24. nóvember 2011

Hundrað ára gamalt ástarsamband og goðsagnakennt skáld

Í 2. hefti Tímarits Máls og menningar á þessu ári rakti Guðrún Helgadóttir rithöfundur söguna af ástarsambandi Elínar Thorarensen og Jóhanns Jónssonar skálds á árunum 1915-1916 og sagði frá bókinni Angantý sem kom út árið 1946 og inniheldur frásögn Elínar af sambandi þeirra, en henni var ekki sérlega vel tekið í menningarkreðsum bæjarins. Nú er bókin Angantýr komin út á ný, gefin út af hinu nýja forlagi Lesstofunni, nett bók í fallegri útgáfu og rauðri kápu (í eftirmála kemur fram að upphaflega útgáfan hafi verið í rauðri kápu með fölbleikum síðum). Eða eins og ég sagði við Guðrúnu Elsu, alveg eins og ég væri að tala upp úr ritdómi: Tilvalin bók í jólapakka handa rómantískt innréttuðu áhugafólki um íslenskar bókmenntir og bókmenntaheim á fyrri hluta 20. aldar. Hún spurði á móti: „Handa þér, meinarðu?“ Þetta var kannski fullítarleg skilgreining hjá mér. En við hljótum nú samt að vera fleiri – og ég er búin að fá bókina í afmælisgjöf.


Hin nýja útgáfa Angantýs er í þremur hlutum. Upprunalega bókin skiptist í tvennt; „Minningar um hann“, sem er frásögn Elínar af sambandi þeirra Jóhanns, og „Æfintýri og ljóð frá honum“, semsagt ævintýri og ljóð sem Jóhann skrifaði og gaf Elínu. Nýju útgáfunni fylgir svo virkilega vandaður og fínn eftirmáli eftir Soffíu Auði Birgisdóttur, sem rekur lífshlaup Elínar og Jóhanns, setur bókina í sögulegt samhengi og veltir upp ýmsum spurningum og vangaveltum.

Það verður að segjast eins og er, jafnvel þótt maður eigi það á hættu að hljóma eins og Kolbrún Bergþórsdóttir, að Angantýr er verulega rómantísk bók. Ástarsamband Elínar og Jóhanns fellur eins og flís við hinn nýrómantíska rass (nú fór ég alveg með rómantíkina, var það ekki?); hann er skáld og undrabarn, hún er fimmtán árum eldri, samband þeirra er félagslegur skandall, þau neyðast til að skilja, þau hittast aldrei aftur, hann deyr úr berklum fyrir aldur fram. Þau ganga um bæinn, til að mynda upp á Skólavörðuholtið (mér varð hugsað til annars kærustupars, Ólafs Davíðssonar og Geirs Sæmundssonar, sem voru alltaf að klappa hvor öðrum á Skólavörðuholtinu nokkrum áratugum fyrr), og virðast lifa og hrærast í ljóðum og skáldskap; þau eru alltaf að skrifa upp kvæði fyrir hvort annað, fara með ljóðlínur, velja sér uppáhaldsviðlögin sín og þykjast vera persónur í Íslendingasögunum. Ég greip reglulega í ja.is til að fletta upp heimilisföngum og stefni á pílagrímsferð um Þingholtin í nánustu framtíð til að skoða húsin þar sem þau voru alltaf að hittast og fara með ljóð (og væntanlega eitthvað fleira, en þetta er nú allt voðalega siðsamlegt).

Frásögn Elínar er frekar blátt áfram og látlaus, hún er að fjalla um eitthvað sem er svo hreint og tært í hennar huga eftir öll þessi ár. Hún er góður penni, þetta er fallegur texti. Ljóðrænan skýtur víða upp kollinum, ekki síst í því sem þau eru að segja við hvort annað. Og þetta er allt saman skelfing átakanlegt og erfitt. Ég hef stundum tilhneigingu til að verða hálfpirruð á löngum útlistunum á erfiðleikum í ástamálum, sem oftar en ekki eru bara einhver misskilningur og sjálfhverft væl (já, sorrí, ég er ekki rómantískari en þetta), en þegar kemur að ástamálum fátæks fólks í Reykjavík á öðrum áratug 20. aldar verður maður að hemja velsældardekraða dómhörku sína; eins og Soffía Auður útlistar í eftirmálanum eru ýmsar ástæður mögulegar fyrir aðskilnaði þeirra (og ein meira að segja óvænt, segi ekki meira um það). Það var ekki bara aldursmunurinn sem vann gegn þeim; Elín var til að mynda ekki í þægilegri stöðu, hún var fráskilin þriggja barna móðir og hafði neyðst til að láta tvö barnanna frá sér í fóstur. Þótt Jóhann væri fátækur var mikils vænst af honum og Elín „vildi ekki draga hann niður“ (39).

En þótt sársauki Elínar sé augljós þegar hún skrifar bókina, þrjátíu árum eftir að þau skildu, horfir hún til þess sem hún hefur misst af miklu æðruleysi. Hún vitnar í þýðingu Gríms Thomsen á „Stefi hörpuleikarans“ eftir Goethe:

„Hver sem að aldrei át sinn mat
með iðrunar- og sorgartárum
og aldrei náttlangt svefnlaus sat
á sænginni með beizkum trega-tárum, -
hann þekkir yður ekki, himinsregin.

Ég hefi etið mat minn grátandi, líka vakað hálfar og heilar nætur, en ég hefi aldrei iðrast þess að elska mann, sem var í fyllsta samræmi við mitt innsta eðli, - en það var Angantýr“. (41)

Ég geri ráð fyrir því að það sé ákveðinn fengur að ljóðunum og kvæðunum eftir Jóhann sem fylgja í öðrum hluta bókarinnar fyrir þá sem hann stúdera í alvöru, þótt þau séu kannski ekki alveg minn tebolli; ævintýri hafa mér aldrei þótt sérlega skemmtileg og ljóðin eru helst til upphafin (tungubrjótar eins og „faðmhlýjum“ minna mig á átök Erlu Þorsteins við að láta suma lagatexta frá miðri 20. öld hljóma flæðandi). Soffía Auður ræðir í eftirmálanum gildi bókarinnar, bæði frásagnar Elínar og ljóða og ævintýra Jóhanns, í bókmenntasögulegu samhengi, og fjallar meðal annars um mögulegar ástæður fyrir því hversu þögguð bók Elínar hefur verið og hvaða áhrif hún hefur á goðsagnakennda ímynd Jóhanns. Þetta er mjög áhugaverð umræða og það er hálfdapurlegt að lesa, í kjölfar frásagnar Elínar af sambandi þeirra Jóhanns, orð Halldórs Laxness um konurnar í lífi hans, að þær hafi verið honum „á við sjö plágur Egyftalands“. (77)

Ýmislegt annað áhugavert kemur fram í eftirmála Soffíu Auðar – til dæmis var gaman að frétta að það hefði verið til Elínar sem Þórbergur Þórðarson orti kvæðið „Í Skólavörðuholtið hátt“ á sextugsafmæli hennar, en Herdís sem var þar var semsagt Herdís móðir hennar Andrésdóttir skáldkona. Loksins gat ég botnað eitthvað í þessu kvæði.

Lesstofan á alltént hrós skilið fyrir að endurútgefa bók Elínar, sem er bæði falleg ástarsaga og forvitnileg fyrir þá sem hafa áhuga á bókmenntum og bæjarlífi þessa tíma.

4 ummæli:

Hildur Knútsdóttir sagði...

Ég heyrði Soffíu Auði tala um þessa bók á Degi íslenskrar tungu og ég hlakka mikið til þess að lesa hana!

Þorsteinn sagði...

Og þessi gaur, sko! Hann er sjóðandi!

Nafnlaus sagði...

Ég hlustaði líka á fyrirlesturinn á degi íslenskrar tungu og var mjög uppnumin af rómantík, alveg þangað til fyrirlesarinn las brot úr bréfi Jóhann til vinar síns, þar sem hann lýsir Elínu.
Ef ég man rétt þá sagði hann að hún væri eina konan sem hann hefði hitt hverrar persónuleiki yxi við hver kynni, og klikkti svo út með því að allir blettir á persónuleika hennar þurrkuðust út sakir þeirra fórna sem hún hafði fært í lífinu.
Ekki myndi ég nú kunna þeim manni miklar þakkir sem hrósaði mér á þennan hátt, en, það eru náttúrulega allir börn síns tíma.
Ragnhildur.

Nafnlaus sagði...

Það er reyndar athyglisvert að velta því fyrir sér hvort maður hefði í dag orðið jafn hrifinn af frásögn Jóhanns af sambandi þeirra og af frásögn Elínar. "Konan sem viðfang" á sér svo afskaplega sterkar rætur í ástarjátningum karla til kvenna, fyrir nú utan allar klisjurnar um fórnareðlið og svo framvegis.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort kona geti skrifað svipaðan texta um karlmann, um hinn elskaða karl sem viðfang, og alltaf verið að bíða eftir að rekast á gott dæmi um svoleiðis. Maður sæi það þá helst fyrir sér ef konan væri á einhvern hátt í meiri valdastöðu en karlinn, t.d. af hærri stétt, eða jafnvel einhvers konar femme fatale með niðurlægingartendensa...en væri þá ekki alltaf verið að kvengera karlinn á einhvern hátt? Eða fjalla um hann eins og ungan pilt í grískri hommaerótík? Elín er auðvitað eldri en Jóhann en talar um hann jafningjagrundvelli, setur sjálfa sig frekar skör neðar, hann er svo fallegur og gáfaður og hún vill ekki "draga hann niður".

-kst