KS: Mín fyrsta spurning eftir lestur þessarar bókar er: Handa hverjum er hún eiginlega skrifuð? Ég hélt fyrst að þetta væri unglingabók, en hún er það tæpast.
GE: Ég velti þessu líka fyrir mér. Nú er bókin eins konar ádeila á hugsunarháttinn sem einkenndi góðærið, en skáldsagan kemur náttúrulega út eftir hrun, þegar allir eru orðnir meðvitaðir um það hve súr sá hugsunarháttur var. Það er verið að sparka í liggjandi hugsunarhátt. (Eftir langa þögn) Ég held samt að bókin sé fyrir Audda Blö.
KS: Að sumu leyti minnir sagan mig á kvikmyndina Íslenska drauminn, en þar er líka í aðalhlutverki maður sem er fullur af innantómum en mjög háfleygum fyrirætlunum. Tóti í Íslenska draumnum er reyndar meiri lúser en Hákon Karl og meira sannfærandi persóna, en báðir eiga erfitt með að læra af mistökum sínum og eru fljótir að rísa upp aftur með enn stærri plön þótt þeir séu í rauninni með allt niðrum sig. Í Íslenska draumnum er svo annar karakter sem endar grenjandi í fangi móður sinnar eftir misheppnað múv í markaðssetningarbransanum, en Hákon Karl á einmitt eitt slíkt móment með móður sinni í lok bókarinnar.
GE: Á meðan á lestri stóð varð ég pirruð yfir því hvað aðalpersónan var óþolandi (sem hefur líklega verið ætlun höfunda), en það eru líka nokkur atriði fóru í taugarnar á mér vegna þess að mér þóttu þau ósannfærandi. Til dæmis það að hann prenti út af feisbúkk mynd af gellunni sem hann þráir og fari með hana upp í rúm. Hver prentar út mynd til að rúnka sér yfir henni? Nútímafólk fróar sér náttúrulega bara fyrir framan tölvuna.
David Hume |
GE: Svo má kannski minnast á það að Hákon Karl hittir „róttækling“ með rastahúfu á Saga Class (!) og kemur henni á óvart með því að vera fróðari en hún um umhverfisvernd og barnaþrælkun stórfyrirtækja. Þetta er blautur draumur frjálshyggjumanna sem myndu einmitt endilega vilja hitta hippalega stelpu á fyrsta farrými til þess eins að geta sagt: „þú ert á móti álverum, en flýgur þó í flugvél úr áli!“
KS: Bókin er alls ekki alslæm. Stíllinn er dálítið þreytandi einhæfur en bókin er ekkert illa skrifuð og er stundum fyndin. Eitt af því sniðugra eru tíðir feisbúkkstatusar Hákonar, sem eru alltaf á bæði ensku og íslensku og fullir yfirgengilegrar sjálfsblekkingar. Til dæmis þegar hann fer á Vinnumálastofnun að sækja um atvinnuleysisbætur en leggur fyrir framan Vox: Hákon Karl – The delicious chicken @ Vox always leaves you with the best of feelings J / Kjúklingabringan í basil sósunni skilur mann alltaf eftir með hlýjar tilfinningar. Eða þegar hann mætir einn á Ölstofuna og þykist þekkja hóp af ókunnugum mönnum til að lúkka ekki illa: Hákon Karl – Hanging with my boyz @ 101 – Með strákunum að djamma ...
GE: Það má finna það helst að bókinni hvað hún er léttvæg, bókin er alls engin þroskasaga vegna þess að Hákon lærir aldrei neitt af reynslunni. Það er enginn broddur í því að deila á gildi sem fólki þykja fáránleg í dag, þetta er eiginlega alltof auðvelt. Það vantar í rauninni eitthvað í bókina sem gerir það ómaksins vert að lesa hana frekar en meinhæðin blogg um útrásarvíkinga.
Kristín Svava og Guðrún Elsa
3 ummæli:
Einhvernveginn langar mig ekkert mikið að lesa þessa bók :)
Ekki mig heldur - en ég er hins vegar mjög ánægð með að hafa lesið þessa umfjöllun :)
Sammála, þetta er mjög skemmtilegt.
Skrifa ummæli