Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thors myndi væntanlega flokkast undir sagnasveig þar sem hér er á ferðinni safn smásagna sem þó tengjast allar. (Þetta er greinilega heitt umræðuefni þar sem Guðrún Elsa var rétt áðan að setja inn færslu um sagnasveiga
hér). Sjálf var ég alltaf lítið spennt fyrir smásögum þar til ég kynntist skrifum snillingsins Alice Munro (sem ég fjalla um
hér) en síðan hef ég verið svag fyrir forminu. Munro hefur nær eingöngu skrifað smásögur en eftir hana liggur þó ein skáldsaga –
Lives of Girls and Women – sem mætti mögulega flokka sem sagnasveig þar sem hver kafli er að forminu til eins og sjálfstæð smásaga þótt þeir fjalli um sömu fjölskyldu. Uppáhalds sagnasveigs bókin mín er þó sennilega
Olive Kitteridge eftir Elizabeth Strout (sem ég kannski lufsast til að skrifa um við tækifæri) en hún fékk Pulitzer verðlaunin árið 2009. Eins og
Valeyrarvalsinn tekur hún fyrir smábæ og leyfir lesandanum að skyggnast inn í nokkur hús og kynnast íbúunum. Þetta er frábær bók sem nýtir sér einn skemmtilegasta möguleika sagnasveigsins – að segja frá sömu atburðum og manneskjum frá mismunandi sjónarhorni. Það gerir Guðmundur Andri raunar líka og leikur sér að dómhörku lesandans – oft reynist persóna sem maður var löngu búin að afgreiða hafa sitthvað sér til málsbóta.