 |
Uppáhaldskápumyndin okkar. |
Eins og glöggir lesendur bókasíðunnar hafa tekið eftir vorum við Kristín Svava og Guðrún Elsa á ferðalagi fyrir skömmu. Guðrún Elsa hafði með sér í þessa för eftirlætisferðabókina sína; ekki í þeim skilningi að bókin fjalli um ferðalög, heldur er svo gaman að lesa upp úr henni á ferðalögum og spjalla um hana við ferðafélagana. Jú, þið hafið eflaust áttað ykkur á um hvaða bók ræðir: það er einmitt bókin
Íslenskir elskhugar frá 1985 eftir blaðamanninn Jóhönnu Sveinsdóttur. Þessa bók fékk Guðrún í afmælisgjöf frá annarri druslubókadömu, Þórdísi Gísladóttur, og kann henni miklar þakkir fyrir. Við ákváðum að nota tækifærið fyrst við höfðum báðar farið svo vandlega í gegnum bókina (hún var sannarlega okkar bókasafn á gististöðum) og blogga svolítið um hana.
K.Svava: Um daginn bárust fréttir af blaðakonu sem hygðist safna kynlífsfantasíum nafnlausra íslenskra kvenna og gefa út á bók, og okkur varð báðum hugsað til
Íslenskra elskhuga þegar við lásum þessar fréttir. En þrátt fyrir titilinn einblínir Jóhanna Sveinsdóttir í
Íslenskum elskhugum ekki bara á kynlíf karlanna átján sem hún tekur viðtöl við, heldur spyr hún þá út í líf þeirra almennt, tilfinningar og mannleg samskipti. Það góða við bókina er kannski einmitt að hún setur ástalíf karlanna í samhengi við líf þeirra og viðhorf, eitthvað sem gæti líka gert bók um fantasíur áhugaverða – hver eru tengsl fantasíunnar og raunveruleikans?
G.Elsa: Já, þetta viðtalsform er svo ágætt vegna þess að Jóhanna leggur sig fram um að tengja saman og spyrja frekar, fá karlana til að skýra betur afstöðu sína eða tilfinningar. Hún er greinilega í hlutverki blaðamannsins; þótt maður verði sjálfur stundum pirraður út í karlana fyrir viðhorf þeirra er hún alltaf mjög sanngjörn og dæmir þá ekki. Svo er líka skemmtilegt að hún spyr þá alltaf út í áhrif jafnréttisbaráttunnar á þá og tengir þannig upplifanir þeirra af sjálfum sér og öðrum við hugmyndir um kynhlutverk. Flestir lýsa þeir sig jákvæða í garð kvenréttindabaráttunnar en oft kemur ýmislegt mótsagnakennt fram í máli þeirra og ýmis íhaldssöm viðhorf til kynjanna. Svo finnst mér ógeðslega fyndið þegar einhverjir tala aðallega um það hvað kvenréttindakonur séu góðar í rúminu, eins og það sé það besta við þær.