Í þeirri ágætu borg Kaupmannahöfn eru bókabúðir af allt öðrum standard en þeim íslenska. Í fyrsta lagi er Janteloven hluti af starfslýsingunni eins og í öðrum dönskum verslunum og þjónustulundinni ekki mikið fyrir að fara. Í öðru lagi er opnunartíma þessara félagsmiðstöðva bókaunnandans sérlega ábótavant þar sem flestum þeirra er kyrfilega lokað klukkan sex . Eins get ég ekki ímyndað mér hvað danskir helgarpabbar gera með börnunum sínum þar sem bókabúðir eru lokaðar á sunnudögum. Að því sögðu eru hér í borg nokkrar vandaðar og skemmtilegar bókabúðir þrátt fyrir ofantalda annmarka og vert að geta þeirra á bókabloggi sem þessu.
Arnold Busck - Købmagergade 49
Þessi er nú Íslendingum góðkunn, beint á móti Sívaliturninum. Búðin er á þremur hæðum auk þess sem hún hýsir kaffihúsið Baresso á efstu hæðinni. Arnold Busck er bókabúðakeðja, fyrsta búðin var stofnuð 1896 og nú eru einar 35 búðir í Danmörku en þessi hefur nokkra sérstöðu. Bókaúrvalið í henni er mikið á dönskum mælikvarða og fjölbreytnin meiri en í flestum öðrum bókabúðum hér. Eins eru í Arnold Busck fleiri bækur á ensku en í öðrum bókabúðum sem ætlunin er að fjalla um í þessum greinaflokki (!). Í kjallara búðarinnar má finna litla ritfangadeild, en ólíkt íslenskum bókabúðum eru þær dönsku ekki sítroðandi uppá mann blekhylkjum og bic pennum og er það vel. Skipulag bókabúðarinnar mætti hugsanlega vera betra, bækur almenns eðlis (non-fiction) eru til dæmis á öllum hæðum búðarinnar og er kjallarinn sérstaklega kaotískur. Í ranghölum hans eru hlið við hlið sagnfræði, barnabækur og stútfullur rekki um allt sem tengist ástarlífinu. Í seilingarfjarlægð frá ófáum Kama Sutra handbókum er svo furðu gott úrval af heimspekiritum Kierkegaards, svo gott reyndar að reynda bóksala grunar að pöntunarstjórinn hafi verið í heimspekinámi. Einnig er í kjallaranum mikið framboð á bókum tengt sérlegu áhugamáli Dana, seinni heimstyrjöldinni. Ekki laust við að maður hugsi hlýlega til „litla nasistans“ , sérlega viðkunnalegs góðkunningja íslensks bókabúðarstarfsfólks, í kjallaranum á Arnold Busck léki hann við hvern sinn kubbótta fingur.
Yfir þvera jarðhæð búðarinnar hlykkjast skáldsagnarekkinn og býður aðstaðan satt að segja ekki uppá langdvalir þar sem hann er í gangveginum. Það má þá kippa með sér nokkrum sýnishornum og fara með þau í ró og næði í tiltölulega metnaðarfullt matreiðslubókahornið þar sem leynist einn stóll ætlaður viðskiptavinum. Eða laumast með þau uppá kaffihúsið á annarri hæðinni, en hvorki starfsmenn bókabúðarinnar eða kaffihússins hvetja mann sérstaklega til þess kreppulega verknaðar að lesa bækurnar þar. Við kaffihúsið eru aðallega svokallaðar „coffee table books“, listaverka- og ljósmyndabækur, úrvalið er ágætt en ekki mjög sérhæft.
Helsti keppinautur Arnold Busck, í afar vísindalegum samanburði mínum um gæði bókabúða í Kaupmannahöfn, er bókabúð Politiken við Rådhuspladsen. Meira um hana næst.
8 ummæli:
Það mætti nú alveg bæta aðstöðuna fyrir róna (og heimavinnandi húsmæður) í bókabúðum miðborgar Reykjavíkur með því að lækka verðið á kaffibollunum og tertusneiðunum. Já og selja fleiri bækur frá Noregi, Svíþjóð, Færeyjum og Danmörku. Ókei ég veit að þær eru fokdýrar hingaðkomnar á ruglgengi krónunnar, en þær vantar samt í hillurnar (ekki síst þegar maður hefur ekki lengur efni á að skreppa til nágrannalandanna til að kaupa bækur).
Bókabúð Politiken er uppáhalds búðin mín í allri Kaupmannahöfn. Ekki séns að ég komi við í borginni án þess að kíkja að minnsta kosti einu sinni í búðina. Keypti allar bækur Söru Blædel þar í sumar.
Þetta var óþarfi!
Mér fannst þetta nú einmitt ákaflega fallega hugsað til þín "litli nasisti".
Mér finnst Busck sjónarmun betri en Politiken, ekki þó hvað varðar úrval bóka heldur er rýmra um bækurnar og auðveldara að reika um.
Já, bókabúðir Kaupmannahafnar eru ótrúlega slappar og borulegar eitthvað miðað við stærð borgarinnar (leyfi mér þó að bæta bókabúðinni á horninu við Nørregade, á móti Frúarkirkju, við upptalninguna hér á hinum kommentunum. Nenni ekki að gúggla hana til að finna nafnið. Hún er þokkaleg líka).
Fyrst talað er um Eyrarsundið má benda á Malmö. Þar eru tvær búðir, sem kannski eru ekki betri en Busck á Købmagergade og Politiken-búðin (sem mér finnst best, á sjónarmun), en alveg jafngóðar. Í fyrra lagi Akademibokhandeln og svo Hamrelius, sem er mitt uppáhald. Ég fer alltaf í Hamrelius þegar ég fer til Malmö. Sænsku bókabúðirnar hafa það líka fram yfir þær dönsku að þar eru bækur sirka helmingi ódýrari.
Flottasta bókabúðin á Norðurlöndum er hins vegar Akademibokhandeln á Mäster Samuelsgatan í Stokkhólmi. Stærst á Norðurlöndum og sú eina sem ég hef séð sem jafnast á við þessar týpísku bresku megabúðir á mörgu hæðunum. Þangað fór ég oft á langþráðum frídögum mínum meðan að eðlilegt fólk nýtti frídaga sína í eðlilega skemmtun. Var svona mitt tívolí og rússíbani.
Ef Himnaríki væri til þá væri það örugglega líkt Akademibokhandeln á Meistara Samúelsgötu.
Amen to that!
Skrifa ummæli