Í vor bloggaði ég um stofnun leshópsins Dauði og ógeð og fyrstu bókina sem ég las fyrir hann, Stiff. The Curious Lives of Human Cadavers. Það er að vísu ekki enn búið að ræða Stiff í leshópnum, en ég dembdi mér strax í næstu bók, The American Way of Death Revisited eftir Jessicu Mitford. (Ég er ánægð með hvað kvenhöfundar eru duglegir að skrifa um dauða og ógeð.) The American Way of Death er klassískt rannsóknarblaðamennskuverk sem kom fyrst út árið 1963 en þessi endurskoðaða útgáfa er frá 1998.
Bókin fjallar í stuttu máli um greftrunarsiði Bandaríkjamanna á 20. öld og þá síauknu markaðsvæðingu sem einkennir bandarískar útfarir. Mitford er skemmtilegur penni og efnið sem hún er með í höndunum er oft ansi rosalegt, hvort sem litið er til ástandsins þegar bókin kom út upphaflega árið 1963 eða í dag; bara fagtímarit útfararstjóranna (sem heita nöfnum á borð við Casket and Sunnyside) og markaðssetningar- og viðskiptalingóið sem þar er að finna fær mann til að sitja gapandi yfir bókinni. Útfararstjórarnir sem Mitford kynnir til sögunnar svífast einskis þegar kemur að því að reka áróður gegn líkbrennslu (ódýrari valkostur), pranga sem dýrustum kistum inn á syrgjandi fjölskyldur með blygðunarlausri tilfinningakúgun og meika hvert einasta lík sem þeir fá í hendurnar í drasl („ég þekkti Bill gamla ekki aftur“).
Af þeim siðum sem sagt er frá í bókinni er það líksmurningin sem kemur íslenskum lesanda mest framandi fyrir sjónir, en smurning (e. embalming) er eitthvað sem Bandaríkjamenn hafa bitið í sig – mögulega fyrir tilverknað peningagráðugra útfararstjóra – að sé algjörlega ómissandi meðferð á líki. Náttúrulegt innvols mannsins er fjarlægt og einhverju galdraseyði dælt í æðarnar, enda verður hinn látni að vera dálítið hressilegur að sjá meðan hann stendur uppi. Það er lengra tímabil en hin stutta íslenska kistulagning og þá geta allir komið til að votta hinum látna virðingu sína. Ég veit ekki hvort lesendur kannast við harmsöguna sem gengur reglulega um netið og fjallar um móður sem deyr í bílslysi frá ungum syni, en þar fer sögumaður „upp í líkhús þar sem fólk gat séð konuna og og óskað sér í seinasta skipti áður en hún væri jörðuð“ – ég fór að skilja þetta aðeins betur eftir lesturinn á The American Way of Death, þótt fólk óski sér reyndar ekki í henni.
Bókin er áhugaverð og skemmtileg aflestrar, og augljóslega þörf gagnrýni á útfarariðnaðinn í Bandaríkjunum. Hún auðveldar bandarískum lesendum jafnframt að forðast peningaplokksgildrur greftrunarinnar, því Mitford fjallar meðal annars um frjáls félagasamtök sem gera fólki kleift að halda ódýrar útfarir.
Eins og áður segir byggir bókin á aðferðum rannsóknarblaðamennskunnar, þannig að hún er frekar bundin við Bandaríkin og er ekki sérlega hugmyndafræðileg í gagnrýni sinni.
Meðan ég las bókina varð mér af og til hugsað til heimildarmynda Michael Moore; þær einkennast líka af þessari húmorísku og sértæku gagnrýni á ákveðnar bandarískar aðstæður, án þess að í þeim séu endilega dregnar ályktanir um samfélagsskipanina eða kerfið almennt, og Mitford dettur stundum í þá „evrópsku rómantík“ sem er kunnugleg úr myndum Moore, þar sem fjallað er um aðstæður í Evrópu með glýju í augum (þótt það komi fram hjá Mitford að bandarísk stórfyrirtæki séu nú farin að seilast inn á hinn gamla, góða og siðprúða breska útfararmarkað). Aðdáun íslenskra áhorfenda á myndum Moore hefur stundum komið mér fyrir sjónir eins og hún einkennist öðrum þræði af heilagri vandlætingu yfir ástandinu í útlöndum og yfirborðskenndri ánægju með ástandið í eigin landi: „Við erum nú ekki jafn biluð og þessir Bandaríkjamenn.“ Það er auðvelt að fá þá tilfinningu við lesturinn á The American Way of Death, en á móti kemur að bókin er líka einfaldlega skemmtilegur lestur.
Það væri áhugavert að sjá samsvarandi rannsókn á íslenskum útfararsiðum og –iðnaði. Það er góðra gjalda vert að vera vakandi fyrir vafasömum starfsaðferðum í útfararbransanum, því sjaldan er fólk jafn berskjaldað og þegar það neyðist til þess að sækja sér þjónustu þangað.
3 ummæli:
Mér sýnist vera tilhneiging í þá átt hér að gera útfarir æ íburðarmeiri, svo hefur útfararstofum fjölgað heilmikið undanfarin ár, sem sýnir að þetta er gróðavænleg starfsemi.
Helga Jónsdóttir
Ég varð fyrst var þetta embalming fyrirbæri í þáttunum 6 feet under, sem eru skemmtileg innsýn í iðnaðinn, þó fókusinn sé ekki gagnrýnin rannsóknarblaðamennska eins og í þessari bók.
Six Feet Under eru uppáhaldsþættirnir mínir og vöktu einmitt áhuga minn á útfarariðnaðinum!
Salka G.
Skrifa ummæli