Ég er mikill reyfaraaðdáandi og er meira að segja í reyfaraklúbbi til að fá útrás fyrir þessar glæpsamlegu hneigðir. Um daginn ákvað klúbburinn að fara „back to the roots“ og lesa um frægasta og mögulega færasta ráðgátuleysara allra tíma – Sherlock Holmes. Fyrir valinu varð Hound of the Baskervilles eða Baskerville hundurinn sem kom út árið 1902. Höfundur Holmes, Arthur Conan Doyle, hafði reyndar nokkrum árum áður fengið sig fullsaddan af Holmes hvurs frægð og vinsældir ætluðu engan endi að taka. Doyle reyndi því að drepa sköpunarverk sitt í The Final Problem (1893) þar sem Holmes og erkióvinur hans Professor Moriarty takast á á bökkum Reichenbach fossins í Sviss með þeim afleiðingum að báðir falla í fossinn.
Þetta tiltæki vakti ekki mikla lukku aðdáanda Holmes (sem sumir tóku upp á að ganga með sorgarbönd) og Doyle var undir stöðugum þrýstingi að vekja hann upp frá dauðum - bæði frá æstum aðdáendum sem og gráðugum útgefendum. Árið 1901 heyrði hann á ferðalögum sínum þjóðsögu sem varð grunnurinn að Baskerville hundinum en þegar skrifin hófust vantaði hann sögumann og ákvað að lokum að fá Holmes og hans dygga aðstoðarmann Watson til verksins. Doyle leysti vandann sem dauði Holmes skapaði með því að láta söguna gerast áður en hann féll í fossinn.
En nokkru síðar lét Doyle svo undan þrýstingnum og dró Holmes upp úr fossinum í The Adventure of the Empty House sem á að gerast 1894. Árin á milli 1891 og 1894 eru oft nefnd The Great Hiatus af Holmes aðdáendum og eru til margar skemmtilegar útskýringar á því hvað hann hafði fyrir stafni þessi týndu ár. Ein sú áhugaverðasta snýr að því að Holmes hafi verið í fíkniefnameðferð hjá Sigmund Freud en eins og margir vita var spæjarinn frægi hallur undir kókaín og heróín en heldur dró úr neyslu hans í síðari bókunum.
Í Baskerville hundinum er Holmes hins vegar í essinu sínu og er Dr Watson gjörsamlega gáttaður á snilli meistara síns. Að vanda er það Watson sem segir söguna og byggir hana á dagbókarbrotum sínum og bréfaskriftum við Holmes. Málið snýst að þessu sinni um bölvun sem hvílir á Baskerville ættinni þar sem allir eigendur ættaróðalsins sjá risastóran froðufellandi hund skömmu áður en þeir mæta óútskýranlegum og óhugnanlegum dauðdaga. Öll sveitin trúir þjóðsögunni og jafnvel hinn jarðbundni Watson lætur blekkjast um stundarsakir – en ekki Sherlock Holmes! Hann leysir gátuna með vísindalegum aðferðum og meistaralegri afleiðslu.
Auðvelt er að sjá hversu mikla skuld vinsælir glæpaþættir nútímans á borð við CSI eiga Holmes og aðferðarfræði hans að gjalda. En tímarnir eru óneitanlega breyttir og það sem kom Holmes á slóðina rétt fyrir aldamótin 1900 myndi kannski ekki hjálpa mikið skömmu eftir aldamótin 2000. Þar má t.d. nefna hæfni hans til að rekja sígarettustubba til upprunans sem var áhrifaríkara þegar hver tóbakssali vafði sínar eigin sígarettur. Þá má ekki gleyma meistaralegum dulargervum Holmes en þau eru svo góð að jafnvel Watson þekkir ekki húsbónda sinn fyrr en hann heyrir rödd hans hljóma.
Ómögulegt er að setja sig almennilega í spor 19. aldar lesanda og átta sig á því hvort það eru sömu þættir sögunnar sem vöktu lukku þá og nú. Sjálf verð ég að játa að það er síður plottið sem heldur mér en dýrðlegar lýsingar Watson á Holmes: „[Holmes] burst into one of his rare fits of laughter as he turned away from the picture. I have not heard him laugh often, and it has always boded ill to somebody.“
Þá má hafa talsvert gaman af hugmyndinni um um Englendinginn sem háþróaðasta eintak jarðarbúa sem óneitanlega skín víða í gegn (þótt nýlendustefna Breta sé kannski ekkert gamanmál). Þeim Holmes og Watson þykir til að mynda ágætis hugmynd að senda sérlega ofbeldisfullan raðmorðingja til Suður-Ameríku – svo lengi sem Englendingar eru óhulltir er allt í orden! Þá kemur fyrir ótrúlega hress samanburður á færni til að greina leturgerðir dagblaða og beinabyggingu kynþátta.
Holmes er sjálfur mesta ráðgáta sögunnar – hrokafullur og hégómagjarn, einrænn og dulur – eins og Watson þreytumst við seint á að dást að honum. Ég átta mig ekki alveg á hvort ég les í lýsingum á Holmes einhvern vott af íróníu sem Doyle hefði aldrei kannast við eða hvort verið geti að höfundurinn hafi brosað út í annað þegar hann dustaði rykið af þessari persónu sem hann hélt hann hefði komið undir græna torfu...
Maríanna Clara
3 ummæli:
Ég las Baskerville-hundinn í þýðingu Kristmundar Bjarnasonar (bókin kom í ritröðinni Sígildar sögur Iðunnar útg. 1965), sem ég fann uppi í hillu hjá ömmu og afa, þegar ég var svona 10 ára. Ég man að ég lá undir súð í grenjandi rigningu um kvöld að lesa og var svo sturluð af spennu að mér fannst ég heyra í gólandi hundi úti í kartöflugarði.
Ég á svipaða minningu um þessa bók, var 10-11 ára þegar ég las hana. Lá samanhnipruð í óþægilegum stól heima hjá afa og ömmu í hálfrökkvaðri stofu, að deyja úr hræðslu en gat ekki lagt frá mér bókina.
Ég las hana einmitt á svipuðum tíma - hún eldist bara vel - er reyndar ekki eins óhugnanleg og mig minnti en þeim mun fyndnari!
Maríanna Clara
Skrifa ummæli