10. nóvember 2011

Suðandi friðarsinnar

Flugan sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin nú í ár. Í henni segir frá nokkrum húsflugum, þeim Kolkexi, Flugunni og Hermanni Súkker, sem ákveða að flýja heimili sitt eftir að fólkið sem þar býr fjárfestir í sérlega öflugum flugnaspaða gegnum Sjónvarpsmarkaðinn. Þær frétta af einstaklega fluguvænum munkum í Nepal og koma sér áleiðis þangað með flugvél. Þær þurfa að millilenda í borginni Assambad þar sem þær kynnast flugunum Rel og Fító, en þær eru búsettar á veitingastaðnum Grilluðu kjöti. Í Assambad ríkir stríð og flugurnar skilja ekkert í þeirri heimsku mannanna að standa í slíku. Eftir rútuferð og stutta dvöl í munkaklaustrinu í Nepal ákveða Flugan, Kolkex og Fító að snúa aftur til Assambad með áætlun um að stöðva stríðið. Þótt ýmis ljón séu í veginum tekst þeim ætlunarverk sitt.

Bókin er mjög skemmtilega skrifuð og á góðu og lipru máli. Bryndísi tekst að fjalla um háalvarlegt efni, stríð, og koma friðarboðskap til skila án þess að nota neinn predikunartón. Stundum eru barnabækur með boðskap nefnilega eins og áróðursbæklingar frá einhverjum einvaldinum en Flugan sem stöðvaði stríðið er alls ekki þannig heldur notast við ímyndunarafl og húmor á skemmtilegan hátt. Það kemur vel út að segja söguna alveg frá sjónarhóli fluganna. Þó að nokkrar mannverur komi við sögu þá eru þær í aukahlutverkum, það eru hugmyndir og reynsla fluganna sem gilda. Flugurnar verða ljóslifandi persónur og það kemur skemmtilega út að kyn þeirra skuli vera tvírætt. Það er eins og það skipti ekki máli hvort persónufornafnið „hún“ eða „hann“ eru notuð til að vísa til þeirra þótt einhverjar þeirra heiti nöfnum sem við mannfólkið tengjum frekar við annað kynið en hitt. Bókin er fallega myndskreytt af Þórarni M. Baldurssyni með einfaldri teikningu við upphaf hvers kafla.


Ég las bókina sem kvöldsögu fyrir Iðunni Soffíu Agnadóttur, nemanda í 2. bekk í Hlíðaskóla. Við mæðgur vorum báðar spenntar að halda lestrinum áfram og fylgjast með framvindu söguþráðarins. Iðunn var svo væn að veita Druslubókum og doðröntum einkaviðtal um reynslu sína af bókinni.

Druslubækur og doðrantar: Hvernig fannst þér bókin?
Iðunn: Bara góð. Skemmtileg.
D&D: Hvað fannst þér skemmtilegt í henni?
ISA: Bara allt.
D&D: Var ekkert sorglegt?
ISA: Jú, þegar flugan dó. Og líka stríðið.
D&D: Hvað heldurðu að flugur tali um þegar þær suða?
ISA: Ég veit ekki. Bara eitthvað, eins og „eigum við að fara þangað?“ eða „eigum við að fara á Grillað kjöt?“
D&D: Voru flugurnar í sögunni stelpur eða strákar?
ISA: Ég veit ekki alveg.
D&D: Finnst þér að fólk eigi að vera gott við flugur?
ISA: Já. En kannski ekki alveg þannig að það sé að gefa þeim að borða. En ekki að slá þær eða svoleiðis.
D&D: Heldurðu að flugur geti í alvörunni stöðvað stríð?
ISA: Nei, ég held ekki.
D&D: Heldurðu að þær hugsi um stríð?
ISA: Kannski, svona stundum. Örugglega einhver fluga.
D&D: Heldurðu að það sé hægt að stöðva stríð?
ISA: Nei, nema kannski foringinn sjálfur.
D&D: Mælirðu með þessari bók fyrir aðra krakka á þínum aldri?
ISA: Já. Og hún getur líka alveg verið fyrir fullorðna.

1 ummæli:

Garún sagði...

Skemmtilegt viðtal Iðunn Soffía! Nú langar mig að lesa bókina. Kannski ég fái hana lánaða við tækifæri ;-)