23. nóvember 2011

Erum við dæmd til að endurtaka mistök forfeðranna: Fensmarkshneykslið og íslenska leiðin

Undanfariðhef ég verið að glugga í bækur, sem svona við fyrstu sýn að minnsta kosti virðast alls ekki vera við mitt hæfi. En hér er um að ræða bækurnar “Íslenskir sagnaþættir”  þar sem Gunnar S. Þorleifsson safnar saman frásögnum, misgömlum og um ýmis efni þó sögur af fólki og búskaparháttum séu kannski meginuppistaðan. Bókaútgáfan Hildur gaf þessi rit svo út á níunda áratug síðustu aldar.
Eins og gengur þá er þetta misáhugavert, en ansi margt samt virkilega grípandi og jafnvel bara spennandi. Mér fannst t.d. virkilega áhugaverð frásögn sem kallast “Síðasti Geirfuglinn: 140 ár frá því síðasti Geirfuglinn var drepinn.” Þar verður ljóslifandi hugsunarleysið og græðgin sem við sem þjóð höfum svosem ekki komist útúr ennþá – Geirfuglinn er næstum horfinn, aðal heimkynni hans við Ísland sokkin í sæ en engu að síður finna menn sig knúna til að króa af og drepa þessi tvö eintök sem eftir voru og taka  síðasta eggið.
Þá eru minningar Önnu Thorlacius frá æskuárum sínum ansi skemmtileg lesning. Anna skrifar frásögnina árið 1914 fyrir tímaritið Eimreiðina og tekur fram í lok hennar að hún væri alveg tilbúin til að fræða lesendur blaðsins meira um lífið í lok átjándu aldarinnar ef áhugi væri fyrir hendi. Ég vil ekki segja að Anna sé með eitthvað “heimsósóma” þema í pistlinum sínum, eða fari algjörlega inní “heimur versnandi fer” hugarfarið en það er samt ansi skemmtilegt að lesa pistil frá 1914 þar sem verið er, þó á penan hátt sé, að brigsla fólki um eyðslusemi bæði hvað varðar peninga, mat og tíma. Hún nefnir samt ýmislegt sem er á betri veg árið 1914 en þegar hún var að alast upp og þá sérstaklega atriði sem snúa að hreinlæti, bæði persónulegu og í híbýlum fólks.
Það sem virkilega vakti mig til umhugsunar var greinin “Fensmarkshneykslið” eftir Bárð Jakobsson. Hún fannst mér hreint ótrúleg lesning og er í raun alveg hissa á að hafa ekki heyrt neitt um það mál í kjölfar efnahagshrunsins og umfjöllunar um þá vægast sagt undarlegu fjármálagjörninga og klíkuskap sem einkenndu gróðæristímabilið.
Í stuttu máli þá var Carl Ernest Alexander Fensmark danskur lögfræðingur sem veitt var sýslu- og bæjarfógetaembætti á Ísafirði árið 1879. Embættisveitingin (en um var að ræða eitt tekjumesta embætti á Íslandi) ku hafa komið nokkuð á óvart en samt ekki, því þess voru víst mörg dæmi að “vanmetagemsar eðalbornir” væru settir í góð embætti á Íslandi af dönskum ráðamönnum. Fensmark hafði sum sé aldrei gegnt embætti og vissi lítið sem ekkert um sýslumannsstörf, var ókunngur á Íslandi og þótti þar að auki ekki sérlega sköruglegur. Skemmst er frá því að segja að óreiða var á embættisrekstri hans á Ísafirði og voru fjármálin þar ekki undanskilin. Ekki var gengið hart fram í því að krefja Fensmark svara um embættisverk sín eða fjárreiður þrátt fyrir að Bergur Thorberg amtmaður færi fram á skilagreinar. Allskyns ruglingur varð úr málinu, Fensmark var kyrrsettur á Íslandi, strauk til Kaupmannahafnar, var fangaður þar og fluttur til Íslands. Skúli Thoroddsen, sem rannsakaði málið var svo 10 árum síðar sjálfur settur í rannsókn og settur í farbann. Hann fór að ráði Fensmarks og strauk, þó ekki lengra en til Reykjavíkur.
Fjármálaóreiða Fensmarks virðist hafa verið slík að það var ómögulegt að rekja hana að fullu. Hann taldi sjálfur að um væri að ræða 14 þúsund krónur en gat ekki gefið neinar skýringar á því hvað hefði orðið um peningana og ekki rakið það á neinn hátt í hvað þeir hefðu verið notaðir eða hvar þeir væru niðurkomnir. Það sem rannsóknin á málum hans leiddi í ljós var að um mun hærri upphæð væri að ræða, eða tæplega 30 þúsund krónur. Eignir hans voru á hinn bóginn metnar á 3-4 þúsund krónur. Mönnum var það óskiljanlegt hvernig Fensmark hefði náð að koma öllum þessum peningum í lóg á stað einsog Ísafirði og aldrei fékkst nokkur skýring á því hvað hefði orðið af þessum peningum. Bárður Jakobsson kemur með góða athugasemd, sem kannski er sérstakrar athygli verð í ljósi þess sem við Íslendingar upplifðum í hruninu eða “...að Fensmark hafi sóað um 10 milljónum króna á nútíma vísu (1)og er líklega met þegar miðað er við aðstæður og það, að hér var einstaklingur að verki og undir opinberu eftirliti.” Það skyldi þó ekki vera að á öllum þessum tíma hafi opinbera eftirlitið ekki lagast meira en svo?
1884 er Fensmark svo vikið úr embætti um stundarsakir. 1885 er hann dæmdur í átta mánaða betrunarhússvinnu. Eftir áfrýjanir og beiðni um náðun til konungs var dómnum breytt í þriggja mánaða “einfalt fangelsi.” Það var ekki bara að aldrei væri upplýst nákvæmlega um hversu mikla peninga var að ræða í máli Fensmarks heldur segir Bárður einnig frá því að aldrei hafi fengist neinn botn í það hversvegna var tekið svo létt á misferli Fensmarks né heldur hversvegna ekki var gengið eftir skilagreinum frá honum þó vitað hafi verið að embættisrekstur hans var í algjörum ólestri. Þá hafi heldur aldrei verið nægilega skoðað eða gert uppvíst hvaða hvatir voru að baki því að veita reynslulausum manni embætti af þessu tagi og það án þess að meðmæli eða annað slíkt væri tekið með í reikninginn.
Það sem er kannski hvað áhugaverðast í þessari frásögn kemur í lokin en þar ræðir Bárður aðeins um afleiðingar þessa máls í stjórnmálasögu Íslendinga. Hann rekur þar að þetta mál, sem gekk undir nafninu “Fensmarkshneykslið” hafi opnað augu manna fyrir annmörkum íslenska stjórnarkerfisins og umræður því tengdar voru erfiðar að því er varðaði hugtakið “ráðherraábyrgð” en ljóst var að ekki var allt með felldu hvað það varðaði þegar þannig gat farið að enginn var í raun ábyrgur eða sóttur til saka fyrir stórfellt misferli opinbers embættismanns nema hann sjálfur og í flestum tilfellum ekkert til hans að sækja til að bæta fyrir brotið. Innlendur ráðherra með ábyrgð fyrir Alþingi tók við embætti í febrúar 1904 og ekki leið nema mánuður áður en Alþingi samþykkti ráðherraábyrgðarlög.
Í frásögninni af Fensmarkshneykslinu fer Bárður, raunar í orðastað ónefnds kennslubókarhöfundar, óblíðum orðum um þessi lög og segir “... að lögin séu óframkvæmanleg án mikilla breytinga.” Hann bætir svo við frá sjálfum sér að “...það [sé] kurteislega orðað, því af mörgum fáránlegum lögum, sem Alþingi hefur látið frá sér fara, slá þessi líklega metið. Það er ekki líklegt að ráðherra, sem situr í skjóli meiri hluta Alþingis og á þar að auki vini og klíkubræður í þingsölum verði kærðaru samkvæmt ráðherraábyrgðarlögunum. Ekki þar fyrir að það væri óhætt að samþykkja slíkt á Alþingi, vegna þess að engar líkur eru til að landsdómi verði komið saman eða mál rekið þar skv. ákvæðum laganna.” Hann dregur ekki úr þegar hann tekur samanburð á því hvernig mál á borð við Fensmarkshneykslið hefði sennilega verið afgreitt hefði það komið upp árið 1984: “[m]eð núverandi verðbólgusiðgæði og stuðningi flokks- eða klíkubræðra og annarra áhrifamanna, hefði Fensmarksmálið farið á annan veg heldur en það gerði. Fensmark hefði í kyrrþey verið látinn segja embætti sínu lausu, en sennilegra er þó að hann hefði verið fluttur í annað embætti, og hugsanlega látinn greiða skuld sína smám saman að einhverju leyti.”
Hvað finnst okkur um þetta .... bæði Fensmarksmálið sjálft og greiningu Bárðar Jakobssonar, svona í rökkrinu í nóvemberlok árið 2011? Höfum við eitthvað lært, eða hvað?

(1) bókin er gefin út árið 1984. Ekki er ljóst nákvæmlega hvenær grein Bárðar var skrifuð eða fyrst gefin út, og er það ljóður á bókunum, þ.e. að bæði vantar almennilegar upplýsingar um hvar og hvenær pistlarnir voru fyrst gefnir út, og eins einhverjar upplýsingar um höfundana.

4 ummæli:

Harpa Jónsdóttir sagði...

Lært? Tja - rkki mikið allavega...

Harpa Jónsdóttir sagði...

-ekki-

Sigfríður sagði...

nákvæmlega! manni fallast heldur, aftur og aftur, yfir ruglinu.

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Fjúff! Tíminn gengur greinilega í hringi. Þetta var skemmtileg færsla, og mér finnst hugtakið “vanmetagemsar eðalbornir” stórkostlegt.