15. apríl 2011

Fótspor Áslaugar frá Rauðalandi


Í norskri Hjálpræðishersverslun, eða Fretex, datt ég í bækur. Og auðvitað var hornið með gömlu bókunum mest spennandi. Í þessu horni var bók sem einhverra hluta vegna fangaði athygli mína. Ég fór að glugga í hana þarna á staðnum og mér fannst innihaldið toga mig svo til sín að ég gat ekki annað en keypt bókina. Þetta var ljóðabókin Fotefár (Fótspor) eftir Aslaug Vaa, gefin út af Aschehoug árið 1947, í ódýru og yfirlætislausu bandi eins og títt hefur verið með ljóðabækur.

Eintakið hefur höfundur áritað og gefið í jólagjöf 1949, eða alla vega gefið um jólaleytið (Joli 1949 stendur þar skrifað): „Kjære Finn. Med takk for dette året! Hjarteleg helsing, Aslaug V“. Finnur þessi virðist ekki hafa verið gefinn fyrir ljóðalestur, alla vega hafði hann ekki fyrir að skera nema fyrstu þrjár arkirnar og las því ekki lengra en að blaðsíðu 25, en bókin er 65 síður að lengd. Ég man ekki hvenær ég fékk síðast í hendur bók með óskornum örkum og naut þess vel að ljúka skurðinum fyrir Finn.

Aslaug Vaa fæddist 1889 í Rauland í Telemark og ólst upp í því héraði. Hún starfaði sem blaðamaður og þýðandi í Noregi en bjó líka um skeið bæði í París og Berlín með eiginmanni og börnum og nam þá franskar bókmenntir, listasögu og leikhúsfræði. Það vill svo til að dóttursonur hennar hélt fyrirlestur á Íslandi í vikunni, stjórnmálaheimspekingurinn Jon Elster. Vaa var orðin 45 ára þegar hún gaf út sitt fyrsta höfundarverk, ljóðabókina Nord i leite (1934). Auk átta ljóðabóka skrifaði hún fjögur leikrit. Hún dó árið 1965.
Fotefár er eins og önnur verk Vaa skrifuð á nýnorsku og væntanlega einhverri Þelamerkurútgáfu af henni. Mér finnst einhvern veginn allt önnur tilfinning að lesa nýnorsku en norska bókmálið, það er eins og sambandið við málið verði eitthvað persónulegra, líklega vegna þess hve mikið líkari nýnorskan er íslenskunni. Í bókinni má til dæmis rekast á ýmis orð sem ég man ekki til að hafa séð í annarri skandínavísku, eins og „andlit“, „tindar“ og „stutt“ (svo örfá dæmi séu tekin). Oft er um að ræða íslenskulegar myndir af orðum sem finna má í flestum norrænum málum, eða setningagerð og orðasambönd sem minna á íslensku.
Ýmsir bragarhættir koma fyrir í bókinni en flest eru ljóðin þó á frjálsu formi, óbundin af bragfræðireglum. Vaa virðist hvorki hafa verið það sérstakt metnaðarmál að fylgja slíkum reglum né að hunsa þær, hún gerir það sem hentar hverju sinni, sitt á hvað. Yrkisefnin eru af ýmsum toga en náttúran er áberandi sem og það sem við getum kallað hið manneskjulega. Ljóðin hafa mörg á sér draumkenndan blæ, sum hafa erótíska undirtóna og mörg fela í sér einhvers konar ákall til réttlætis. Það má kannski segja að Vaa fjalli um náttúruna og jörðina, samband manns og náttúru, sambönd manna hvers við annan, bæði á einhvers konar glóbal grundvelli og persónulegum, og svo innra líf einstakra manna. Náttúrulýsingar úr heimahögunum eru í bland við hugleiðingar um stöðu mannsins í heiminum. Í ljóðinu Eg deilir Vaa til dæmis á drottnunargirni og ofmetnun mannsins gagnvart náttúrunni, eða bara heiminum öllum:




Dag einn hef ég þvingað ána til að stansa,
spyrjandi starir hún á mig úr stíflunni
og kallar mig herra.
Þann daginn sem ég hamdi kraft árinnar
og gerði hann að þjóni mínum,
fann ég himin og jörð
hvíla í hendi mér.
Það var þá sem ég fór að velta fyrir mér
hvort það væri ekki ég
sem hefði skapað þau.
(úr Ég)



Pólitíska vitund má greina í fleiri ljóðum í bókinni, meðal annars í titilljóðinu Fotefár sem fjallar um meðferð þeirra „sem hugsa í tölum“ á Afríkubúum. Afríka og samspil Afríku og Vesturlanda virðast hafa verið Vaa hugleikin því eitt af leikritum hennar, Honningfuglen og leoparden (samið og uppfært 1955), fjallar um togstreitu Vestur-Afríkumanns sem snýr aftur til heimahaganna eftir langa dvöl í Norður-Evrópu.

Það sem snertir mig hvað dýpst við bókina er hvernig Vaa nær að sveifla sér fyrirhafnarlaust úr því að horfa inn á við yfir í að horfa út, til dæmis til fjarlægra fjalla, og hvernig maður virðist fylgja henni allan tímann. Í rauninni má kalla þetta baráttubók, hún fjallar um innri baráttu sem ytri og gerir það á einhvern skemmtilega svífandi hátt.

4 ummæli:

Erling sagði...

Takk fyrir skemmtilegt blogg það vantar oft svona í okkar bloggheimi.

Garún sagði...

Vel skrifuð og skemmtileg rýni, Eyja! Haltu áfram að skrifa :-)

Þórdís Gísladóttir sagði...

Dúkristan á kápunni er ansi fín.

Nafnlaus sagði...

Gott innlit, hjá þér í bók og hjá mér í blogg. Takk, Eyja.

Ásdís Thoroddsen