2. ágúst 2012

Á loftlausri kaffistofu frá liðinni öld

Fyrir réttum tveimur vikum skrifaði ég færslu um þá ágætu bók Sjö dauðasyndir eftir dr. Guðbrand Jónsson. Eins og fram kom í þeim pistli fylltist ég nokkrum áhuga á dr. Guðbrandi við lesturinn, enda skrifaði hann ekki einungis fjölbreyttar bækur um glæpi, presta, ferðalög og Reykjavíkurlögregluna heldur var hann jafnframt kaþólikki sem gekk á fund páfa, víðförull bókavörður, málamaður mikill, túlkur og þýðandi, sem var réttilega eða ranglega bendlaður við starf fyrir Þjóðverja í bæði fyrri og seinni heimsstyrjöldinni.

Þessi áhugi leiddi mig að bókinni Afbrigði og útúrdúrar eftir Kjartan Sveinsson, skjalavörð á Þjóðskjalasafninu til margra ára, en hún hefur að geyma sagnaþætti Kjartans um menn sem hann kynntist á lífsleiðinni. Þættirnir eru níu talsins og hver kenndur við einn karl, en eins og titill bókarinnar gefur til kynna eru farnir ýmsir útúrdúrar í frásögninni og her manns úr íslensku 20. aldar þjóðfélagi kemur við sögu. Safnahúsið við Hverfisgötu myndar eins konar miðpunkt í bókinni en um það lágu leiðir margra þessara manna, sem ýmist störfuðu þar eða voru þar tíðir gestir.

Fyrsti þátturinn og sá illskeyttasti fjallar um dr. Guðbrand Jónsson, en doktorstitil hans hefur Kjartan jafnan innan gæsalappa (ef marka má þessa bók virðast menn ansi oft hafa verið grunaðir um að skreyta sig með fölskum nafnbótum á fyrri hluta 20. aldar). Það er skemmst frá því að segja að Guðbrandur fær miður góð eftirmæli hjá Kjartani, sem lýsir honum eiginlega sem ósvífnum og sjálfhverfum siðblindingja sem hafi jafnvel verið grunaður um að koma upplýsingum um siglingar íslenskra skipa til þýskra kafbáta í fyrra stríði. „Aldrei varð þetta mál þó sannað og vera má að þetta hafi verið orðum aukið“, viðurkennir Kjartan að vísu, en bætir við að „Guðbrandi hefði tekið sárast „rétt í rassinn“, eins og strákurinn sagði, þótt íslenskum skipum hefði verið sökkt, gæfi það honum sjálfum nokkurn gróða eða ávinning. Samviskan var aldrei að þvælast fyrir honum. Fyrir næga peninga var hægt að fá Guðbrand til að gera hvað sem var, jafnvel góðverk.“ (Ég verð að tilfæra þessa síðustu línu líka sem dæmi um þann leiftrandi þjóðlega húmor sem er ríkjandi í bókinni.) Lýsing Kjartans á Guðbrandi er víða í miklum hneykslunartóni en það verður að segjast eins og er að illmælgi höfundarins sjálfs gerir lesandanum erfitt fyrir að taka undir hina heilögu vandlætingu.

Flestir þeir sem koma við sögu í bókinni fá skárri eftirmæli en Guðbrandur en frásögnin er almennt í þessum stíl, samtíningur af frekar pungþefjandi gamansögum og misrætnu slúðri. Það er vandleg nafnaskrá aftast þannig að ef einhver vill fletta upp sögum af landabruggi afa síns eða vargskap ömmu sinnar er hægt um vik. Það kom mér skemmtilega á óvart hvað Kjartan vandar sig mikið við að vitna til heimildarmanna um hinar ýmsu slúðursögur. Í kjölfarið á nærgöngulli og neikvæðri lýsingu á heimilislífi foreldra Guðbrands Jónssonar bætir hann samviskusamlega við: „Framanskráð hef ég frá frú Matthildi Kjartansdóttur frá Búðum, konu Guðbrands Magnússonar forstjóra, en hún var bræðrabarn við Guðbrand.“ Ýmsir fleiri heimildarmenn um drykkjuskap, kvennafar og peningavandræði annarra eru tilgreindir með nafni, stöðu og ætterni. Það er ekki laust við að það setji að manni nokkurn ugg, ef einhverjir óprúttnir vinir manns skyldu taka upp á því að skilja eftir sig sagnaþætti til útgáfu.

Kjartan Sveinsson dó nefnilega árið 1977 og hafði mælt svo fyrir um að sagnaþættina mætti ekki gefa út fyrr en eftir aldamótin 2000, og það er semsagt skýringin á því að bókin kom ekki út fyrr en árið 2005 og kemur manni fyrir sjónir sem hálfgerð tímaskekkja. Það er undirstrikað með frekar ljótri en viðeigandi kápuhönnun bókarinnar; samanbrotnum tóbaksklút sem lagður er yfir gamla ljósmynd af tveimur karlmönnum þar sem annar æpir á hinn með leikrænum tilþrifum. Það má finna ýmislegt skemmtilegt innan um í bókinni en það verður aldrei neitt meira úr því, það kemur bara önnur saga og önnur saga og oftar en ekki einhver smásálarlegur tittlingaskítur og persónuníð, þangað til manni fer að líða eins og maður sé fastur á loftlausri kaffistofu þar sem málóður maður hefur tekið sér stöðu í dyrunum.

(„Tímaskekkja“ er allavega jákvæðasta orðið sem hægt er að nota yfir það þegar fullorðinn karlmaður rifjar það ennþá upp með hlátrasköllum meira en hálfri öld síðar hvað það hafi verið gaman að keppa við hina strákana um að græta fyrstu stelpuna sem sótti tíma í íslenskum menntaskóla rétt upp úr aldamótunum 1900. Að maður tali ekki um brandarann um hvað þeir ætluðu að gefa henni í afmælisgjöf: „hvítglóandi koparböll og 10 hesta utanborðsmótor til að drífa hann.“ Allur kaflinn um Laufeyju Valdimarsdóttur - sem er lengsta umfjöllunin sem nokkur kona fær í bókinni - fjallar um það á einn eða annan hátt hvað hún hafi verið kynferðislega ófullnægð. Verulega frumleg og lifandi mannlýsing.)

Eitt sinn var þetta ríki sannra gráðulausra spekinga,
kynlegra kvista og annarra kryddteninga tilverunnar.
O tempora o mores!
Oftar en einu sinni varð mér við lesturinn hugsað til þessa eftirminnilega ritdóms Þórdísar Gísladóttur um ævisögu Árna Johnsen, Lífsins melódí, en þar lýsir hún vel þessari tegund af drýldinni íslenskri gamansemi sem sagnaþættir Kjartans Sveinssonar eru auðvitað fráleitt einstakt dæmi um, hvað þá það versta. Hann orðar sennilega nostalgíu margra af þeim skóla þegar hann segir um Safnahúsið í lok bókarinnar: „Nú kveður aldrei við hógvær hlátur í þessu húsi, ekki einu sinni bros, ekkert nema þögn, leiðindi og andleysi.“

Þótt ég taki reyndar undir andleysi núverandi starfsemi í Safnahúsinu græt ég það krókódílatárum að þessi „karlaveröld með tilheyrandi groddahúmor, sagnaskemmtun og drykkjuskap“, eins og Guðmundur Andri Thorsson orðar það hressilega í formálanum, sé á undanhaldi í grúskmiðstöðvum landsins. Ég er búin að fá svo yfirdrifið nóg af þjóðlegum íslenskum sagnastíl eftir þennan lestur að ég ætla að trappa mig niður með einhverjum vönduðum erlendum samtímabókmenntum, helst nógu póstmódernískum, þar sem ég hef ekki stöðugt á tilfinningunni að ég sé að fylgjast með öldruðum ættingjum mínum girða brækurnar niður um hvern annan í ölæði.

3 ummæli:

Arndís Dúnja sagði...

Ég fæ ekki orða bundist: KST er skemmtilegasti ritdómari landsins! Hún notar tilvitnanir svo markvisst og er að auki svo góður stílisti að bækurnar sem hún skrifar um standa manni birtast lesendum mjög glögglega í stuttu máli. Ég held að þessi dómur sé miklu skemmtilegri en bókin nokkru sinni (þó að hún hafi allnokkuð skemmtanagildi, maðurinn minn las fyrir mig valda kafla úr henni fyrir nokkru). Ferfalt húrra!

Nafnlaus sagði...

Brandur er langafi Eiðs Smára. Meðal annars!

Í einhverri revíunni var sagt: "Guðbrandur greiðir ekkert - nema hár sitt." Þegar GJ - örugglega á staðnum, á frumsýningunni - þóttist ætla að kæra þetta fyrir einhverjum, breyttu höf. línunni einfaldlega í: "Guðbrandur greiðir allt - nema hár sitt!"

SB

Kristín Svava sagði...

Ritdómarinn þakkar rjóður í vöngum fyrir þetta fallega hrós! ...og óvæntar upplýsingar um enn eina hliðina á Guðbrandi Jónssyni.