
KST: Útgáfa bókarinnar var gerð heyrinkunnug einhvern tímann í vor og það komu strax fram ýmsar gagnrýnisraddir á hugmyndina. Meðal annars lýstu margir yfir áhyggjum sínum af því að það sé engin leið að vita hvort þessar fantasíur voru sendar inn af konum eða körlum, en ég efast svona frekar um það sjálf að karlmenn úti í bæ hafi beðið í röðum eftir tækifæri til að skekkja mynd fólks af fantasíuheimi kvenna. Ég efast ekki um að það megi sjá áhrif karllægs sjónarhorns í bókinni en ég held að þau hljóti að vera lúmskari en þetta.
Formáli bókarinnar er stuttur, rétt um hálf blaðsíða, en Hildur tileinkar bókina kynfrelsi kvenna og virðist þannig tengja útgáfu hennar femínískum hugsjónum. Í ljósi fyrrnefndra gagnrýnisradda er kannski eðlilegt að það sé ákveðinn varnartónn í formálanum, en að mínu mati hefði verið hægt að gera hann mun betur úr garði og bókin hefði grætt á því að hann væri ítarlegri, ræddi til dæmis nánar forsendur verkefnisins. Hildur segist til að mynda styðjast við „almenn viðmið og rannsóknir um kynferðislegan hugarheim kvenna“ en útskýrir það ekkert frekar. Hvaða viðmið og rannsóknir eru þetta?
Eins og Halla Sverrisdóttir fjallaði um í nýlegri grein á Knúz.is voru skrifaðar bækur af sama meiði í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum fyrir þrjátíu árum síðan, og þá í tengslum við aðra bylgju femínismans sem lagði gjarnan mikla áherslu á opinskáa umræðu um langanir og kynhvöt kvenna í samfélagi þar sem slíkt var mikið tabú. Bækur frumkvöðulsins Nancy Friday lögðu áherslu á að setja kynlífsfantasíur kvenna í persónulegt og pólitískt samhengi og dýpkuðu þannig umræðuna, ekki ósvipað og Jóhanna Sveinsdóttir gerði í bók sinni um Íslenska elskhuga sem við fjölluðum um hér í sumar. Af hverju kemur þessi bók ekki út á Íslandi fyrr en árið 2012 – er þetta sambærilegt framtak? Er þessi fantasíubók frelsandi á Íslandi í dag á sama hátt og hún var það á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum fyrir þrjátíu árum síðan? Ítarlegri svör við svona spurningum hefðu gert bókina mun áhugaverðari sem vitnisburð um hugsanir og viðhorf kvenna á Íslandi í dag.