
Þannig spyr ónefndur sænskur faðir í hversdagslegu netspjalli í byrjun ársins 2010. Nú tveimur árum síðar hefur hann væntanlega fengið svörin sem hann óskaði eftir. Fyrir örfáum vikum kom nefnilega út bókin Felicia försvann sem eru minningar Feliciu Feldt, fullorðinnar dóttur umræddrar Önnu Wahlgren. Og dóttirin segir sínar farir ekki sléttar.
En áður en við rýnum í þá bók er rétt að bakka nokkur skref og gera grein fyrir Önnu þessari Wahlgren. Anna Wahlgren gaf út Barnaboken árið 1983, doðrant með undirtitilinn „umönnun og uppeldi barna frá 0-16 ára.“ Í bókinni setur hún fram kenningar sem hafa verið umdeildar allar götur síðan, sumir fullyrða að þær hafi bjargað lífi þeirra á þessum fyrstu erfiðu árum í foreldrahlutverkinu (þeirra á meðal er Camilla Läckberg sem lofaði aðferðir Önnu til að mynda í hástert í Steinsmiðnum), aðrir fussa og sveia. Í seinni tíð hefur Anna Wahlgren einbeitt sér að svefnvandamálum og gefið út bók um aðferðir til að fá börn til að sofa sjálf alla nóttina. Þau ráð hafa verið jafnumdeild og annað úr hennar ranni og hefur hún meðal annars verið harðlega gagnrýnd fyrir að fyrirskipa að öll börn eigi að sofa á maganum – nokkuð sem almennt hefur verið mælt gegn frá því í upphafi tíunda áratugarins þegar rannsóknir sýndu að koma mætti í veg fyrir stórt hlutfall vöggudauða með því að láta ungabörn sofa á bakinu. Gagnrýnendum Önnu Wahlgren þykja uppeldisaðferðir hennar stífar og telja þær frekar miðast að því að skapa foreldrunum rými en að hugsa um velferð barnsins. Þetta þykjast margir líka hafa lesið út úr sjálfsævisögu hennar í þremur hlutum, Mommo, sem kom út 1995-1997 þar sem hún ku greina frá bæði frjálslegum ástarmálum sínum og skemmtanalífi. Sjálf myndi Anna Wahlgren væntanlega frekar lýsa kenningum sínum á þann hátt að þær miði að því að móta sterka einstaklinga úr börnunum, leyfa þeim að taka ábyrgð en fría þau frá samviskubiti og skapa samband milli barna og foreldra sem einkennist af heilindum. Og einhvern veginn þannig er sú ímynd sem hún hefur gefið af sér og börnunum sínum átta (hún missti einn son ungan að árum), að þau hafi verið einn stór, samheldinn og hamingjusamur hópur þar sem allir hjálpuðust að við heimilishaldið og hver studdi annan. Þeirri mynd var víst líka haldið á lofti af fjölmiðlum í kringum útgáfu Barnaboken. Allt þangað til nú þegar þriðja barnið, Felicia, stígur fram og segir sögu sína.