12. febrúar 2010
Svalið forvitni minni!
Oft hefur verið minnst á ævisögur og endurminningabækur á þessum slóðum enda er ævisagnalestur áhugamál margra okkar eða hreinlega ástríða og ævisögur raða sér gjarna á metsölulistana fyrir jólin. Stundum hneykslast menn á ævisagnaþorstanum, telja hann til vitnis um hnýsni og óþarfa forvitni um náungann. En ævisögur og endurminningabækur eru auðvitað margskonar og forvitni er líka mannkostur, í raun er heilbrigð forvitni hverjum manni nauðsyn.
Af eldri bókum eru endurminningar Hannesar Sigfússonar, Kristínar Dahlstedt, Benedikts Gröndals, Jóns Óskars og Eufemiu Waage í uppáhaldi hjá mér. Allar eru þær góð heimild um menningu, tíðaranda og mannlíf á tímum aðalpersónanna. Af erlendum endurminningabókum sem ég held upp á man ég í svipinn til dæmis eftir Speak Memory! Eftir Vladimir Nabokov og í sumar las ég ævisögu Hitlers og skrifaði um hana hér.
Sveinn Skorri Höskuldsson heitinn, sem kenndi mér nokkur námskeið við Háskóla Íslands, sagði einu sinni að stóri gallinn við ævisögur væri að maður fengi sjaldnast að vita það sem mann langaði raunverlega mest að vita um aðalpersónuna. Sitthvað er til í þessu, það er afar fátítt að fólk sjái sér fært að leggja öll spil á borðið, fyrir því liggja ýmsar ástæður og menn ritskoða meira að segja eigin dagbækur sem aldrei er ætlunin að komi út.
En spurningar dagsins eru eftirfarandi: 1) Hver er uppáhaldsævisagan þín og 2) hvaða manneskja, sem ekki hefur gefið út ævisögu sína, langar þig til að setjist niður og skrái lífshlaup sitt?
Þórdís
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
25 ummæli:
1) Ævisaga Gústafs V Svíakonungs.
2) Eiginkona mín. Hún er svo einstök.
Já, ævisaga Gústafs V er skemmtileg (og ég vona að eiginkona þín gefi sér tíma til að skrifa ævisöguna).
1) Strange fascination, ævisaga David Bowie. Kom skemmtilega á óvart hvað mér þótti hún áhugaverð á mörgum levelum - ég er svoddan Bowie-sökker að það hefði sennilega þurft tiltölulega lítið til að halda mér við efnið, en mér fannst hún semsagt mjög fín.
2) Föðuramma mín, fyrst fólk er að nefna ættingja (og seleb gefa út ævisögur fyrir þrítugt hvort eð er). Annars dettur mér í hug að amma gæti sagt stórkostlega skemmtilega frá æskuárum föður míns. Hann gæti það kannski líka, hún gerir bara meira af því.
Ævisögur hafa alltaf vakið áhuga minn og hann fer vaxandi með árunum. Ég á erfitt með að nefna uppáhaldsævisögu mína en hef líklega lesið ævisögu séra Árna Þórarinssonar eftir Þórberg oftar en flestar aðrar.
Úr fylgsnum fyrri alda eftir sr. Friðrik Eggerz er heillandi lesning og þá ekki síður hin knappa ævisaga Magnúsar Ketilssonar sem var afi Friðriks en Þorsteinn Þorsteinsson skrifaði hana. Ég er nýbúinn að lesa Amtmaðurinn á einbúasetrinu eftir Kristmund Bjarnason mér til mikillar skemmtunar. Frábærlega vel stíluð bók.
Mér finnst þær "samtalsbækur" sem gefnar hafa verið út á Íslandi síðustu 30 árin eða svo vera önnur tegund bókmennta en hefðbundnar ævisögur og vil helst ekki setja þær í sama flokk.
En ég les oft slíkar bækur mér til skemmtunar og nú síðast Lausnarstein, Steingríms St.Th. Sigurðssonar. M
Veröld sem var ber af
Las Kristínu Dahlstedt sem strákur, stórskemmtileg, sem og ýmsar fleiri sem ég man ekki í svipinn eftir sem lýstu mannlífi á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20.
Eftirtaldir einstaklingar finnst mér að ættu að skrifa ævisögu sína:
Magnús Þór Jónsson
Hjörleifur Guttormsson
Guðný Halldórsdóttir
Kristján Davíðsson
Þorsteinn skáld frá Hamri
Jóhanna Sigurðardóttir
Birna Þórðardóttir
Davíð Oddsson
Auto da Fay, ævisaga Fay Weldon er skemmtileg, sláandi og mögnuð. Annars held ég lítið upp á ævisögur og las til að mynda enga þeirra sem kom út í fyrra - 2009 var einmitt mikið ævisagnaár. Fólk notar ævisögur fulloft til að búa sig til og það getur verið svo ömurlegur lestur.
Dáldið sérstakt að Sorry Mister Boss skuli ekki komast á blað hjá þér.
Sorry mister Boss er náttúrlega í sérflokki Þorgerður enda held ég mest upp á ævisögur ófrægra. "Frægt" fólk er alltaf að búa sig til og skapa sér ímyndir - horfið bara á feisbúkkstatusa í því samhengi.
Uppáhaldsævisagan mín er "Virkir dagar" þar sem Guðmundur Hagalín skráir frásagnir Sæmundar Sæmundssonar hákarlaskipstjóra. Ævisaga séra Árna er auðvitað í sérflokki og ekki má gleyma fjórum bindum eftir Kristmann Guðmundsson. Frank Harris er líka á þessum lista.
Hvað seinna atriðið varðar, þá sagði pabbi einu sinni að rétt væri að skikka alla Íslendinga til að skrifa ævisögu sína. Síðan ætti að taka handritið af þeim með valdi og læsa það inni í skáp.
Stundum eru ævisögur heldur ekki gefnar út á ,,réttum" tíma, sbr. Heiðars snyrtis.
1) Ég held ég segi "Surely you're joking, Mr. Feynman" eftir og um Richard P. Feynman, þótt hún teljist reyndar frekar endurminningabók en eiginleg ævisaga. Finnst samt einsog ég sé að gleyma einhverri - bæti henni þá við síðar.
2) Pabbi minn. Og mamma líka.
Hvað er ég að ljúga? Ég las ævisögur Villa Vill og Gylfa Ægissonar í fyrra. Sú síðarnefnda er bráðskemmtileg, enda maðurinn ekkert að búa sig til.
1) Bæði bindi ævisögu Dorisar Lessing Under My Skin og Walking in the Shade
2) Að Lessing hætti þessu veseni og skrifi næstu nokkur bindi sem myndu spanna tímabilið frá 1962 fram á vora daga
Þegar ég var sextán ára var ég kominn á fremsta hlunn með að fara að skrifa sjálfsævisögu mína sem mér fannst að hlyti að verða með stærri bókum. Ég þakka forsjóninni því að ég skyldi ekki menga veruleika okkar með meiri óþarfa texta en þegar er orðið. Ég hafði meira að segja verið búinn að ákveða að hún skyldi öll skrifuð með sérstakri hljóðritunarstafsetningu, en ég hafði á þessum tíma gert mér upp alveg einstaklega ýkt linmæli.
Ég frábið mér hins vegar að móðir mín skrifi ævisögu mína, líkt og dóttir mín stakk upp á hér að ofan.
En, svo ég snúi mér aftur að spurningunni:
a) Leonardo da Vinci eftir Dmítríj Merezhkovskíj fannst mér stórskemmtileg ævisaga þegar ég var lítill drengur, líka ævisaga Júlíans guðvillings rómarkeisara eftir sama mann. Nú í dag finnst mér Egils saga besta ævisagan en Játningar Rousseaus besta sjálfsævisagan. Ég hef alltaf ætlað mér að lesa sjálfsævisögu Casanova, en aldrei lagt út í það. Mér finnst ekki ólíklegt að mér eigi eftir að finnast hún góð. Sömuleiðis fannst mér Dægradvöl Gröndals frábær bók.
b) Það þarf einhver að skrá niður æviminningar móðurafa míns, Stefáns Bjarnasonar (fæddur 7. maí 1910). Hann er enn vel ern og hefur frá mörgu að segja. Einnig væri ég til í að sjá ævisögu langafa míns, Einars Vestmann (1888-1976), en stuttur útdráttur af fyrirhugaðri ævisögu hans birtist í bókinni Lífskraftur á landi og sjó (Hörpuútgáfan 2006).
Nú ætla ég bara rétt að vona að njósnarar bókaútgefenda séu með blað og blýant og skrái hjá sér :)
Moab is my Washpot eftir Stephen Fry er skemmtileg - fjallar um fyrstu 20 árin hans og sagan af næstu 20 er væntanleg.
Gaman að einhver nefni Heiðar "tíski" eins og amma mín heitin kallaði hann alltaf. Ég man eftir að hafa svona 10 ára gömul vakað heila nótt við lestur þeirra æviminninga. Líklega verð ég aldrei söm...
Ævisaga Eufemíu Waage er náttúrulega alger snilld, ekki síst lokaorðin þar sem hún biðst afsökunar á að segja ekki fleiri slúðursögur:
„Hitt óttast ég, að mönnum kunni að þykja þessar minningar mínar bragðdaufar og kunni að sakna þar margra hluta, sem þeir hefðu þótzt vita, að ég kynni skil á. Einkum þykir mér trúlegt, að ýmsir Reykvíkingar hefðu treyst mér til að gera þessu betri skil. En þá, sem þannig er háttað um, bið ég afsökunar á að hafa valdið þeim vonbrigðum og læt svo þessa ritsmíð frá mér fara, þótt það sé með hálfu huga.“
Við þetta má svo bæta því að ég er staðráðinn í að skrifa ævisögu mína.
Bók Richard Ellmann um James joyce er fín og í miklu uppáhaldi hér. Annrs sýnist mér allar helstu Ísl. æviminningar vera komnar hér fram.
Finnst að Ásgeir Kolbeinsson eigi að taka sér tvö- þrjú ár í gera ævi sinni skil. Það gæti orðið vel skrifuð bók. Svo gleður það mig mikið að Tobba sem bloggar á dv.is, er að setja sig í stellingar og birtir mér til mikillar gleði reglulega highlights af pörunar tilburðum sínum.
Raunar tek ég yfirleitt ævisögur listamanna sérstaklega rithöfunda, framyfir ævisögur stjórnmálamanna og ríkisbubba. Hef meira gaman af þeim sem þurfa að búa í rómantískri fátækt og snýta sér í sokkana sína en nokkru öðru. Vel skrifuð ævisaga listamanns getur verið þrunginn af spennu og átökum, sérstaklega ef viðkomandi hefur verið utangarðs fram eftir ævi og átti í baráttu við ekki bara umhverfi sitt, heldur líka viðkvæmt sjálf.
Það væri tildæmis gaman að sjá bók um líf Steinars Sigurjónssonar, sú bók mundi uppfylla allt framangreint.
1. Sú yndislega bók Að breyta fjalli eftir Stefán Jónsson kemur fyrst upp í hugann, en ég tek líka undir með Páli Ásgeiri um séra Friðrik Eggerz, Úr fylgsnum fyrri aldar er ógeðslega skemmtileg.
Við það má bæta hinni stórfenglegu ævisögu Rósu Ingólfsdóttur, Rósumál, sem Jónína Leósdóttir skráði, og er ómissandi í hverju partíi. Sneisafull af erótískum myndum af Rósu í ofanálag.
2. Ég hefði sagt Rósa, ef hún væri ekki komin með ævisögu.
Mig langar til að skrifuð verði ævisaga Óskars Þóris Guðmundssonar.
Og vel á minnst á ég eftir að lesa ævisögu Önnu á Hesteyri, held að hún sé skemmtileg.
Minningabækur Ólínu Jónasdóttur eru góðar og vel skrifaðar af henni sjálfri.
Í barndómi eftir Jakobínu Sigurðardóttur
Skrifa ummæli