16. nóvember 2011

Skrímsli í Börnum og menningu

Hausthefti Barna og menningar kemur út í vikunni. Blaðið er í þetta sinn helgað litla og stóra skrímslinu hennar Áslaugar Jónsdóttur, bókagerðarkonu, en sex bækur um þau hafa þegar komið út í samstarfi við norrænu höfundana Kalle Güettler og Rakel Helmsdal. Kristín Ragna Gunnarsdóttir teiknari og bókmenntafræðingur fjallar um myndmál í skrímslabókunum og Helga Birgisdóttir doktorsnemi í íslenskum bókmenntum tekur fyrir skrímsli og ótta. Í blaðinu er einnig viðtal Helgu Ferdinandsdóttur druslubókadömu og ritstjóra Barna og menningar við Áslaugu Jónsdóttur um tilurð litla og stóra skrímslisins og óvenjulegt samstarf þriggja höfunda. Skrímslin eru á leiðinni upp á svið Þjóðleikhússins í vetur og segir Áslaug frá því hvernig þessar loðnu verur hafa tekið í það brölt.

Af öðru efni í blaðinu má nefna grein Brynhildar Heiðar- og Ómarsdóttur um Gríshildi góðu, kvenhetju úr íslenska sagnaarfinum og nafnleysi kvennanna sem héldu þeim arfi á lofti. Þá er að vanda fjallað um nýútkomnar bækur í blaðinu og má þar nefna grein Guðrúnar Elsu Bragadóttur um Fluguna sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur sem hreppti Íslensku barnabókaverðlaunin á dögunum. Einnig er uppfærsla Borgarleikhússins á Galdrakarlinum í Oz leikrýnd af Sigurði H. Pálssyni.



Börn og menning, er eina íslenska tímaritið sem eingöngu fjallar um barnabókmenntir og annað menningartengt efni fyrir börn. Blaðið kemur út tvisvar á ári og er til sölu í Bóksölu stúdenta og bókabúð Máls og menningar, laugavegi 18. Hægt er að gerast félagi í IBBY-samtökunum (International Board on Books for Young People) og jafnframt áskrifandi að Börnum og menningu með því að senda póst á bornogmenning@gmail.com.

3 ummæli:

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Gaman! Ég elska litla skrímslið og stóra skrímslið og myndi kaupa þetta blað þótt ekki væri nema fyrir kápuna.

Arndís Dúnja sagði...

Það er miiiklu betra að gerast bara áskrifandi, sko B-)

Salka Guðmundsdóttir sagði...

Já, ég skal skammast til þess!