Cathi Unsworth starfaði lengst af sem blaðamaður hjá tónlistartímaritum á borð við Sounds og Melody Maker en hún er hinsvegar tiltölulega nýlega farin að skrifa skáldskap. Hún skrifar spennusögur sem eru undir miklum áhrifum frá noir hefðinni, eða rökkurhefðinni, en hennar helsti áhrifavaldur er Derek Raymond sem oft er kallaður guðfaðir breskur rökkurbókmenntahefðarinnar og hér með er þeim sem aðhyllast subbulega og kolsvarta rökkurreyfara bent á skáldsöguna I was Dora Suarez eftir kappann en hún er mögnuð.
The Not Knowing er fyrsta bók Cathi Unsworth en þar virðist hún sækja í eigin reynsluheim þar sem aðalsöguhetjan Diana Kemp er blaðamaður hjá jaðarmenningarriti og skrifar meðal annars um glæpasögur sem hún hefur mikinn áhuga á. Sögusviðið hér er London, nánar tiltekið Portobello Road, Soho og Camden en þar finnst ungur kvikmyndagerðarmaður myrtur og starfsmenn tímaritsins flækjast í málið með óvæntum hætti. Ekki verður farið nánar út í þá sálma hér enda er það í raun ekki lausn málsins sem skiptir mestu máli í þessari sögu heldur miklu fremur stemningin. Hér er fjallað af þekkingu um ákveðinn menningargeira og ég er kannski heilluð af henni vegna þess að mig hefur alltaf langað til að vera týpa á borð við aðalpersónuna hér. Hún er svona rokkabillítýpa með litað svart hár og Betty Page hárgreiðslu, rauðan varalit, svarta augnmálingu, alltaf í gömlum kvikmyndastjörnudröktum og hlébarðajökkum og þar fram eftir götunum. Hún er ekki beinlínis hefðbundið háskakvendi, hún er bæði gerandi og fórnarlamb í þessari sögu, ósnertanleg á yfirborðinu en viðkvæm og brotin undir niðri. London er dökk og háskaleg í þessari bók, tunglið veður stöðugt í skýjum og það eru skuggalegir smáklúbbar í öllum kjöllurum. Spennandi og sóðaleg rökkurbók með óhefðbundinni aðalpersónu.
Meðfylgjandi mynd er af höfundinum.
7 ummæli:
Þú mátt alveg lána mér þessa bók.
Jamm, geri það:)
Má ég fá hana lánaða á eftir Þórdísi?
Þessa líst mér vel á. Mun rölta út í bókabúð á morgun og kaupa hana. Hef alltaf verið svag fyrir rockabilly!
Ég hef örugglega keypt eina eintakið á landinu...en það verður sett á flot hið fyrsta, eins og krónan
Ég held að Þórdís hin sé í London. Er það mis....?
Nei thad er rett og bokin er komin i korfuna a Amazon. Hlakka til ad lesa hana og held eg skelli mer lika a The Hour I First Believed...good times ahead :)
Skrifa ummæli