17. apríl 2011

Strákabókmenntir?


Í kvöld verður fyrsti þátturinn af Game of Thrones frumsýndur á HBO-rásinni í Bandaríkjunum. Þáttaröðin er byggð á samnefndri bók eftir George R. R. Martin, en sú er fyrsta bókin í Song of Ice and Fire bókaröðinni. Bækurnar hafa verið fyrirferðarmiklar á metsölulistum (m.a. New York Times) og hefur þáttaraðarinnar því verið beðið með mikilli eftirvæntingu.

Bækurnar eru fantasíur og gerast í ímynduðum heimi þar sem má m.a. finna dreka, riddara og blóðþyrst kóngafólk. Efni þeirra er svo viðamikið að það verður varla rakið í stuttu máli, en meginþemað er ef til vill þorstinn eftir völdum, hvað fólk er tilbúið að leggja í sölurnar fyrir völd, hvað verður um þá sem standa í vegi þeirra og alla hina sem lenda saklausir í hringrásinni miðri. Og Hringadróttinssaga (með öllum sínum ættartölum og fjölmenna persónugalleríi) sem lengi hefur verið talin með epískari bálkum, er næstum einsog einföld barnabók við hliðinni á ofur-epíkinni hjá Martin.

Grein á heimasíðu New York Times um þáttaröðina hefur vakið nokkra eftirtekt í netheimum undanfarið. En þar furðar greinarhöfundur sig á því að HBO hafi farið í framleiðslu á þáttunum, því þeir muni á engan hátt höfða til kvenna, þó greinilega hafi verið reynt að troða nokkrum kynlífssenum og svolitlu sifjaspelli inn til að reyna að gera öllum til geðs. Greinarhöfundur skrifar:
„The true perversion, though, is the sense you get that all of this illicitness has been tossed in as a little something for the ladies, out of a justifiable fear, perhaps, that no woman alive would watch otherwise. While I do not doubt that there are women in the world who read books like Mr. Martin’s, I can honestly say that I have never met a single woman who has stood up in indignation at her book club and refused to read the latest from Lorrie Moore unless everyone agreed to “The Hobbit” first. “Game of Thrones” is boy fiction patronizingly turned out to reach the population’s other half.“

Ég hef sjálf lesið þrjár og hálfa* af þeim fjórum bókum sem þegar eru komnar út í flokkinum og ég get ekki annað en tekið undir með þeim sem undrast þessi orð hér að ofan. Því þó fantasíur af þessu tagi hafi lengi verið taldar strákabókmenntir (þótt ég hafi lesið einhversstaðar að konur séu a.m.k. helmingur kaupenda slíkra bóka), þá ætti Game of Thrones einmitt að höfða vel til kvenna. Þar er ekki hin týpíska karlkyns hetja í forgrunni, heldur flakkar sjónarhornið á milli margra persóna. Án þess að ég hafi farið í hausatalningu á köflunum, þá held ég að sjónarhornið sé síst minna hjá konum en körlum. Kvenhetjurnar eru mjög ólíkar og á mismunandi aldri, en það sem þær eiga allar sameiginlegt er hversu sterkar þær eru, hver á sinn hátt. Í bókinni má þannig m.a. finna undurfögru, undirförulu og stórhættulegu drottninguna Cersei, hina hugrökku Caitlin, óknyttastelpuna Aryu sem stelst til að æfa sig í skylmingum þegar hún á að vera að sauma út, hina rómantísku Sönsu og svo Daenerys sem drottnar jafnt yfir drekum og blóðþyrstum hirðingjum. Sagan sjálf er svo hápólitísk átakasaga með undirferli, svikum og prettum.

Og það eru raunar persónurnar, jafnt kven- sem karlpersónurnar, sem mér finnst helsti kostur bókanna. Því þrátt fyrir að þær séu æði margar þá eru þær margbrotnar, flóknar og manneskjulegar. Og ef ég held samanburðinum við Hringadróttinssögu áfram, þá fellur Martin aldrei í þá gryfju að vera með svart/hvítar eða algóðar/alslæmar söguhetjur. Því hann á það nefnilega til að draga upp einhliða persónu og lýsa henni úr fjarlægð, og hoppa svo inn í hana í næstu bók og neyða mann til að fá samúð með, eða að minnsta kosti skilja, persónu sem maður var búinn að ákveða að væri argasta illmenni.

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig má flokka svona bækur sem „boy fiction“, en viðurkenni jafnframt fúslega að ég þekki fullt af strákum sem hafa lesið bækurnar en bara eina stelpu. Mér finnst það skrýtið, því ég þekki þær margar sem hafa legið í Hringadróttinssögu, Harry Potter, Eragon og öðrum fantasíum. Hvað haldið þið að valdi? Afhverju eru svona fantasíur, með drekum og riddurum, „strákabækur“?

*Mér finnst rétt að taka fram að ég hætti ekki að lesa fjórðu bókina af því að mér leiddist. En uppbygging þeirra er þannig að hver persóna fær langan kafla þannig að maður er farinn að lifa sig mikið inn í hennar þráð af sögunni, og svo þegar er stokkið yfir til annarrar persónu þá getur maður farið í svolitla fýlu því mann langar að halda áfram að lesa um persónuna sem maður var að lesa um (þó næsti kafli sé alveg jafn skemmtilegur, maður þarf bara að gefa sér tíma til að komast inn í þann hluta sögunnar aftur). Semsagt, það sem ég er að reyna að segja er að þetta eru bækur sem er auðvelt að leggja frá sér á kaflaskilum og gleyma að taka upp aftur.

P.S. Ég hef annars engar áhyggjur af því að konur muni ekki horfa á þáttaröðina. Því það er enginn annar en ofurfolinn Sean Bean sem leikur þar eitt af aðalhlutverkunum (og á mínu heimili höfum við einmitt verið að rifja upp gamla takta hans með því að horfa á Sharpe myndirnar sem voru alltaf á RÚV svona níutíuogeitthvað).


P.P.S. Áhugasamir geta horft á brot úr fyrsta þættinum af Game of Thrones hér.

2 ummæli:

Unknown sagði...

Stereótýpan utan sæfæ/fantasíu nördakreðsunnar er að þetta sé allt saman strákabókmenntir.

Stereótýpan innan sæfæ/fantasíu nördakreðsunnar er að fantasíuhillan sé handa stelpunum (mínus viss undirgenru) og sæfæhillan sé handa strákunum.

Bæði er náttúrulega rugl og vitleysa.

Nafnlaus sagði...

Vá, þvílíkt rugl...

BTW ég er sammála með ástæðuna þína fyrir að hætta að lesa bækurnar, en ég leysti það einfaldlega með því að lesa kaflana ekki í réttri röð. Með öðrum orðum, ég klára marga kafla fyrir hverja persónu, og skipti um persónu þegar mér sýnist. Virkar vel, fyrir mig allavega :-)

Svo eru sumar persónur sem mér er alveg nokk sama um... eins og t.d. Iron Islands fólkið. Ég hraðles þá kafla, eða sleppi þeim alveg.