taka það fram að mér finnst Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir og Megas mjög töff og skemmtilegt fólk (nú verður þetta örugglega notað sem kvót til að auglýsa bókina).

Nú ætla ég að bókablogga aðeins um Dag kvennanna - ástarsögu, átján ára nóvellu sem var að koma út í fyrsta sinn núna, „eftir að kynjastríðið [hefur komið] konum á toppinn“, eins og segir á kápu bókarinnar. Atburðarás bókarinnar á sér stað á Kvennafrídeginum 24. október 1975. Clint Eastwood look alike-ið Dagur „Himinrjóður“ og næturdrottningin Máney eru aðalsögupersónur, auk þeirra tuttugu þúsund kvenmanna sem „skjóta rótum“ á Lækjartorgi svo miðbærinn verður gegnsýrður af karlfjandsamlegri nærveru þeirra. Kvenréttindakerlingarnar ógna kynverund og kyngervi blíðra kvenna og vaskra karla. Limir karlmanna lyppast niður og hanga ónýtir (ef þeir hverfa þá ekki bara) og fallegar konur þurfa að gæta sín – hinir illu feministar vilja í afbrýðisemi sinni setja þær í afkynjandi föt og svipta þær skarti og ástmönnum. Dagur kvennanna er öskubuskusaga – nema í þessari sögu á Öskubuska ekki tvær afbrýðisamar stjúpsystur, heldur tuttugu þúsund. Kvenréttindabaráttu og greddu/fegurð/(öllu sem mér finnst skemmtilegt) er ítrekað stillt upp sem andstæðum í fyrsta kafla bókarinnar. Það breytist ekki, maður þarf að sætta sig við það. Ég var ekki einu sinni að lesa á milli línanna – ég las það sem stendur í bókinni. Svo leitaði ég í örvæntingu á milli línanna að einhverju sem gæfi til kynna að um kaldhæðni væri að ræða, en ég fann ekkert. Semsagt, ef maður vill halda áfram að lesa þessa stuttu bók eftir fyrsta kaflann, þarf maður að anda djúpt og taka því að kvenréttindabaráttukonurnar eru ljótar, herptar, afbrýðisamar, kynkaldar og valdagráðugar leiðindaskjóður. Það kemur því í rauninni ekkert á óvart að að gefið sé í skyn á kápu bókarinnar að jafnréttisbaráttunni sé lokið og að hún hafi ekki snúist um að ná raunverulegu jafnrétti, heldur um að koma „konum á toppinn“.

Ég varð hrifnari af bókinni eftir því sem leið á frásögnina og hún varð kynlífsmiðaðri (hey, ég er ekki gerð úr steini) og mér fannst mjög gaman að njóta óhefðbundinnar ástarsögu Himinrjóðs og Máneyjar. Stuttur kafli sem lýsir misheppnuðum mökum erkigrybbunnar (forystufeministans) og fórnarlambs hennar er líka svo dónalegur og fyndinn að maður þarf eiginlega að lesa hann upphátt fyrir alla vini sína. Það er mikill húmor í bókinni; rúnkari leitar hælis á Kleppi sem erótískur flóttamaður. Feministarnir á Hótel Borg stofna kvennatímaritið Láttu mig vera (væntanlega vísun í blaðið Vera: tímarit um konur og kvenfrelsi). Það er enginn tepruskapur í frásögninni og er það mér mjög að skapi. Ég skil samt ekki hvers vegna bókin kom ekki bara út fyrir átján árum – hugmyndirnar í henni hafa allavega ekkert orðið ferskari eða beittari síðan þá. Í dag er þetta eiginlega bara frekar banalt. Persónur bókarinnar eru stereótýpur sem birtast í sífellu í (mogga)bloggum misgáfaðra landsmanna og öllum umræðum um feminisma. Við höfum Himinrjóð, sem skilur ekki af hverju konurnar á torginu ásaka hann fyrir það eitt að vera karlmaður: „ásökuðu HANN fyrir eðli kynjanna. Ásökuðu HANN fyrir árþúsunda hefð, í lognu umboði, ásökuðu HANN fyrir það sem náttúran hefur krafist að karlar og konur gerðu til að uppfylla jörðina mönnum og halda tilraun hennar gangandi.“ Máney skilur ekki af hverju hún má ekki bara vera falleg og kvenleg. Og feministarnir eru bitrar kellingar sem enginn elskar, sem neita að samþykkja eðli kynjanna og eru afkynjandi, geldandi afl.

Þetta er í rauninni mjög áhugavert samansafn af stereótýpum sem við þyrftum að setjast niður að ræða yfir nokkrum bjórum. Svo getum við athugað hverjar okkar eru með lengstu handarkikahárin.



Guðrún Elsa

5 ummæli:

Erla sagði...

Hahaha, góð færsla. Ég er geim í hárameting yfir jólabjór.

Þórdís sagði...

Ég er líka að safna. Einhvernveginn er ég samt ekki viss um að ég lesi þessa bók.

Sigfríður sagði...

Skemmtilegt bókablogg. En vá hvað ég á ekki eftir að nenna að lesa þessa bók. Get ekki ímyndað mér að misgáfaðir moggabloggarar nenni því heldur, eða sellur útúr feministahatarafélögum, þannig að sennilegast nær þetta ekki eyrum neinna, og þó hvað veit maður.

Þórdís sagði...

Þú hefðir nú örugglega gaman að þessari bók Sigfríður mín!

Guðrún Elsa sagði...

Hvað er þetta! Auðvitað lesið þið bókina! Ég er bara að segja, við þurfum að setjast niður og ræða þetta.